Við fjölskyldan fórum í síðbúið sumarfrí til Spánar fyrir stuttu. Við dvöldum í smábæ stutt frá Barcelona í þrjár vikur. Ég og Kalli sambýlismaður minn eigum þriggja mánaða gamla dóttur og fannst því tilvalið að njóta þess að slaka á með litla barninu okkar og fleiri fjölskyldumeðlimum. Slökkva á símanum og tölvupósti og njóta þess að tala saman lyklaborðalaus.
Nú fussa einhverjir og sveia: „Huh, slaka á? Eruð þið ekki heima í fæðingarorlofi að éta kex og klappa saman lófunum?“ Jújú passar, við höfum verið heima með barnið okkar í þrjá mánuði.
Það að eignast sitt fyrsta barn er nefnilega töluverð vinna. Margt að læra og ýmislegt sem gengur á. Vinir og vandamenn streyma að – yfirleitt tvær til fjórar heimsóknir á dag alla daga með tilheyrandi uppáhellingum, fyrir utan að brjóstagjöf tekur töluverðan tíma. Þetta er yndislegur tími, en um leið annasamari en mig hefði órað fyrir. Fyrstu mánuðirnir eru ansi krampakenndir, þar sem ég þráði ekkert heitar en að gera allt það besta fyrir barnið mitt og þrátt fyrir fuss og svei um að ferðast með svona lítið barn ákváðum við að fara sem áður segir til Spánar enda einstaklega vel mönnuð með frænku, ömmum, öfum og langömmum í fararbroddi.
Rjómaleginn rútínulaus rass
Skrítið hvernig það hægist á öllu og hjartað fer loks að dæla á eðlilegum hraða þegar komið er til annars lands. Ég var ekki búin að baka og skúra fyrir hádegi og mér var alveg sama þó það væri óhreinn þvottur sem safnaðist upp, svo lengi sem ég ætti eitthvað hreint á barnið mitt. Sjálf þurrkaði ég verstu blettina bara af kjólnum og settist út í sólina.
En allt frí tekur enda. Ég taldi mér trú um að það væri gott að komast heim í rútínu, hollan mat og æfingar. Fyrir utan hinn skelfilega ávana sem ég hafði komið mér upp og ég ætti í raun og veru ekki að viðurkenna fyrir neinum.
En já, ég fékk Bailey‘s-æði. Einmitt. Bannorðið Bailey‘s. Aha, rjómablandan sem inniheldur fleiri kaloríur en ég þori að googla.
Þegar barnið var sofnað fékk ég mér stundum kaffibolla og einn rjómaþrumara með klaka. Himneskt. En ég vissi að þetta gat ekki gengið til lengdar. Ég yrði að koma rjómalegnum rassinum á mér heim og í rútínu. Fiskur, leikfimi, grænmeti, þrífa ísskápinn, pússa glugga, út að labba, skúra, borga matarboðsskuldir, ungbarnasund, þrífa bílinn og rotast á sófanum með gubb á öxlinni.
Ég var ekki lent í Leifsstöð þegar ég fann hvernig stressfrunsan byrjaði að myndast. Af hverju hafði ég ekki nýtt tímann betur úti? Byrjað að skrifa bók? Skráð mig á námskeið eins og ég var að pæla í, uppfært iPod-inn minn, farið í gegnum myndirnar á símanum mínum? Allavega hreinsað upp inboxið? Og nú var ég komin heim með Bailey‘s bumbu og já, hafði varla gert nokkuð af viti nema leika við barnið mitt og slaka á (sem var reyndar tilgangur ferðarinnar).
Mantra Bjarts í Sumarhúsum
Nú sit ég úrvinda með barnið á lærunum og skrifa þessa grein. Var að klára að skúra, kaka í ofninum, fólk á leið í mat og ég úrvinda og ófær um að ganga eðlilega eftir fyrsta leikfimitímann í sex mánuði.
Þá rifjaðist upp fyrir mér að þegar ég bjó í Bretlandi var ég ekki svona mikið að reyna að vera allt í öllu. Fólk þar spurði „Ertu að æfa?“ en ekki „Hvar ertu að æfa?“ – það er að segja ef það kom þá nokkurn tíma upp. Sama gilti þegar ég bjó í Brasilíu. Fólk lagði sig á daginn og sagði frá því án þess að það þýddi að það værir þunglynt eða alvarlega veikt.
Auðvitað er stærsta ástæðan fyrir þessu við sjálf, en fallega góða Ísland og þjóðfélagið okkar er ekki að hjálpa. Við erum alin upp við möntru Bjarts í Sumarhúsum. Það á alltaf að vera að gera eitthvað.
Ég man að ég sofnaði oft yfir skólabókunum inni í herbergi sem unglingur en þóttist alltaf vera á fullu að læra ef einhver bankaði. Ég afsaka mig enn í dag ef ég dotta í sófanum og einhver hringir eða kemur í heimsókn. Af hverju í andskotanum má ég ekki bara leggja mig?
Hvað er þetta með að fá samviskubit yfir öllu?! Samviskubit yfir súkkulaðimola, yfir að hafa dottað í tíu mínútur, yfir að hafa ekki náð að tæma þvottakörfuna, yfir að hafa ekki klárað að svara öllum tölvupóstum, yfir að hafa sett barnið í óstraujaða flík …
Kalli minn hitti naglann á höfuðið þegar hann horfði á mig dauðþreytta að búa til hollustusmákökur seint um kvöld þegar mig langaði bara í rauðvínsglas og að horfa á sjónvarpið: „Samviskubit er ekki eðlilegt ástand.“
Og þar hafi þið það, þreyttu samlandar með löngu verkefnalistana ykkar og spikfeitu samviskubitin á bakinu: Slakið á! Og munið aðra mikilvæga íslenska möntru: Þetta reddast!
Við læknumst ekki á einni nóttu af þessari maníuflensu sem kom allri þjóðinni í koll – en við getum sest niður, slakað á og gefið okkur meiri tíma í það sem virkilega skiptir okkur máli. Aðgreint það sem er aðkallandi en ekki mikilvægt frá því sem er mikilvægt hamingju okkar til lengri tíma.
Jæja, nú hef ég ekki tíma í þetta lengur – þarf að fara að … leggja mig!