Þorvaldur Skúlason skrifar:
Hæ hó jibbí jei og jibbí jei, það er komin leiðrétting! Það er kominn 17. júní, förum á þjóðhátíð … við erum öll að fara á smá leiðréttingarfyllerí, ofsa gaman! Viltu vera „memm“?
Ég fékk nefnilega leiðréttingu, ég á pening! Fólk spyr mann af hverju maður hafi fengið þessa svokölluðu leiðréttingu á höfuðstól húsnæðislánsins og mitt einfalda svar við því er að ég veit það bara alls ekki í raun!
Leiðréttingu á því kannski að búa á Íslandi með þessu óhæfa stjórnmálafólki og klíkuhagstjórn og stjórnmálaflokkum einkavinavæðingar? Að búa í landi með lokuðu hagkerfi, með íslenska krónu og gjaldeyrishöft til að innsigla nú alla vitleysuna!
Hvað fékkstu mikið? keppist nú fólk við að spyrja hvert annað og meðalmaðurinn getur sagt að hann hafi fengið um 1.500.000 kr. ef marka má fréttir dagsins. Undirritaður getur sagt að hann tilheyrir meðalmennskunni hér. Ég mun koma aftur að þessu aðeins síðar í greininni.
Forsætisráðherrann hefur brugðið sér í gervi Hróa hattar enn eina ferðina. Rétt eins og hann gerði svo vel fyrir kosningarnar 2013 þar sem honum tókst að smala atkvæðum smælingjanna. Þeir létu enn blekkjast af gylliboðum framsóknarsveitarinnar sem virtist varla eiga sér viðreisnarvon að maður hélt, en svo var aldeilis ekki. Sjálfur meistari Houdini hefði ekki getað gert betur, en hann sagði þá fleygu setningu: „Here you see me, but now you don´t“ – og svo hvarf hann náttúrlega okkur hinum sjónum.
Auðvitað vissi maður innst inni að um sjónhverfingu væri að ræða, en hún virtist bara svo raunveruleg. Þannig er það einnig með þessa svokölluðu leiðréttingu eða öllu heldur sýndarleiðréttingu. Forsætishoudini brá sér í gervi Hróa hattar í boði sjávarútvegsins, landbúnaðarins og sjálfsagt bankanna líka. Hann birtist sigri hrósandi korteri fyrir kosningar 2013 og sagði: Við lækkum skuldir heimilanna með einu pennastriki! Og það sló þögn á allan lýðinn, meira að segja Pinocchio þurfti að athuga hvort nefið á honum væri enn á sínum stað og hvort það hefði lengst eitthvað.
Já, hvernig ætlaði svo verðandi forsætishoudini að gera þetta? Hann sagði okkur hinum að hann ætlaði að bregða sér í hið alkunna gervi Hróa hattar og sækja peningana frá þeim sem áttu þá og færa til okkar hinna, smælingjanna, bara sí sona! Það átti að taka í lurginn á þessum svokölluðu hrægömmum sem voguðu sér að halda landinu í gíslingu og ættu allar þessar ónýtu krónur sem enginn vildi né vill eiga og þröngva þeim til að selja okkur þær á því verði sem Hrói höttur setti upp, setja þeim afarkosti: „Take it or leave it!“
Ekkert mál, hann skildi ekki hvers vegna það væri ekki löngu búið að gera þetta?
Nú hefur komið í ljós að forsætishoudini hefur aldrei sett sig í samband við eigendur þessara krónueigna heldur ákvað bara að skattleggja bú föllnu bankanna þar sem allt er morandi í lögfræðingum sem stunda sjálftöku launa og eru nú allt annað en ánægjan uppmáluð og hlakka mest til að takast á við ríkisstjórn forsætisloddarans af mikilli hörku fyrir opnum tjöldum dómstólanna. Sem gæti þýtt margra ára málþóf, með öðrum orðum að á endanum verður þetta borgað úr ríkissjóði eða af skattgreiðendum þessa lands, þ.e.a.s þér og mér.
