Eygló Jónsdóttir skrifar frá Ísafirði:
Á laugardag var boðað til mótmæla gegn valdníðslu lögreglunar á Ísafirði, eins og stóð í viðburði sem boðað var til á facebook.
Ungu fólki á Ísafirði hefur fundist lögreglan beita óþarfa harðræði í þeim tilfellum sem hún hefur þurft að hafa afskipi af ungmennunum.
Eftir atburði í síðustu viku þar sem ungur maður í sjálfvígshugleiðingum slasaðist illa í samskiptum sínum við lögregluna þá var ungmennunum nóg boðið og ákváðu að reyna að gera eitthvað í málinu.
Niðurstaðan varð þessi mótmælafundur fyrir utan lögreglustöðina sem eitthvað á milli 20 og 30 manns sóttu. Þar mátti til dæmis sjá mótmælaspjald sem á stóð „Verum góð hvert við annað“.
Skömmu eftir að mótmælin hófust kom Hlynur Snorrason yfirlögregluþjónn út og ræddi málin við mótmælendur. Hann sagðist ekki geta tjáð sig um einstök mál en sagði jafnframt að lögreglan færi alltaf yfir öll vafamál sem kæmu upp og allar sínar gjörðir. Hann hvatti ungmennin til að koma á lögreglustöðina og ef þau væru með einhver mál eða kvartanir.
Mótmælendur voru almennt þeirrar skoðunar að það hafi ekki virkað vel að koma á lögreglustöðina því að margar sögur væru til um að ekki væri tekið vel á móti þeim sem þangað leituðu. Ein stúlka í hópnum sagðist sjálf hafa lent í því að mæta á lögreglustöðina með kvörtun og henni var sagt að vera ekki með þessa stæla og var svo beðin um að koma sér út.
Hlynur ítrekaði samt þá skoðun sína um þau ættu ekki að hika við að leita til lögreglunnar. Ungmennin sögðu Hlyni líka frá því að það væru þó nokkrir aðilar sem þau vissu um að hefðu viljað koma á þessi mótmæli en ekki þorað af ótta við að falla í ónáð hjá lögreglunni og einhverjir sem ættu ókláruð mál á borði lögreglunar væru hræddir um að með því að mæta og mótmæla myndu mál þeirra „óvart“ falla niður eða sönnunargögn týnast.
Þeim fannst þetta segja heilmikið um vantraustið til lögreglunar. Aðal talsmaður hópsins sagði að mikið væri rætt í bænum um að lögreglan gerði mannamun og beitti ákveðinna einstaklinga óréttlæti og valdníðslu en almenningur gerði þá einföldu kröfu til lögreglunnar að hún kæmi jafnt fram við alla og af sanngirni og það væri í rauninni krafa mótmælanda.
Hlynur sagði að með komu þeirra að lögreglustöðinni væru þau búin að koma þessum skilaboðum á framfæri. Hann þakkaði svo mótmælendum fyrir komuna og hvarf á braut. Mótmælendurnir sögðust almennt nokkuð vongóðir um að skilaboð þeirra hefðu náð í gegn og vonast eftir að samskipti ungmenna og lögreglunnar á Ísafirði muni breytast til batnaðar í framtíðinni.
Ljósmynd Róbert Reynisson