Það er upplagt að breyta til og fá sér chiagraut af og til. Chiafræin eru þrátt fyrir smæð sína alveg ofurnæringarrík. Stútfull af kalki, Omega 3, Pótassíum og járni og tvöfalt meira af andoxunarefnum en í sambærilegum skammti af bláberjum. Chiafræin eru seðjandi því þau draga í sig tífalda þyngd sína í raka. Alltaf gaman að prófa eitthvað nýtt og hollt.
Hér er frábær uppskrift frá Sollu á Gló og myndband þar sem hún kennir þetta skref fyrir skref.
Þetta er enginn vandi!
Chiagrautur:
½ dl chiafræ
3 dl vatn
Útá grautinn:
½ epli, skorið í bita
jurtamjólk eða lífræn kúamjólk
1 msk fræ (t.d.hampfræ, sesamfræ eða graskerjafræ)
1 msk þurrkaðir ávextir, skornir í bita (mórber, döðlur, aprikósur eða rúsínur)
1 tsk ofurfæði ef vill (t.d. kakónibbur, blómafræflar, lucuma, maca eða hampprótein)
Setjið chiafræin í skál ásamt vatninu, hrærið í smástund og látið standa í 10 mínútur. Einnig má láta þau liggja í bleyti yfir nótt. Næsta morgun hrærið þið eplunum útí, setjið ykkar uppáhalds mjólk útá ásamt fræjum, þurrkuðum ávöxtum og jafnvel smá ofurfæðu ef vill.