Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Kjarnakona úr hátæknifræði í heilbrigðisverkfræði!

$
0
0

Kristín Lilja Ragnarsdóttir er ung kona sem lærði hátækniverkfræði við Háskólann í Reykjavík en stundar núna mastersnám í heilbrigðisverkfræði við „Delft University of Technology“ í Niðurlöndum. Kristín er á leiðinni í þriggja mánaða starfsnám til Zürich í Sviss þar sem hún vinnur að verkefni sem tengist hönnun á gervifótum. Hún var ein af þremur konum sem hlutu styrk til að fara í starfsnámið, margar sóttu um en hennar umsókn bar af. Kvennablaðið tók viðtal við þessa kjarnakonu en lesa má blogg Kristínar Lilju HÉR

kl6

Segðu okkur aðeins frá þér.

Ég er 27 ára Reykjavíkurmær, er í sambandi með Inga Hrafni Hilmarssyni, leikara og flugliða, og við búum saman í Zürich, Sviss. Ég er á seinna ári í mastersnámi við TU Delft. Upphaflega kláraði ég félagsfræðibraut við Kvennaskólann í Reykjavík og stefndi á nám í lögfræði, félagsfræði eða stjórnmálafræði. Þau plön breyttust eftir útskrift og ég ákvað að prófa rekstrarverkfræði við HR. Þar sem ég var ekki búin með nægilega margar einingar í stærðfræði og eðlisfræði til að komast inn fór heill vetur í að vinna þær upp í fjarnámi við Versló. Ég kláraði eina önn í rekstrarverkfræði haustið 2008 og ákvað í kjölfarið að skipta yfir í hátækniverkfræði, því ég var ekki alveg að finna mig í rekstrar- og viðskiptafögunum.

Hátækniverkfræði? Hljómar framandi, hvernig er hún?

Hátækniverkfræðin var virkilega skemmtileg en námið er blanda af véla- og rafmagnsverkfræði, eitthvað sem ég hafði ekki ímyndað mér að ég hefði gaman af.

Það kom mér t.d. mikið á óvart að ég skyldi hafa gaman að því að forrita iðntölvur og vélmenni og að mér þætti fög á borð við rafmagnsfræði, aflfræði og reglun áhugaverð.

Ég fór í skiptinám við KTH í Stokkhólmi, tók þátt í að þróa sjálfvirkan eftirlitsbíl fyrir álverið í Straumsvík og var í starfsnámi hjá Össuri eina önn. Ég fékk því mikið út úr náminu og það opnaði fyrir mér alveg nýjan heim af áhugamálum og starfsmöguleikum!

kl7

Núna ertu í framhaldsnámi, hvernig er það?

Ég er núna að læra heilbrigðisverkfræði (enska: Biomedical engineering) í TU Delft í Hollandi. Það er ýmsar sérhæfingar í boði þar sem sumir velja að búa til betri skurðtæki eða mælitæki fyrir skurðstofur. Aðrir sérhæfa sig í að bæta hluti sem eru græddir í líkamann, t.d. gera betri mjaðmaliði eða hnjáliði. Mín braut sérhæfir sig meðal annars í rannsóknum og hönnun á stoðtækjum og gerviútlimum. Einnig er mikil áhersla lögð á rannsóknir sem stuðla að betri endurhæfingu mænu- eða taugaskaddaðra og heilablóðfallssjúklinga.

Þetta er allt saman mjög spennandi og að mínu mati er heilbrigðisverkfræði hratt vaxandi grein innan verkfræðinnar. Mér finnst æðisleg tilhugsun að nýta verkfræðina til þess að bæta lífsgæði fólks.

Segðu okkur frá starfsnáminu.

Það er ætlast til að nemendur fari í þriggja mánaða starfsnám á öðru ári. Sumir komast að hjá fyrirtækjum á meðan aðrir vinna á rannsóknarstofum í öðrum háskólum eða á sjúkrahúsum. Ég sá auglýsingu frá svissnesku samtökunum NCCR- Robotics en þau eru eins konar regnhlífarsamtök fyrir þær svissnesku rannsóknarstofur sem vinna að hönnun róbóta sem bæta lífsgæði fólks á einhvern hátt. Samtökin auglýstu styrki fyrir þrjár konur í róbóta-tengdu mastersnámi, sem yrði notaður til að fjármagna þriggja mánaða starfsnám hjá einni af rannsóknarstofum samtakanna.