Ég hef velt því fyrir mér hvað þurfi til þess að verða alþingismaður eða ráðherra? Hvaða námi þarf maður að hafa lokið og hvaða reynslu þarf maður að hafa til þess að verða ráðherra til dæmis? Ég komst að því að svarið er: Enga! Það getur semsagt hvaða bjáni sem er orðið alþingismaður og ráðherra.
Ég skoðaði að gamni mínu nokkrar vefsíður ráðherra þessarar ríkisstjórnar til að kanna menntun og reynslu þessa fólks sem nú stýrir landinu og heldur utan um þessa víðfrægu hagstjórn landsins.
Forsætisráðherrann hefur sett eftirfarandi inn hjá sér:
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er fæddur í Reykjavík 12. mars 1975. Foreldrar hans eru: Gunnlaugur M. Sigmundsson (f. 30. júní 1948), cand. oecon. og alþingismaður, framkvæmdastjóri, og Sigríður G. Sigurbjörnsdóttir (f. 5. okt. 1948), lífeindafræðingur og skrifstofustjóri. Maki Sigmundar Davíðs er Anna Sigurlaug Pálsdóttir (f. 9. des. 1974) mannfræðingur. Foreldrar hennar eru: Páll Samúelsson og Elín Sigrún Jóhannesdóttir. Sigmundur Davíð og Anna Sigurlaug eiga eina dóttur, Sigríði Elínu (f. 2012).
Menntun
Stúdentspróf MR 1995. BS-próf frá viðskipta- og hagfræðideild HÍ 2005 auk hlutanáms í fjölmiðlafræði. Skiptinám við Plekhanov-háskóla í Moskvu. Nám við stjórnmálafræðideild Kaupmannahafnarháskóla í alþjóðasamskiptum og opinberri stjórnsýslu. Framhaldsnám í hagfræði og stjórnmálafræði við Oxford-háskóla með áherslu á tengsl hagrænnar þróunar og skipulagsmála.
Störf og embætti
Þáttastjórnandi og fréttamaður í hlutastarfi hjá Ríkisútvarpinu 2000–2007.
Forseti Nordiska Ekonomie Studerandes Union 2000–2002.
Fulltrúi í skipulagsráði Reykjavíkurborgar 2008–2010.
Formaður Framsóknarflokksins síðan 2009.
Alþingismaður fyrir Reykjavík norður 2009–2013 (Framsóknarflokki), alþingismaður fyrir Norðausturkjördæmi síðan 2013.
Eins og sjá má hefur forsætisráðherrann farið þessa hefðbundnu skólaleið á Íslandi, þ.e. gengið í menntaskóla og svo síðan lokið háskólaprófi og fer reyndar tvennum sögum af veru hans í Oxford þar sem hann var mjög viðkvæmur fyrir því að menn skyldu segja að hann hefði ekki lokið neinu námi þaðan.
Jæja, en þegar kemur að reynslu hans er ekki um mjög auðugan garð að gresja heldur. Jú, hann var fréttamaður í hlutastarfi á RÚV, og það útskýrir kannski hvers vegna hann er alltaf að segja okkur sömu sögurnar af sjálfum sér í þætti Loga Bergmanns, sem er hátindur sjálfhverfunnar.
Að því er virðist er forsætishoudini milljarða virði og ég get ekki ráðið af ferilskrá hans að hann hafi unnið fyrir því, ekki að það svo sem skipti höfuðmáli, en þó. Gefur manni aðra sýn á virði peninga að hafa unnið fyrir þeim sjálfur. Kannski vann hann þá í Happdrætti Háskólans eða í Víkingalottóinu? Eða fékk hann þá í arf frá föður sínum sem er gegn og góður framsóknarmaður sem var sennilega rétt tengdur innan spillingarsamfélagsins Íslands og fékk frítt far með? Hér er um hreinar ágiskanir að ræða en ekki fullyrðingar af hálfu greinarhöfundar.
