Það sætir tíðindum og krefst rannsóknar að fjölskylda fjármálaráðherra og þar með bankamálaráðherra skuli hafa fengið forgang að kaupum á hlut Landsbankans, nánar tiltekið 31,2 prósenta hlut í Borgun en Kjarninn greindi frá sölunni í gær.
Í frétt Kjarnans kom einnig fram að ekkert formlegt söluferli fór fram áður en félagið var selt. Það er sérkennilegt svo ekki sé meira sagt að fjölskylda fjármálaráðherra hafi greiðan aðgang að ríkiseignum en hlutur Landsbankans í Borgun er í raun og sann ríkiseign.
Bankasýsla ríkisins sem fer með eignarhlut Landsbankans í Borgun heyrir undir bankamálaráðherra sem einnig er fjármálaráðherra, Bjarna Benediktsson. Á heimasíðu Bankasýslu ríkissins segir:
„Bankasýsla ríkisins er ríkisstofnun með sjálfstæða stjórn sem heyrir undir fjármálaráðherra.
…
Bankasýslu ríkisins er í starfsemi sinni ætlað að leggja áherslu á endurreisn og uppbyggingu öflugs innlends fjármálamarkaðar og stuðla að virkri og eðlilegri samkeppni á þeim markaði, tryggja gagnsæi í allri ákvarðanatöku varðandi þátttöku ríkisins í fjármálastarfsemi og tryggja virka upplýsingamiðlun til almennings.“
Kaupandi að 19,71% hlut í Borgun er fyrirtækið P126 sem er í eigu föðurbróður fjármálaráðherra, Einars Sveinssonar og sonar hans Benedikts Einarssonar í gegnum móðurfyrirtæki þeirra sem skráð er í Lúxemborg.
Einar var hluthafi og stjórnarmaður í eignarhaldsfélaginu Vafningi og stjórnarmaður í Sjóvá.
Hvar á byggðu bóli myndu viðlíka viðskipti viðgangast?