Hulda Karen Ólafsdóttir skrifar:
Breytingar í lífi fólks þegar maki deyr hafa mikil áhrif, enda þarf fólk að glíma við sorgina og um leið að velta því fyrir sér hvernig það komist af án hans eða hennar. Hugsunin getur því verið nánast óbærileg.
Árið 2012 stóð ég í slíkum sporum og vissi ekki hvernig ég ætti að komast af án maka míns, en við höfðum deilt lífinu saman í 43 ár. Ég var ringluð og í áfalli í marga mánuði, en smátt og smátt áttaði ég mig á því að ég yrði að endurmeta líf mitt. Ég var því mjög tvístígandi þegar synir mínir sem alltaf hafa stutt við bakið á mér, hvöttu mig til þess að breyta til og sögðu:
„Mamma, hvers vegna gerirðu ekki eitthvað róttækt, ferð til dæmis til Noregs? Þig hefur nú oft langað til þess að kynnast annarri menningu og nú er tækifærið?“
Ég er frekar vanaföst manneskja og fannst í fyrstu að þetta væri fáránleg hugmynd. Ég að nálgast sjötugsaldurinn – að stíga út úr þægindarammanum? – þá væri nú betra að sitja heima og horfa á naflann á sér. Og hvers vegna í ósköpunum ætti ég að fara?! Allt mitt hér heima, minningarnar um horfinn ástvin, heimilið okkar, fjölskyldan mín og ekki síst aldraðir foreldrar sem mér fannst óhugsandi að ég gæti farið frá.
Þegar frá leið sannfærðist ég þó um að ég gæti nú alveg farið. Elsti sonur minn býr að vísu í Noregi með fjölskyldu sinni, þannig að ég yrði svo sem ekki alveg ein þarna úti. Í september 2013 skrapp ég síðan í heimsókn til Noregs og skoðaði mig um. Sonur minn ræddi þessa hugmynd nánar við mig og þá fór ég alvarlega að hugsa mér til hreyfings. Tengdadóttir mín fór með mig í heimsókn á elliheimili í Moi þar sem hún starfaði þá og kynnti mig fyrir yfirmanni sínum sem tók mér vel. Hún vildi fá mig í vinnu og hvatti mig til þess að sækja um vinnuna, sem ég og gerði.
Um veturinn ákvað ég að fara á norskunámskeið fyrir heilbrigðisstéttir við Háskóla Íslands vegna þess að ég hélt að tungumálið gæti orðið mér erfitt. Að námskeiðinu loknu sannfærðist ég um að ég gæti alveg bjargað mér, tungumálið yrði ekki vandamál, aðeins verkefni sem ég gæti leyst.
Þetta var auðvitað ekki auðveld ákvörðun, að taka sig upp og fara. Og það eitt að þurfa að kveðja fólkið sitt var eitthvað sem var mér mjög ofarlega í huga, en hvað – ég gæti nú komið í heimsókn þegar söknuðurinn væri alveg að buga mig eða snúið aftur heim í kotið mitt þegar mér sýndist komið nóg.
Ég skellti sem sagt kotinu í lás og ók sem leið lá til Seyðisfjarðar með öll fötin mín í farteskinu, nokkrar bækur, tölvuna mína og hélt á vit ævintýra í Noregi.
Leiðin var mér frekar erfið en ég hafði ákveðið að taka nokkra daga í ferðina austur. Og er ánægð að hafa gert það, vegna þess að tilhugsunin um öll ferðalögin sem við hjónin höfðum farið um landið og staðina sem ég ók um, varð ákveðin lækning fyrir mig. Ferðin gerði mig sterkari, þó svo að oft væru tilfinningarnar erfiðar og stundum rynnu tár niður kinnarnar, ekki af sorg heldur gleði yfir yndislegum minningum um okkur saman. Á leið minni kvaddi ég vini og vandamenn sem tóku mér opnum örmum og skutu yfir mig skjólshúsi.
