Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Bækur fyrir börn og ungmenni

$
0
0

Nú hafa verið í gangi ýmis lestrarátök sem mér sýnist flest vera að renna sitt skeið þessa dagana. Mig langar að halda áfram að stuðla að lestri barna og unglinga og bendi því hér á nokkrar bækur sem komið hafa út á þessu ári og gætu verið sniðugar í jólapakkann eða einfaldlega í tækifærisgjöf fyrir heimilið svo flestir haldi sig við lesturinn.

Stór og svolítið pirrandi fíll

Stór-og-svolítið-pirrandi-fíll.lq_-174x176

Sammi hleypur til dyra þegar dyrabjallan glymur, í hurðinni stendur risastór fíll. Sammi hafði nefnilega skrifað upp á ættleiðingarskjal í síðustu dýragarðsheimsókn og gleymdi að lesa smáa letrið þar sem hann skuldbindur sig til að fá fílinn heim til sín. Fíllinn er með eintómt vesen, brýtur allt og bramlar og er með stæla.

Stórskemmtileg vitleysa hér á ferðinni með dásamlegum húmor fyrir þá fullorðnu, inni á milli.

Freyja Dís sem vildi bara dansa og dansa

FreyjaDis-175x223

Þetta er bók um hana Freyju Dís sem vildi bara dansa og dansa. Nema þegar aðrir sáu til. Þá fóru hnén að skjálfa og maginn í hnút.

Þessi gullmoli er ein af mínum uppáhalds barnabókum þetta árið. Þetta er einfaldleiki í sinni fallegustu mynd. Bók sem hlýjar manni um hjartarætur og hvetur börn áfram í því sem þau vilja gera.

Þegar litirnir fengu nóg 

Thegar-litirnir-fengu-nóg-175x174

Dag einn í skólanum ætlar Daníel að sækja litina sína, en þar sem litirnir lágu áður liggur nú bunki af bréfum sem öll eru stíluð á hann sjálfan. Það kemur á daginn að í annars ljúfum og litskrúðugum hópi kraumar gríðarleg óánægja og litirnir hafa hver og einn skrifað orðsendingu til Daníels. Svartur er allt annað en sáttur við að vera eingöngu notaður til að teikna útlínur með, rauði liturinn vill fá að lita annað en brunabíla og allir litirnir eru ósáttir við eitthvað.

Sprenghlægileg bók sem hvetur börn til að teikna út fyrir línurnar, hugsa út fyrir rammann og gera eitthvað annað en bara það sem „má“.

Demantaráðgátan

demantaradgatan-175x251

Systkinin Lalli og Mæja stofna spæjarastofu og taka að sér að leysa dularfull glæpamál af ýmsum toga. Í þessari bók taka þau að sér að komast að því hver er að stela demöntum úr skartgripaverslun Múhameðs Karat.

Góð bók fyrir 6–8 ára lesendur á aldrinum. Ekki of mikill texti á hverri síðu, stórt letur og frásögnin heldur lesandanum vel við efnið.

Maðurinn sem hataði börn

MadurinnSemHatadiBorn-175x262

Sylvek býr hjá ömmu sinni og finnst lífið frekar óspennandi eftir að hann flytur til Íslands frá Barcelona. Þegar einhver fer að myrða unga drengi í hverfinu breytist þó allt. Á sama tíma og þessir hræðilegu atburðir byrja að gerast, flytur leigjandi inn til ömmu Sylvek, en hann virðist passa nokkurn veginn við lýsingu á þeim sem er að myrða ungu drengina, eða hvað?

Barna-ungmenna-fullorðins bók sem ALLIR geta haft gaman af, eftir höfund bókarinnar Leyndarmálið hans pabba. Vantar þig til dæmis bók handa unglingnum þínum sem vill ekki líta upp úr snjallsímanum? Þá þarftu ekki að leita lengur.

Hjálp

Hjalp-175x267

Um hávetur og í niðamyrkri ákveða fimm vinir að skella sér í bíltúr. Leiðin liggur út í óbyggðir í leit að heitri laug. Þegar þau loks finna laugina og hafa komið sér vel fyrir ofan í ljúfu og heitu vatninu, heyra þau undarleg hljóð frá bílnum sem þau komu á. Hver er hjá bílnum? Eru þau í hættu stödd?

Þessi bók er hressandi tilbreyting frá öllum framtíðar-/vampíru-/ævintýraheima-sögunum sem í boði eru í dag. Virkilega flott spennusaga fyrir ungmenni á aldrinum 12–20 ára.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283