Skrifaðu pistil. Vertu fyndin. Vertu líka klár. Notaðu stóru orðin og þessi flottu líka.
Þetta dynur inn í hausnum á mér, heimavinnandi húsmóðurinni, sem hefur akkúrat ekkert betra að gera en að skrifa einmitt pistil. Nema náttúrlega þetta sem varla telur, þrífa, þvo, elda, ala upp og sinna. En hvað svo sem ég hugsa og velti fyrir mér þá get ég ekki skrifað.
Ég íhuga að skrifa bara eitthvað sem skiptir ekki máli, gera grín að sjálfri mér og sinna þeirri samfélagsþjónustu að láta öðrum líða vel með sjálfa sig í samanburðinum. En Ingunn Bylgja systir mín hefur tekið það að sér og gerir það vel. Mér allavega líður alltaf eins og sigurvegara þegar ég er búin að lesa skrifin hennar.
Svo læt ég mér detta í hug að skrifa um málefni sem brennur á þjóðinni hverju sinni. Sýna heiminum, eða í það minnsta feisbúkkvinum mínum, sem ég mögulega fyrirskipa að lesa helvítis pistilinn og setja læk, hvað ég er ótrúlega mikið með puttann á púlsinum, klár og réttsýn.
En ég verð alltaf svo brjálæðislega æst og reið þegar ég fer að skrifa um pólitík eða verðsamráð eða samfélagslega ábyrgð að ég sé kærurnar ljóslifandi fyrir mér spýtast inn um bréfalúguna oftar og hraðar en allir visareikningarnir til samans.
Er ég t.d. sú eina sem finnst það í besta falli brjálæðislega kjánalegt og yfirborðskennt að olíufyrirtækin noti enn þá aura í verðlagningunni sinni? Svona eins og þau séu svo ákaflega einsett í að fylgja heimsmarkaðsverði að það kalli á nákvæmni sem slíka en er í raun bara lúðaleg aðferð samkvæmt auglýsingasálfræði eins og hún gerist súrrealískust að láta okkur líða eins og það séu mörg mismunandi verð í gangi.
Já og getur það verið að engum þyki það í besta falli hjákátlegt að þegar auknum, breyttum, bættum, öðruvísi, hinsegin, þannig eða svoleiðis vopnaburði er lekið í sauðsvartan almúgann af fjölmiðli en ekki ráðuneyti eða lögregluyfirvaldi að þá hringsnýst öll vitleysan um það hvort það hafi komið okkur við, hver gaf hverjum hvað eða hver borgaði eða borgaði ekki?
Öllum spjótum er svo beint að fávisku þessa eða hins svo það eina sem gerist er að við (nú þessi sauðsvarti) rífumst um það í hvoru „liðinu“ við séum, með eða á móti. Enginn virðist eygja þá staðreynd að þessu átti að leyna og því sem ríkisstjórn eða yfirvald vill fela þykir mér strax áhugavert. Daginn sem ráðherra svarar gagnrýni og upplýsingaþörf almúgans af virðingu og heilindum þá kannski myndi orka okkar í að fara að ræða hvort hið sanna og rétta sé verðugt eða ekki.
Eða finnst ykkur taka því að ræða ríkisstjórnina? Eins og það muni gera eitthvert gagn? Menn hafa valið sér lið og vei þeim ef þeir gera það af hugsjón, með gagnrýnni hugsun, réttlætiskennd eða með hagsmuni annarra að leiðarljósi.
Það er ekkert pláss fyrir pakk sem hugsar um minni máttar.
Þeir forpokuðu framsóknarmenn sem enn hanga gera það af ástæðu. Hagsmunir. Þeir forríku sjálfstæðismenn sem enn lafa í rassgatinu á kónginum og prins Tjarming gera það af ástæðu. Hagsmunir. Hinir, þeir eru heima að skammast sín fyrir að hafa trúað því að inn um lúguna tækju að spýtast peningar á sama hraða og visareikningarnir mínir (og þær kærur sem mögulega hljótast af skrifum mínum) korteri eftir kosningar.
Ég þarf svo ekkert að fara neitt sérstaklega út í forherta Vinstri græna, forsmáða pírata eða forljóta samfylkingarmenn þar sem menn hafa nú þegar áttað sig á því að ég er það sem sérhagmunarottur og frjálshyggjubúrar kalla vinstripakk. Ég er þar af leiðandi í þeirra liði og því ekki mark takandi á orði af því sem ég segi.
Þetta er svona sirkabát penasta samantekt sem ég get látið frá mér um pólitík.
Til hvers þá að skrifa þennan helvítis pistil?