Enn og aftur er boðað til mótmæla á Austurvelli í dag kl. 17:00 þar sem þess verður krafist að stjórnmálamenn axli ábyrgð sína. Yfirskrift mótmælanna sem auglýst eru á Facebook er :
Jæja, Hanna Birna!
Til upphitunar fyrir mætingu á Austurvöll viljum við benda á grein Viktors Orra Valgarðssonar sem heitir einmitt Jæææææja Hanna … og grein Andra Þórs Sturlusonar, Opið bréf til lekamálaráðherra.
Á Facebooksíðu mótmælanna segir:
„Við krefjumst þess að stjórnmálamenn axli ábyrgð á störfum sínum og málaflokkum. Taki hagsmuni þjóðarinnar fram yfir hagsmuni flokka, að stjórnmálamenn virði hið þrískipta vald í lýðræðisþjóðfélagi okkar. Vegið er að grunnstoðum samfélagsins. Vegið er að dómsvaldinu á Íslandi. Vegið er að frelsi fjölmiðla á Íslandi. Vegið er að jafnri velferð, vegið er að heilbrigðiskerfinu, vegið er að menntun og menningu þjóðar okkar, vegið er að þegnum samfélagsins með ójöfnuði“.
Í dag eru ræðumenn ekki af verri endanum en það eru þeir Illugi Jökulsson rithöfundur og samfélagsrýnir og Bragi Páll Sigurðarson ljóðskáld. Kvennablaðið spurði þá hversvegna fólk ætti að mæta á Austurvöll í dag og það stóð ekki á svörum. Illugi svaraði:
„Af því að við eigum ekki að láta bjóða okkur þá stjórnsýslu sem birtist í ótrúlegri tregðu Hönnu Birnu. Hún hefði verið löngu farin frá í öðrum löndum. Það er niðurlæging að þurfa að þola þetta“.
Bragi Páll Sigurðarson ljóðskáld, höfundur greinarinnar Ísland er ónýtt sem við mælum með og birtist í Kjarnanum svaraði:
„Þjóðin þarf að senda ráðamönnum þau skilaboð að tjöldin séu fallin og og það sé ekkert að fela lengur. Lygarnar hafi þegar verið afhjúpaðar og tími til kominn að ráðamenn taki pokann sinn“.
Okkur varð dálítið um þegar við komumst að því að húðflúrið sem Bragi Páll skartar á fætinum væri varanlegt og urðum að spyrja Braga Pál hvort hann héldi að það myndi eldast vel. Bragi Páll hélt það nú og máli sínu til skýringar sagði hann:
„Ég vona að það verði áframhaldandi táknmynd þess að almenningur sé tilbúinn að fórna sér – að láta af hendi hluta af líkama sínum til að berjast gegn spillingu og valdníðslu. Ég vil að ráðamenn séu fulltrúar fólksins, ekki sérhagsmuna.“
Sigríður Bylgja Sigurjónsdóttir stýrir fundi á Austurvelli í dag og Hemúllinn verður á staðnum en hann tróð líka upp á Austurvelli fyrir viku. Illugi skrifaði um Hemúlinn og kallaði hann: „… góðlegan og bráðfyndinn pönkara með dauðarokksrödd …“
Allir eru svo hvattir til að koma með fána, skilti, eitthvað til að slá taktinn og vera með læti, hljóðfæri og vasa-, höfuð- eða tjaldljós til að vísa stjórnmálamönnum veginn.
Á Facebooksíðu mótmælanna þar sem 2.500 manns hafa boðað komu sína stendur ennfremur:
Þetta eru ekki bara mótmæli, þetta eru líka meðmæli, þar sem við sýnum í verki hvað við getum verið frábært samfélag.
Þess ber að geta að Íslendingar í Danmörku munu koma saman við íslenska sendiráðið í Kaupmannahöfn í dag og sýna samstöðu.