Og ég sem hélt að forsætisráðherrann okkar væri að minnsta kosti 49 ára gamall en svo er hann bara „baby“, ekki einu sinni orðinn fertugur, en eins og menn vita er allt fertugum fært. Hann gerir sig svo oft digurbarkalegan og blæs út að því er virðist eins og blaðra sem nær ekki að tappa af sér. Auðvitað á ég ekki að hjóla svona í manninn, en þetta eru bara saklausar athuganir mínar þegar ég sé hann birtast á skjánum og upphefja þessa lærðu og föðurlegu raust sína, þennan ástsæla forsætishoudini okkar. Þá er ekki laust við að ég fyllist einhvers konar lotningu og geri nánast eins og góður Japani, hneigi mig stuttlega fyrir framan sjónvarpið og vona svo að enginn hafi séð mig!
Af öðrum meisturum þessarar Houdini-ríkisstjórnar má sjá að hinn stórfenglegi utanríkisráðherra gekk í Fjölbrautarskóla Norðurlands vestra (vissi ekki einu sinni að hann væri til) og fór síðan að reka sjoppuna í sveitinni, svo hann veit allt um hvað ein með öllu kostar og einhver gæti hjálpað honum að stafa Kasakstan eða „Kakakastan“ eins og hann vildi frekar orða það.
Ekki veit ég hvað sjávarútvegs- og landbúnaðarmeistarinn er. Honum datt í hug að koma róti á um 40 starfsmenn Fiskistofu og hóta þeim öllu illu ef þeir rifu sig ekki upp með rótum og flyttu tafarlaust norður til Akureyrar. Hann er nú að reyna að múta þeim með almannfé, 3 milljónir per haus, gegn því að þau skuldbindi sig til að vera að minnsta kosti í tvö ár í útlegð fyrir norðan. Hann er bara eins og besti mafíósi og flott að nota pening sem hann á ekki.
Svo erum við með Ragnheiði E. Árnadóttur, þá annars ágætu Suðurnesjakonu, gegna og góða sjálfstæðiskonu sem vill eins og allir góðir stjórnarliðar standa vörð um að virkja helst allt sem virkjað verður svo ekkert fari til „spillis“; standa góðan vörð um LÍÚ sem reyndar er búið að fara í ímyndarbreytingu og ég man ekki hvað kallar sig í dag; standa vörð um MS og það góða mjólkursamlag, og með fjármálafyrirtækjunum gegn þegnum landsins þó hún sitji reyndar í þeirra umboði. Annars finnst mér hún minna mig svolítið á Hillary Clinton, fyrrverandi forsetafrú Bandaríkjanna, sem á fyrsta kjörtímabili mannsins síns virtist ekki geta ákveðið hvaða hárgreiðsla yrði fyrir valinu þann daginn og fjölmiðlar vestanhafs veltu sér mikið upp úr. Það var kannski ekki sanngjarnt því að minna var gert úr mannkostum þeirrar ágætu konu.
En ráðherrameistara ferðamála finnst gaman að láta mynda sig við hin ýmsu tækifæri og eiginlega allaf með rebbaskinn hangandi um hálsinn! Hvers vegna hefur Tófuvinafélagið ekki risið upp á afturlappirnar og mótmælt þessum hangandi fyrrverandi tófum sem áttu margt annað skilið en að hanga svona um hálsinn á konunni? Nú svo er hún enn að velkjast með þennan gjörsamlega vitlausa náttúrupassa sem í raun enginn vill, hún virðist bara ekki hafa náð því ennþá.
