Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Húsmæðraheilabilun og huggulegheit

$
0
0

Það er hefð fyrir því í vinkvennahópnum mínum að hittast fyrir jólin og gera konfekt. Eða ég og ein húsleg vinkona mín hittumst og hinar fá að flækjast fyrir og gera grín að súkkulaðipotti húslegu vinkonunnar. Án súkkulaðipottsins væru þessi vinkonuskrípi mín þó ekki með fullan frysti af fullkomlega mótuðum handgerðum konfektmolum sem þær ljúga svo að gestum að þær hafi gert sjálfar.

Lekkert og ljúfengt.

Lekkert og ljúfengt.

Við húslega konan lofum okkur ár eftir ár að gera konfektið einar en sökum hjartahlýju þá endar eldhúsið alltaf fullt af hlæjandi konum með hvítvínsglös og tóm box. Einmitt box sem þær munu fylla með árangri mínum og húslegu konunnar. Svo tísta þær „jii, þetta er svo gaman“ um leið og þær hverfa út um útidyrahurðina með troðfullt fangið af konfekti.

Konfektklám

Vitið þið hvað það er erfitt að hjúpa heslihnetu með núggati án þess að það fari allt í drullu? Og þó engin viðurkenni það þá fer alltaf meira af Bailey’s (sem fer í uppskrift númer 4 – við gerum alltaf lágmark 5 tegundir) í mallana þeirra en ekki molana eins og lagt er upp með.

En jú, þetta á víst bara „að vera gaman“.
Einmitt.

Gamanið fyrir mér – eftir að ég er búin að þrífa eldhúsið og jafna mig á taugakippunum sem fylgja þessum degi – er að geta boðið upp á fagurlega mótaða heimagerða konfektmola af ýmsum gerðum. Upplifa aðdáunina og eftirvæntinguna í augum þeirra útvöldu sem fá að bragða á hinu huggulega handverki okkar húslegu konunnar. Dökkir lífrænir hjartasúkkulaðimolar fylltir með núggati og ristuðum hnetum. Jii, eða appelsínumolarnir með leynifyllingunni!

Annar og minna húslegur vinkonuhópur kom í heimsókn nokkrum dögum eftir konfektgerðina. Skælbrosandi, enn með „daginn eftir bakstur“-útgeislunina, bar ég nokkra af bestu molunum á borð á hrikalega smart bakka sem ég hafði pantað á netinu.

"Daginn eftir bakstur" ljóminn leynir sér ekki!

„Daginn eftir bakstur“ ljóminn leynir sér ekki!

„Oh, þú ert alltaf svo dugleg,“ andvarpaði ein nog stakk upp í sig mola.
Dugleg? DUGLEG??

Þetta hefur andskotann ekkert með dugnað að gera. Þetta snýst um status í þjóðfélaginu. Átti ég kannski bara að fara bjóða upp á Homeblest og hætta að þrífa gólfin? Kannski hætta að þrífa sjálfa mig bara líka?

Nice try!

Lengra komst ég þó ekki með hugsanir mínar þegar ég sá mér til mikillar skelfingar litla hönd koma æðandi að konfektbakkanum mínum.

Þvílík byrjendamistök! Ég fann svitann spretta fram og barðist við löngunina að ýta bakkanum lengra inn á borðið. Ég leit á mömmuna, svo á litlu höndina og svo aftur á mömmuna. Móðirin var í hrókasamræðum og tók ekki eftir neinu. Litla höndin var komin með fjórða molann upp að munninum.

Barnið var ekki að njóta. Ekki að gera sér grein fyrir „handgert og lífrænt“-partinum. Hún hámaði þetta í sig eins og hvert annað fjöldaframleitt rusl.

„Má hún alveg fá svona mikinn sykur?“ spurði ég umhyggjusöm.

„Æi, hún fær svo sjaldan nammi. Nokkrir molar eru í lagi“, svaraði móðirin og hélt svo áfram að tala við vinkonurnar. Ég heyrði aðeins óminn af samtalinu en mundi að ég átti gamalt KitKat inn í skáp. Gæti barnið ekki nagað það? Ef ég setti plastdúk undir?

Skyndilega áttaði ég mig!

Sigri hrósandi reif ég bakkann af barninu og gargaði aðeins of hátt „Það er Bailey‘s í molunum. Ég skal sækja eitthvað annað gotterí handa henni.“

Ég leit vinalega á barnið og hugsaði um leið – nice try!

En annars er ég bara slök og auðvitað snúast jólin um að njóta, slaka á og deila. Bara ekki handgerðum konfektmolum.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283