Síðan hrunið varð árið 2008 höfum við, almenningur, ætlast til að stjórnmálamenn forgangsraði á annan máta en gert var fyrir hrun.
Ef maður hugsar um það þá er þetta svolítið eins og að ætlast til að eins árs barn geti lesið Hamlet upphátt á þremur tungumálum. Sem sagt stjarnfræðilega vitlaust.
Stjórnmálamenn sem hafa verið í flokkspólitík í meira en 7–10 ár hafa hreinlega ekki forsendur til að breyta um starfsaðferðir, skoðanir eða máta að gera hlutina á. Þeir eru meira og minna orðnir hluti af stjórmálamaskínu sem lýtur leiðsögn og tilsagnar hagsmunaaðila og stjórnsýslu.
Þeir hafa ekki forsendur til að opna hug sinn eða breyta aðferðum af því að enginn í þeirra nánasta umhverfi er að fara fram á það. Þeir umgangast hver annan, annað fólk í stjórnsýslunni sem er oft já-bræður og svo hagsmunaaðila sem vilja ekki breyta neinu því þá skerðist þeirra hluti af kökunni.
Það er örugglega ekki mikil innanhússgagnrýni sem á sér stað, ef frá er talið niðurrifs-rifrildar-ruglið í þingsal, sem getur ekki talist uppbyggileg gagnrýni á nokkurn máta.
Sem sagt, það er ekkert í umhverfi þeirra sem segir þeim að 414.000 kr. í laun sé ekki til staðar hjá um 70% af almenningi eða að útreikningar á kaupmætti, hagvexti og hvað sé borgað í húsnæðiskostnað séu ekki eins eftir stofnunum og því frekar hæpinn mælikvarði á lífsafkomu yfirhöfuð.
Það er örugglega heldur enginn í umhverfi þeirra sem talar um að við þurfum að skilgreina okkur og stöðu okkar sem þjóðar og samfélags, fyrir okkur sjálf og alþjóðasamfélagið. Að við þurfum í raun að gera samfélagslega SVOT-greiningu út frá því að við séum smátt eyríki með þá plúsa og mínusa sem því fylgir. Og það er nokkuð ljóst að það er enginn sem segir bannorðið langtímaáætlun í eyru stjórnmálamanna á Íslandi og samt er það eitt af því sem okkur vantar svo sárlega til þess að eignast einhvern stöðugleika í þjóðfélaginu.
Stjórnmálamenn eru nefnilega ekki alvitrir og hafa lítinn tíma til að setja sig inn í hlutina, þeir treysta á fræðingana í kringum sig og almenningur getur að engu leyti gengið út frá að hagur hans sé þar í forgrunni.
Núna, sex árum eftir hrun með hægristjórn við völd er alveg kristaltært að nándin við almenning er akkúrat ekki nein. Líkurnar á því að stjórnmálamenn geti sett sig inn í líf þorra almennings og hvaða breytingar þyrfti að gera á forgangsröðun, hvað þá reyna að skilgreina okkur sem samfélag, eru jafn miklar og að það frjósi í helvíti, en eins og alþjóð veit gerist það ekki fyrr en Íslendingar vinna Dani í fótbolta, sem sagt aldrei.