Á unglingsárunum kom langt tímabil þar sem mér leið alveg einstaklega illa andlega. Ég var óörugg, þunglynd, kvíðin og það komu dagar þar sem mig langaði ekki að lifa lengur. Ég kunni ekki að takast á við þessa vanlíðan enda er það ekki eitthvað sem manni er kennt svona almennt.
Vanlíðanin hið innra varð stundum svo yfirgnæfandi að mér fannst ég vera að springa og þráði að finna aðferð sem gæti deyft sársaukann þótt ekki væri nema augnablik. Einn daginn fann ég aðferð til að minnka sársaukann í sálinni en sú aðferð var langt frá því að vera heilsusamleg og því síður gáfuleg og ég mun aldrei losna við afleiðingar hennar.
Ég man ekki hvaðan hugmyndin kom og er ekkert viss um að mig langi til að muna það en hugmyndin var sú að skaða sjálfa mig líkamlega til að losna tímabundið undan sársaukanum hið innra sem lamaði mig gjörsamlega svo dögum skipti.
Fyrst var sjálfskaðinn lítill og það sá varla á mér, en fljótlega jókst þörfin fyrir að finna til líkamlega til að bæla niður það sem hið innra bjó og fljótlega varð ég alveg stjórnlaus. Þegar ég var að nálgast það að verða sextán ára skaðaði ég mig í fyrsta skipti svo djúpt að það hefði þurft að sauma en þá var ég stödd á langtímameðferðarheimili sem trúði því statt og stöðugt að unglingum væri hollast að takast á við afleiðingar gjörða sinna á harða mátann þannig ég fékk ekki að fara til læknis þótt það fossblæddi úr mér. Ég var látin sinna mínum venjulegu verkum á heimilinu eins og ekkert hefði í skorist og voru afleiðingarnar þær að í heila viku voru sárin að rifna upp í fjósaverkum. Margar peysur eyðilögðust þessa viku út af blóði sem ekki var hægt að ná úr.
Eftir að hafa verið á heimilinu í tvo mánuði sprengdi ég það utan af mér enda leið mér djöfullega og við tók flakk á milli fósturheimila, BUGL og mömmu en ég stoppaði aldrei lengi á sama stað. Vanlíðanin jókst við að upplifa það að hafa engan fastan stað í tilverunni og samhliða því jókst sjálfskaðinn. Margar voru ferðirnar upp á Slysó til að láta sauma og aldrei gat ég hætt þrátt fyrir að reynt væri að kenna mér aðrar aðferðir til að losa um sálarkvölina.
Ég var fljót að fatta að sjálfskaði er fíkn sem virkar rétt eins og aðrar fíknir. Fyrst er skaðinn svo lítill að enginn tekur eftir honum og þú getur losað um í sálinni í örskamman tíma, en fljótt þarftu að gera meira og á endanum ertu kominn út í þann pakka að komast ekki í gegnum daginn nema skaða þig og þá svo illa að þú þurfir að leita læknis. Þegar á það stig er komið ertu löngu hætt að finna fyrir þeirri losun sem þú fannst áður fyrir. Þú heldur samt áfram til að reyna finna hana og því verður skaðinn alltaf verri í hvert skipti.
Ég á margar sjálfsvígstilraunir að baki sem voru aldrei í raun tilraunir til að deyja. Það sem læknar kölluðu tilraun til sjálfsvígs var í rauninni sjálfskaði af verstu gerð þar sem ég gekk alveg að brún dauðans til þess eins að finna ekki neitt og að lokum upplifði ég það að standa uppi með skammvinna sæluvímu yfir að vera á lífi. Eftir sæluvímuna tekur þó við langt tímabil þar sem ég fyrirleit sjálfa mig enn frekar en áður og það var þá sem ég fann fyrir virkilegri löngun til að deyja. Ég var stödd í vítahring sem ég sá ekki fram á að geta rofið meðan ég lifði.
Þrátt fyrir að hafa enga trú á því að ég gæti losað mig við þennan djöful sem sjálfskaðinn er þá kom sá dagur að ég gat hætt, en það var eitthvert erfiðasta verkefni sem ég hef tekið mér fyrir hendur. Lausnin í mínu tilfelli var að neyða mig til að gera eitthvað sem mér hefði þótt skemmtilegt á venjulegum degi þegar ég hafði enga löngun til þess.
Ég byrjaði að punkta niður þegar það var góður dagur hvað það væri sem ég hefði ánægju af og þegar slæmu dagarnir skullu á þá dró ég fram listann. Löngunin var að skaða sjálfa mig og áður fyrr hefði ég ekki hikað við það, en í stað þess þá píndi ég mig til að hringja í vinkonu, fara í göngutúr í Hljómskálagarðinum, skrifa bréf eða lita mynd.
Eins ótrúlega og það hljómar þá virkaði þetta. Þetta virkaði ekki strax og það tók hátt í ár að fá þetta til að virka þannig að sjálfskaðinn hætti alveg en að lokum tókst það. Það komu stundir inn á milli þar sem ég réð ekki við mig og greip til sjálfskaðans en þeim stundum fór fækkandi og nú hafa liðið mörg ár þar sem ég hef ekki skaðað mig.
Ég er búin að hugsa mikið um þennan tíma undanfarið og ekki að ástæðulausu. Mig er farið að langa til að gera hluti sem ég tel mig ekki geta gert eins og að fara í sund eða geta verið á stuttermabol.
Ég á í skelfilegri baráttu við mig í sambandi við þetta og ég veit ekki hvenær sá dagur kemur sem ég get farið í sund án þess að hafa áhyggjur af örum sem eiga að öllum líkindum aldrei eftir að gróa að fullu.
Ég er fullmeðvituð um það að líkast til eigi fólk ekkert eftir að spá í þetta enda liggur vandamálið aðallega hjá mér. Ég á sjálf erfitt með að horfa á örin þar sem þau minna mig á þær skelfilegu ákvarðanir sem ég tók til að losa mig tímabundið undan sársauka í sálinni.
Mig svíður í hjartað þegar ég sé hvað ég hef gert sjálfri mér og ég vildi óska að ég gæti tekið þetta allt til baka en það er ekki hægt og verður aldrei hægt.
Eina leiðin fyrir mig til að komast yfir þetta er að reyna að hugsa þannig um örin að ég hafi lent í bardaga við sjálfa mig en hafi á endanum unnið og þess vegna séu engin sár lengur heldur einungis ör.
Ljósmynd af Flickr.