Vín vikunnar ber angan af blómum og sultuðum ávöxtum og er bæði frískandi og lymskulega höfugt. Liturinn er aðlaðandi gylltur eða gulleitur. Það er tignarlegt í nefi með reyktum keim af sýruríkum gulum ávöxtum. Slíkur ferskleiki býður upp á óviðjafnanlega skerpu og fágun. Í munni finnur maður perur, gular plómur og bökuð epli sem veita góðri fitu fullkomið mótvægi. Eiginleikar þessir gera vínið framúrskarandi gott með mat. Vín vikunnar er Pfaff Pinot Gris A.O.C. Alsace 2012 frá Alsace héraðinu í Frakklandi.
Alsace er eitt þekktasta vínhérað Frakklands. Það er staðsett við landamæri Frakklands í austri og liggur að Þýskalandi og Sviss eftir vesturbakka Rínar. Höfuðborg Alsace er Strassbourg þar sem stór hluti af stjórnvaldi Evrópusambandsins er með bækisstöðvar.
Alsace hefur þó verið þekktara fyrir vínrækt í gegnum aldirnar og má segja að fáir staðir í Frakklandi bjóði upp á jafn fjölbreyttan jarðveg og þetta litla hérað. Landsvæðið er sannkalluð mósaik-listaverk samansett af kalksteini, klettum, möl, leir og sandi. Þess vegna getur verið geysimikill munur á víni gerðu úr sömu þrúgum frá svæðum sem þó eru nálægt hvert öðru.
Alsace er meðal fyrstu svæða í heiminum sem tiltekur þrúgutegundir á flöskumiðanum og eru sjö tegundir leyfilegar; Pinot Blanc, Sylvaner, Riesling, Pinot Gris, Muscat, Gewurstraminer og Pinot Noir. Alsace er þekktast fyrir hvítvín í heimsklassa en þar eru líka gerð framúrskarandi freyðivín (Crémant) og einstaka rauðvín úr Pinot noir þrúgum. Vínekrur Alsace liggja í kringum lítil miðaldaþorp sem skarta þröngum steinlögðum götum og rómantískum timbur- og múrsteinshúsum með blómakerjum í hverjum glugga. Þessi heillandi blanda af franskri og þýskri menningu skilar sér í víngerðina.
Eitt þessara fallegu þorpa er Pfaffenheim. Þar stofnuðu vínræktendur og bændur samvinnufélag (e: co op) fyrir víngerðina í kringum þorpið árið 1955. Félagið hefur vaxið og dafnað og hefur nú hlotið flestar viðurklenningar Búnaðarþings Frakklands (Fr: Concours Général Agricole de Paris) og stendur almennt framar öðrum framleiðendum í Alsace. Víngerðin vinnur eingöngu með bændum sem handtína þrúgurnar af vínviðnum og krefst stöðugra framfara og nýsköpunnar af ræktendum sínum til að geta haldið áfram að búa til framúrskarandi vín.
Vín frá Pfaffenheim hafa lengi verið fáanleg á Íslandi. Þau hafa jafnframt verið á meðal vinsælustu hvítvína í Vínbúðunum og lang söluhæstu hvítvínin frá Alsace. Eitt þessara vína er Pfaff Pinot Gris A.O.C. Alsace 2012 sem fæst að sjálfsögðu í Vínbúðinni.
Vegna þess hve höfugt vínið er gæti það vel leyst af rauðvín með kjötréttum, patéum, pylsum, skinkum, villibráð og fuglakjöti. Það er fullkomið með feitum lifrakæfum (Foi Gras). Það virkar líka mjög vel með reyktum fiski og svepparisotto og stendur í þokkabót mjög vel eitt og sér í góðum félagsskap.