Sigurður Sverrir Stephensen sérfræðingur í hjartasjúkdómum barna skrifar:
Eyrnabólga er skilgreind sem vökvasöfnun og bólga í miðeyra ásamt öðrum einkennum sýkingar einsog hita og lasleika. Eyrnabólga er algengasta ástæða sýklalyfjameðferðar hjá börnum. Orsökin er yfirleitt bakteríusýking sem kemur í kjölfar veirusýkingar sem veldur einkennum frá efri öndunarvegi eins og kvefi og hósta.
Við þessar veirusýkingar verður bólga í slímhúði í nefi, nefkoki og kokhlust (æ, þessi þarna sem lokast þegar við fáum hellu fyrir eyrun). Þetta leiðir til vökvasöfnunar í miðeyra þar sem kokhlustin, sem annars gegnir hlutverki affalls er stífluð. Veirur og bakteríur komast frá efri öndunarvegi útí miðeyrað, fjölga sér þar og valda þrýstingi á hljóðhimnu sem bólgnar og þenst út. Eldri börn kvarta oft undan hlustaverk en einkenni hjá yngstu börnunum geta verið almennari eins og grátur, hiti, minnkuð matarlyst, uppköst o.fl.
Algengasti aldur barna með eyrnabólgu er 6–24 mánaða og helst það bæði í hendur við þroska ónæmiskerfis og kokhlustar, ásamt því að á þessum aldri eru börn oft mörg saman hjá dagmæðrum þar sem smitleiðir eru greiðar. Sýnt hefur verið fram á að börn á brjósti hafa minni líkur á að fá eyrnabólgu á meðan að börn foreldra sem reykja hafa hærri líkur.
Algengasta baktería sem veldur eyrnabólgu eru svokallaðir pneumokokkar. Eftir að farið var að bólusetja börn við pneumokokkum, sem gert við 3, 5 og 12 mánaða aldur á Íslandi, hefur tilfellum af eyrnabólgum fækkað nokkuð. Þó ber að hafa í huga að fjölmargir undirflokkar pneumokokka eru þekktir en ekki eru allir þeirra innifaldir í bóluefninu.
Börn með eyrnabólgu í báðum eyrum eða með önnur einkenni eins og hita og hlustaverk eru undantekningarlítið meðhöndluð með sýklalyfjum. Ef sýking er bara í öðru eyranu fer meðferð eftir öðrum einkennum einsog hver almenn líðan barnsins er, hvernig það nærist, hvort það er óvært, með háan hita, útferð frá eyra o.s.frv. Ef líðan barnsins er að öðru leyti góð má bíða með sýklayfjameðferð og endurmeta ástandið eftir 2 daga.
Yfirleitt gengur eyrnabólga yfir á nokkrum dögum hjá eldri börnum, jafnvel án sýklalyfjameðferðar. Eyrnabólga getur valdið hlustaverk og þá er mikilvægt að reyna að bæta líðan barnsins með verkjalyfjum. Hlustaverkur getur verið til staðar í nokkra daga hvort sem barnið er meðhöndlað með sýklalyfjum eða ekki. Ef barn er sett á sýklalyf stendur meðferð oftast yfir í 7- 10 daga. Ef ekki er merkjanlegur bati innan 3 sólarhringa getur verið að bakterían sem sýkingunni veldur sé ónæm fyrir sýklalyfinu sem valið var. Þá er nauðsynlegt að láta skoða barnið aftur og oft þarf þá að velja breiðvirkari meðferð, þ.e.a.s. sýklalyf sem virka gegn fleiri bakteríum en það sem upphaflega var valið.
Stundum getur verið erfitt að koma sýklalyfjunum í börnin og virðast íslensk börn vera hinir mestu gikkir þegar kemur að lyfjasmökkun – sérstaklega ef þau eru borin saman við hin kúguðu frændsystkyni þeirra í Svíþjóð, sem opna bara gúlann og slafra möglunarlaust í sig hverja þá ólyfjan sem foreldrum þeirra dettur í hug að byrla þeim. Í neyðartilvikum – þegar hvorki hótanir né mútur gagna – getur því þurft að gefa sýklalyfin í æð eða í vöðva.
Miðeyrnabólgur geta leitt til nokkurra fylgikvilla sem vert er að geta stuttlega: búast má við skertri heyrn svo lengi sem vökvi er til staðar í miðeyra sem takmarkar hreyfingu á hljóðhimnunni. Sýklalyfjameðferð virðist ekki flýta fyrir hreinsun vökvans úr miðeyranu en það getur tekið vikur eða mánuði fyrir vökvann að hverfa. Ef vökvi hefur verið til staðar í miðeyra í 3 mánuði eða lengur er rétt að gera heyrnarpróf. Það má einnig gera fyrr ef grunur er um skerta heyrn eða seinkaðan talþroska í barni með vökva í miðeyra. Sýkingin getur dreift sér í loftfyllt svæði í beininu á bak við eyrað. Þetta kemur fram sem roði og verkur aftan við eyrnasnepilinn. Miðeyrnabólga getur einnig orðið viðvarandi þannig að bakterían nái aldrei almennilega að hreinsast úr miðeyranu og valdi stöðugri vökvasöfnun sem lekur út úr eyranu ef gat er á hljóðhimnu.
Hjá börnum sem fá endurteknar sýkingar á stuttum tíma er oft komið fyrir rörum í hljóðhimnunni. Skilyrði fyrir þessari aðgerð er að barnið hafi fengið 3 eða fleiri sýkingar á 6 mánuðum eða 4 eða fleiri á einu ári OG hafi auk þess vökva í miðeyra. Rörin hafa þann tilgang að hleypa út vökvanum sem safnast fyrir við sýkingar. Þetta fækkar eyrnabólgutilfellum og gefur möguleika á að meðhöndla sýkingar með eyrnadropum, en kemur þó ekki alveg í veg fyrir sýkingar. Önnur ábending fyrir röraísetningu er að vökvi í miðeyra hafi verið til staðar í meira en 3 mánuði og að barnið hafi skerta heyrn sem staðfest hafi verið með heyrnarmælingu.