Í það minnsta finnst mér ég vera það þessa dagana. Og vikurnar. Vanhæf móðir.
Af hverju? Nú, ég ræð engan veginn við tæplega fimm mánaða gamlan son minn. Barnið sefur ekki, hvorki að nóttu né degi. Eins og einhverjir lásu bloggið mitt fyrr í haust hélt ég úti einka-svefnkennslu fyrir Emil minn, en allt kom fyrir ekki. Já, bara alls ekki!
Er búin að reyna öll trixin í bókinni. Öll. Gefa ábót, gefa að borða, stytta dúra, færa dúra, snudda, rugga og sofa í öðru herbergi. Emil Gíslason varðar akkúrat ekkert um þetta vandamál. Hann bara heldur sínu striki og vaknar á 50 mínútna fresti á nóttunni og sefur kannski í tvo tíma yfir daginn með því að skrapa öllum ördúrum saman. Vaknar að vonum dragúldinn og pirraður og er eins og heftiplástur á mér allan daginn án þess að ég hafi nokkra innistæðu til þess að vera með hann stanslaust í fanginu.
Nú hugsa lesendur. Æi greyið, fyrsta barn ossonna, byrjunarhnökrar. Já, nei, nei. Litli púkinn er mitt fjórða barn. Vantar ekki reynsluna, er hokin.
Hin voru reyndar svona líka, kol-vita-vitlaus fyrsta árið. Ástandið kemur mér því ekki á óvart en verð þó að viðurkenna að ég eygði örlitla von um að örverpið myndi hugsanlega haga sér.
Til dæmis um það fór ég með dóttur mína til barnalæknis þegar hún var tíu mánaða og spurði hann hreint út hvort mögulegt væri að barnið væri andsetið. Það fannst ekkert að henni, hún bara svaf ekki og var vansæl. Um sama leyti fór ég ásamt fleirum á fótboltaleik til Liverpool. Sofnaði yfir, You never walk alone, meðan aðrir grétu. Er líklega eini Íslendingurinn sem hefur hrotið á Anfield.
Á meðgöngu á ég sjálf við svefnvandamál að stríða. Gersamlega óþolandi. Ekkert að angra mig, nema ég bara sef ekki. Telst því til að ég sé ekki búin að ná djúpsvefni í átta eða níu mánuði.
Svefnleysi hefur einnig alvarleg áhrif á geðheilsu og þráðurinn þessa dagana því hvorki langur né þykkur sem svo auðvitað bitnar á þeim sem síst skyldi. Er skíthrædd um að klessa algerlega á vegg einn daginn.
Get ekki meira. Er alveg pass. Svefntruflanir eru pyntingaraðferð í sumum fangelsum. Ég er ekki hissa, þetta er ógeðslegt. Vaknaði með hjartsláttartruflanir í vikunni vegna ofþreytu. Líður alla daga eins og ég hafi verið á blindafylleríi kvöldið áður.
Finnst eins og ég sé með moð í hausnum og hangi í lausu lofti inn í sápukúlu. Man ekki neitt. Langar að láta leggja mig inn á sjúkrahús eða heilsuhæli og sofa og sofa. Þar til um jól.
Hjálp. Ef einhver þekkir svona fígúrugang í ungbörnum eru öll ráð vel þegin hér í kommentum eða í skilaboðum á Facebook síðu bloggsins, sem ég hvet alla endilega til þess að „læka“