Gunnar Ingiberg Guðmundsson skrifar:
Hvað getur maður sagt? Forsætisráðherra lýsir því yfir að hatursfull þjóðin hafi gengið of nærri fráfarandi innanríkisráðherra, að þjóðinni beri að læra af þessu. Ekki það að honum hafi verið ætlaður lærdómur af lekanum eða hegðunarmynstri spillingarinar og lygavefsins sem spunninn var um lekamálið.
Ábyrgðin var ekki forsætisráðherrans eða innanríkisráðherrans. Þjóðin gerði þetta, þjóðin gagngrýndi þau, þjóðin benti á þetta, þjóðin var vond við þau.
Áttaðu þig á því, kæri lesandi, lekamálið og afsögn ráðherra er allt þér að kenna. Á meðan „leiðréttingin“ góða kemur inn um bréfalúgur landsmanna, eða þeirra sem enn eiga bréfalúgu til að taka við henni. Þessi fullkomni jólapakki sem kemur til þægu barnanna. Þeir sem náðu að borga af lánunum og misstu ekki vinnuna og húsnæðið fá jólapakkann.
Mótmæli á hátíðisdögum sem þessum telst vera vanþakklæti. Það var þjóðinni bent á. Hinum misskilda ráðherra misbýður. Ekki að það skipti máli að verið sé að taka pening úr hægri vasanum yfir í þann vinstri og afleiðingarnar eru fjárhirslur fullar lausafjár í Íbúðalánasjóð og bönkunum.
Í náinni fortíð minnir mig að bankarnir hafi haft ofgnótt af lausafé. Afleiðingarnar voru þensla og hrun í framhaldinu. Æi, skiptir ekki máli. Hæstvirtur sjávarútvegsráðherra hefur svo raust sína yfir flokksgæðinga og tjáir þeim að SFS (Samtök félaga í sjávarútvegi, fyrrum LÍÚ) hafi dregið upp flott frumvarp sem bindur auðlind hafsins til ókominna ára í hendur stórútgerðarinnar. Þetta skapi grundvöll til að ráðast í fjárfestingu í sjávarútvegi.
Bíddu nú við, gæti verið að bankarnir ætli svo að aðstoða sjávarútveginn við endurfjármögnun? Hverjum öðrum ætla bankarnir að lána þessar endurgoldnu fjárhæðir sem féllu í skaut þeirra eins og þruma úr heiðskíru lofti við „leiðréttinguna“?
Síðast þegar krónan styrktist var sjávarútvegurinn hætt kominn. Útflutningsverðmæti upp á milljarða hefðu tapast. Þá má spyrja: Hverjir græða mest á falli krónunnar? Eigum við að fara í aðra ferð með þessum gæðingum?
Þetta var sagan af því hvernig ég lærði að hætta að hafa áhyggjur og byrjaði að elska ríkisstjórnina. Eða ekki.