Sigling með ferjunni er nú ekki alveg það skemmtilegasta sem maður gerir, svo að ég tali nú ekki um það að vera einn á ferð. En ég hitti skemmtilegt fólk á leiðinni og það bjargaði ferðinni. Og ekki skemmdi fyrir, þegar ferjan kom til Færeyja, að góður vinur okkar hjónanna tók á móti mér. Hann ók með mig um eyjuna og bauð mér síðan út að borða. Síðan vildi svo óheppilega til að ferjan bilaði í Þórshöfn, þannig að ég fékk lengri tíma í Færeyjum en í staðinn missti ég af ferjunni í Hirtshals. Varð auðvitað að kaupa mér nýjan farmiða og er enn að röfla í Smyril Line, hvort þeir ætli ekki að bæta mér skaðann.
Þegar ég kom til Kristiansand með ferjunni frá Hirtshals var komin nótt og þegar nefið á ferjunni opnaðist var rigningin svo mikil að maður sá eiginlega ekki út úr augunum. En þá var bíllinn minn fremst á rampnum og ég hélt ég myndi deyja úr lofthræðslu enda ökuleiðin niður úr ferjunni hál og rennandi blaut. En þetta hafðist allt saman og ég komst á mótelið þar sem ég hafði pantað gistingu.
Þá tók nú ekki betra við því allt var lokað og læst og ég stóð þarna úti í öskrandi rigningunni. Ég gat síðan náð sambandi við vaktina og fékk lykil að herberginu mínu. Þessi nótt líður mér seint úr minni því á meðan ég stóð þarna fyrir utan kom til mín maður, holdvotur og drukkinn. Ég skildi ekki mikið í því sem hann sagði á einhverju austantjaldstungumáli sem ég gat ekki greint. Það fyndna var að ég hafði það á tilfinningunni þar sem við stóðum saman þarna í rigningunni, að ég væri „drottning“. Því aumingja maðurinn bugtaði sig og beygði eins og hann héldi að ég væri sjálf Danadrottning.
En þarna stóð nú bara stór og stæðileg íslensk kona fyrir framan hann, í síðri svartri regnkápu úr Hagkaup.
Mikið varð ég fegin þegar vaktmaðurinn kom og opnaði fyrir okkur. En vesalings maðurinn ætlaði aldrei að hætta að hneigja sig fyrir mér og þakka fyrir hjálpina við að komast inn á mótelið því hann var ekki með farsíma eins og „drottningin“.
Nóttin á þessu móteli var erfið því mér fannst ég nánast vera inni í næsta herbergi þar sem pör voru greinilega að skemmta sér, það var pínlegt. En sólin skein í heiði daginn eftir þegar ég vaknaði eftir darraðardans næturinnar. Síðan ók ég sem leið lá beint til Moi. Eins og ég hefði ekki gert neitt annað, með Bo í geislaspilaranum.
Hér í Moi er yndislega fallegt en staðurinn er í Suður-Noregi. Hér hefur sumarið verið eins og best verður á kosið og það er bara alltaf logn!
Vinna er næg og ekki skemmir að launin eru góð. Ég verð samt að segja að það er skrítin tilfinning að læra inn á alla hluti og ekki síst að komast inn í orðaforðann til þess að hafa allt á hreinu í vinnunni.
Fyrstu vikuna var ég svo þreytt að ég sofnaði nánast ofan í matardiskinn minn. Flestir eru mjög hjálpsamir, en öðrum er hreinlega alveg sama um þessa íslensku kerlingu sem er komin til Moi. Hérna býr fólk hvaðanæva að úr heiminum enda er hér í Moi móttaka og aðstoð fyrir flóttafólk.
Það er skrítin tilfinning að finna fyrir rasisma hjá gömlu fólki, ef það skilur ekki allt sem sagt er við það. Sumir fussa og sveia beint framan í útlendingana sem þarna vinna. En hér vinnur fólk frá mörgum löndum eins og Rússlandi, Erítreu, Slóveníu og Finnlandi svo eitthvað sé nefnt.