Hún er nú sennilega hvað þekktust fyrir að þekkja fyrrum Spánarprins og nú Spánarkonung, Felipe VI de Borbón. En þegar í ljós kom að Juan Carlos, faðir hans og eftirmaður Francos ætlaði að stíga til hliðar rauk hún í Séð og heyrt og Smartlandið og lét birta myndir af sér og honum saman á Íslandi þar sem þau hefðu kynnst meðan hún var í námi við Georgetown University í Washington DC og gaf í skyn að hann væri nú bara nánast eins og sá bróðir sem hún hefði aldrei átt. Hún hélt að henni yrði boðið í krýninguna, en var svo ekki boðið þar sem á endanum var bara um fjölskyldathöfn að ræða. Æ,æ.
Þessi „reynslumikla“ ríkisstjórn „forsætisráðherrans“ mikla frá Kasmír minnir um margt á unglinginn sem er að læra að keyra og keyrir utan í allt og alla og skilur eftir skrámur hér og þar og segir aldrei afsakið eða fyrirgefðu og kann svo alls ekki að bakka í stæði! Þetta „reynslumikla“ fólk þarf líka að ráða sér 2–3 aðstoðarmenn sem aldrei fyrr hefur tíðkast og „outsourcea“ svo öllum verkefnum og vinnum til vina og vandamanna. Svo er allt þetta fólk ráðið án auglýsinga, sem þykir sjálfsagt mál. Löggjafinn setur okkur hinum lögin en hefur enga þörf til að fara eftir því sjálfur.
Nú ætla ég aðeins að koma að sýndarleiðréttingunni hans Houdinis. Okkur er tjáð að ástæða þess að þetta er gert með þessum hætti sé að hér hafi orðið „forsendubrestur“ eins og það er orðað! Ég á ekki eitt einasta aukatekið orð! Í alvöru? Ég er af þeirri kynslóð að ég man eftir verðbólgubálunum góðu þar sem allt sem „brenna“ vildi brann. Í mínum huga er það í sjálfu sér forsendubrestur að búa við klíkuhagstjórn áratugum saman, eða óstjórn og agaleysi Íslendinga almennt, með íslenska krónu í lokuðu hagkerfi og með gjaldeyrishöft.
Hér blása lífeyrissjóðirnir út og geta bara „hent“ peningunum í fasteignir sem útskýrir örugglega að stórum hluta þessa „2007“ fasteignabólu sem tröllríður öllu nú. Hvað þá með að „leiðrétta“ þann forsendubrest sem okkur hinum hefur verið boðið upp á, aðallega í boði Framsóknar- og Sjálfstæðisflokksins? Ísland er hluti af EES vegna þess að Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi formaður Alþýðuflokksins, keyrði það í gegn á sínum tíma, fyrst gegn Davíð Oddsyni, þáverandi forsætisráðherra, sem vildi alls ekki heyra á það minnst að hann myndi hugsanlega missa sín „einræðisvöld“. Þetta er upphaf að einu mesta framfaraskeiði Íslandssögunnar efnahagslega séð, leyfi ég mér að fullyrða. Sem við þekkjum til í dag.
Að lokum vil ég segja þetta: Fyrir mér er þessi leiðrétting algjör sýndarmennska þó ég ætli ekki að gerast sá hræsnari að segja að ég taki á móti þessum peningum með „óbragð“ í munni, enda skil ég ekki þá samlíkingu? Hvernig er hægt að fá óbragð í munn við afhendingu fjár? Ég er einn þeirra sem segir bara: Takk fyrir! þegar peningar eru réttir til hans,
En það sem flestir held ég gera sér ekki grein fyrir er að meðaltalslækkunin eins og ég kom að hér upphaflega er bara um ein og hálf milljón, sem þýðir um 7.500 kr. lægri mánaðarleg afborgun af íbúðarláni, og verðtrygging og verðbólga verða búin að „éta“ upp aftur eftir 12–15 mánuði. Og ég spyr þá: hver ætlar að leiðrétta þann forsendubrest? Ég hefði kosið að láta mína „leiðréttingu“ renna til Landspítalans.
Þorvaldur Skúlason
Höfundur er áhugamaður um íslenskt samfélag.