Sjöunda höfundakvöld Gunnarshúss er í kvöld, fimmtudaginn 27. nóvember. Þar gefst fólki kostur á að hitta höfundana Bryndísi Björgvinsdóttur og Sigurð Pálsson og heyra þau lesa upp og svara spurningum Kristínar Svövu Tómasdóttur um nýútkomnar bækur sínar. Allir velkomnir á meðan stólar leyfa, aðgangur 500 kr.
BRYNDÍS BJÖRGVINSDÓTTIR – HAFNFIRÐINGABRANDARINN
Í desember árið 1999 er Klara skilin eftir hjá ömmu sinni á meðan foreldrar hennar fara í heilsubótarferð til Kanaríeyja. Fram undan er jólaball skólans, vinsældakosningar og fjölmörg stefnumót á eina kaffihúsinu í bænum en einnig kynnist Klara öldruðum ættingjum sínum sem hafa undarlega og áhrifaríka sögu að segja.
* * * *
„… stórskemmtileg bók sem segir sögu af stórskemmtilegri stúlku ….“
Árni Matthíasson / Morgunblaðið
Bryndís Björgvinsdóttir (f. 1982) er þjóðfræðingur að mennt og starfar m.a. við rannsóknarstörf og kennslu. Hún var aðeins fimmtán ára gömul þegar hún sendi frá sér sína fyrstu bók, Orðabelg Ormars ofurmennis, ásamt vinkonu sinni. Bryndís hlaut Íslensku barnabókaverðlaunin fyrir sögu sína Flugan sem stöðvaði stríðið.
SIGURÐUR PÁLSSON – TÁNINGABÓK
Táningabók er síðasti hluti endurminningaþríleiks Sigurðar Pálssonar. Fyrri bækurnar tvær, Minnisbók og Bernskubók, voru báðar lofaðar af gagnrýnendum og fyrir þá fyrrnefndu hlaut Sigurður Íslensku bókmenntaverðlaunin.
„Alveg frábær bók.“
Egill Helgason / Kiljan
„Ofsalega skemmtileg ….“
Friðrika Benónýsdóttir / Kiljan
„Stórskemmtileg aldafarslýsing.“
Þorgeir Tryggvason / Kiljan
Sigurður Pálsson er fæddur á Skinnastað 1948. Hann er leikhúsfræðingur að mennt, rithöfundur og þýðandi að starfi. Hann er í fremstu röð íslenskra ljóðskálda, prósahöfunda og leikskálda. Auk þess að hljóta Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir Minnisbók hefur Sigurður hlotið Grímuverðlaunin, fyrir leikritið Utan gátta. Ljóðabækur hans eru fimmtán talsins og mynda fimm trílógíur.
Kristín Svava Tómasdóttir (f. 1985) er skáld og hefur sent frá sér tvær ljóðabækur, Blótgælur (2007) og Skrælingjasýningin (2011).