Ég upplifi að gamla fólkið sé alveg ruglað á þessum útlendingum. En flestir eru þó yndislegir og ekki skemmir að ég er íslensk. Nokkrir hafa meira að segja verið að kenna mér kvæði og syngja gamla norska slagara. Enda yfirleitt tekið vel á móti Íslendingum hér í Noregi.
Mér gengur vel í dag að tala norsku og hef lært mikið síðan í maí. Og eins og ég sagði fékk ég strax vinnu sem vikar (ekki fast starf) sem mér fannst þó ótryggt og sótti því um aðra vinnu í ágúst. Var svo heppin að vera tekin í viðtal og viti menn, fékk fasta vinnu en það er ekki auðvelt hér í Noregi. Föst vinna í heilbrigðisgeiranum er gulls ígildi og tekur smátíma að fá hana, er mér sagt af norskum vinnufélögum mínum.
Mér finnst Noregur yndislegt land og hef hugsað mér að vera hér næstu þrjú árin. Mér þykir vænt um landið mitt Ísland og er ekki reið né bitur Íslendingur í Noregi. Heldur sé fram á að ég gæti hugsanlega átt góða daga hér, án þess að þurfa að lepja dauðann úr skel eða jafnvel eyðileggja heilsuna með þrældómi á efri árum heima á Íslandi til að hafa í mig og á.
Í dag hef ég góð laun og get ferðast og skoðað mig um og átt um leið góðar stundir með barnabörnunum mínum í Noregi. Sakna auðvitað fólksins heima en get skroppið heim þegar söknuðurinn er orðinn mikill.
Sumum fannst þetta glapræði að ég – kona á sjötugsaldri – skuli vera að þvælast þetta og taka mig upp úr örygginu heima. En hvaða öryggi er það að geta varla brauðfætt sig á efri árum? Launamál í Noregi eru á allt öðru stigi en heima á Íslandi, það vita þeir sem það hafa reynt.
Hér í Rogaland er olíuauðurinn talinn vera mikill og svæðið ber keim af ríkidæmi fólks, sérstaklega í Stavanger. Samt sem áður er verið að segja upp fólki hjá olíufyrirtækjunum hér á svæðinu. Mér er sagt af þeim sem til þekkja að þetta sé pólitískt útspil hjá olíufyrirtækjunum til þess að þrýsta á ríkisstjórnina. Þeir vilji fá frekara leyfi til verkefna og gróðavonin er fyrir hendi en veltur á velvild yfirvalda um áframhaldandi boranir á hafsvæðinu í kringum Noreg.
Það sem vekur athygli mína og við getum lært af er hversu Norðmenn eru snjallir að fara vel með peningana sína. Hér er ekki verið að æða í sjoppuna, allir útbúa sér matarpakka og alls staðar er hægt að stoppa bílinn sinn og borða nestið sitt ef verið er að fara á milli staða. Eitt sem ég tók eftir þegar ég kom hingað er hversu góðu formi margir eru í, greinilega er mataræðið að gera sitt. Þó svo mér líki nú ekki allur maturinn hjá þeim, en það er nú önnur saga.
Norðmenn hafa eitt fram yfir okkur en það er að geta lagt fyrir og sparað. Þeir eru ekki nískir, eins og ég hafði heyrt áður en ég kom hingað. Sei, sei, nei! Þeir fara vel með sitt og eru gestrisnir, að vísu er ekki auðvelt að kynnast þeim en þá verður maður bara að leggja sig fram og gefa sig á tal við fólkið. Enda er nægur tími til þess því vinnutíminn er allt öðruvísi hér en heima á Fróni.
Nýja starfið mitt er gott og yndislegt fólk sem þar vinnur. Ég sé að hér get ég unað vel við mitt og lagt fyrir enda tel ég mig hafa dottið í lukkupottinn og sé ekki eftir því að hafa komið til Noregs.
Kveðja heim til Íslands!