Á næstu dögum verða birtar vinningsuppskriftirnar úr kalkúnasamkeppninni okkar hér á vefnum. Fyrsta uppskriftin sem við birtum er hátíðarkalkúnn með ítölsku ívafi en það var hún Svala Norðdahl sem sendi hana inn.
Fyrir sitt girnilega framlag hreppti Svala eitt af fyrstu sætunum og hlýtur að launum stóran holdakalkún frá Reykjabúinu og glæsileg borðvín.
Hátíðakalkúnn með ítölsku ívafi
Fylling (best er að undirbúa hana daginn áður)
1 laukur, smátt skorinn
250 gr brytjaðir sveppir
1 grænt epli, flysjað og brytjað smátt
3 rifnar gulrætur
4-6 brauðsneiðar, gróft eða fínt eftir smekk
1 dl rjómi
1/2 dl vatn
1 grænmetisteningur
1 tsk Salvía
1 tsk Timían
2 tsk Óreganó
Svartur pipar
Olía til steikingar
Brauðið er lagt í bleyti í rjóma og vatn. Látið laukinn og sveppina krauma í smjöri við vægan hita á pönnu eða í potti í 5-10 mínútur. Eplunum og gulrótunum er síðan bætt út í og að lokum brauðinu og kryddinu. Þessu er síðan blandað vel saman og látið krauma í smá stund svo að bragðið komi vel fram.
Fuglinn
4-5 kg kalkúnn
50 gr bráðið smjör
2 tsk salt
1 tsk pipar
2 tsk Óreganó
1 tsk Timian
1 tsk Salvía
Kalkúnninn er skolaður og þerraður, kryddblöndunni nuddað á hann að utan og innan og síðan er fyllingin sett í magaopið. Þvínæst er saumað fyrir ef þörf krefur og lærin bundin upp. Fuglinn er síðan penslaður með bræddu smjöri.
Ofninn á að vera 160-170 gráðu heitur þegar kalkúnninn er settur inn (með bringuna niður) í ca 50 mínútur. Eftir þann tíma má taka hann út, snúa honum, smyrja hann aftur með smjöri og að lokum elda hann í 30 mínútur fyrir hvert kíló. Best er að pensla hann með smjöri af og til og jafnvel hella smá vatni yfir, á meðan steikingu stendur.
Sósa
Þarna kemur innmaturinn úr fuglinum til góðra nota. Hann er hreinsaður, steiktur í olíu á pönnu með söxuðum lauk, óreganó, timían, salti og pipar. Bætið við vatni og látið krauma í 1 – 1 1/2 klst. Sigtið soðið og bakið upp sósu með smjörbollu og bætið við rjóma, rifsberjahlaupi og kryddi eftir þörfum.
Á næstu dögum munum við birta fleiri verðlaunauppskriftir úr kalkúnasamkeppninni, fylgstu með!