Mér fannst þetta hljóma eins og sniðið fyrir mig og í samstarfi við leiðbeinandann minn hafði ég samband við rannsóknarstofu við tækniháskólann ETH í Zürich. Ég komst að í verkefni sem vinnur að því að búa til nýja gerð af tölvustýrðum gervifæti. Í framhaldinu fór ég í gegnum umsóknarferlið vegna styrksins og var svo heppin að hljóta hann núna í október. Í desember var ég svo mætt til Zürich til að hefja starfsnámið.

kl4

Hvernig er lífið þarna?

Lífið í Zürich hefur verið alveg æðislegt hingað til. Við erum enn þá að átta okkur á öllu en fyrstu kynni eru mjög góð. Það hefur verið frábært að kynnast rannsóknarstofunni og starfseminni þar. Hérna er allt mjög skipulagt, snyrtilegt og vinalegt. Svisslendingar eru nákvæmir og stundvísir og virðast afar fjarri “þetta-reddast” hugsunarhættinum sem einkennir Íslendinga. Það er líka brjálæðislega fallegt hérna. Fjallgarðar hvert sem litið er, falleg vötn og örstutt í flott skíðasvæði. Svo er hægt að ferðast um allt land (og til annarra landa) á auðveldan hátt. Það er samt virkilega dýrt hérna – þannig að styrkurinn kemur sér mjög vel.

Hver eru framtíðaráform þín?

Mig langar til að koma heim til Íslands eftir námið og reyna fyrir mér á vinnumarkaðinum. Ég geri mér samt grein fyrir að það er ekki beint slegist um heilbrigðisverkfræðinga hjá íslenskum verkfræðistofum en það má alltaf reyna. Ef það gengur hægt að fá vinnu gæti ég alveg hugsað mér að safna að mér góðum hópi fólks og stofna lítið fyrirtæki með starfsemi tengda heilbrigðisverkfræðinni. Ef allt bregst er ég samt með ýmislegt annað á markmiðalistanum sem ég gæti stefnt að í staðinn.

Ég á til dæmis enn eftir að taka gráðu í ítölsku, læra leiðsögumanninn, hanna mína eigin prjónauppskrift, stofna kaffihús og skrifa bók. Þetta á allt eftir að koma í ljós.

Segðu mér, þú ert ekki í „týpískri kvennagrein“ hver eru viðbrögð fólks við því?

Viðbrögð fólks eru almennt mjög góð og flestum finnst þetta bara flott. Ég held að fólk hafi mest verið hissa þegar ég var ekki lengur að læra félagsfræði og sögu heldur farin að pæla í endurhæfingarróbótum fyrir heilablóðfallssjúklinga. Og þrátt fyrir að stelpur séu í miklum minnihluta bæði í hátækniverkfræðinni og í skólanum mínum í Delft þá hef ég aldrei fundið neitt sérstaklega fyrir því. Strákarnir í náminu koma fram við okkur af mikilli virðingu og ég hef aldrei upplifað að ég eigi ekki “heima“ hérna. Þvert á móti! Held (og vona) að þetta sé merki um breytta tíma.

Getur þú gefið stúlkum á sömu leið góð ráð?

Það vantar alltaf fleiri stelpur í greinina! Verkfræðin er mjög fjölbreytt fag en í grunninn byggist námið á að þjálfa sig í rökhugsun og að leysa vandamál. Það ættu allir að geta sérhæft sig í því, óháð kyni. Nýverið var síðan stofnað skemmtifélag verkfræðikvenna, Stuðverk. Það fannst mér frábært framtak því það hópar saman verkfræðikonum úr ýmsum áttum og styrkir tengslanetið innan sviðsins. Ég hvet íslenskar verkfræðistelpur til að skrá sig í það!

Einhver orð í lokin til lesenda Kvennablaðsins?

Það er æðislegt að fá blað á borð við Kvennablaðið inn í flóruna. Mér finnst íslenskar konur alveg sérstaklega kraftmiklar, duglegar og útsjónarsamar. Þær konur sem eru í kringum mig eru að læra allt mögulegt, stofna fyrirtæki, ala upp börn, skrifa bækur, forrita og semja tónlist. Þær þræta um pólitík, ferðast út um allan heim og láta til sín taka á ýmsum sviðum. Ef ég skoða síðan þá íslensku vefmiðla sem eru í boði fyrir konur, þá finnst mér þeir almennt ekki endurspegla hugmyndir mínar um íslenskar konur.

Ég fæ ég það alltaf á tilfinninguna að það eina sem fari í gegnum hausinn á okkur sé hvernig við getum misst 10 kg sem allra fyrst eða hvaða hlutir séu ómissandi í snyrtibuddunni. Oft hef ég séð viðtöl við konur sem eru að gera ótrúlega spennandi hluti og það eina sem þær eru spurðar að er hvaða flík þær haldi mest upp á í fataskápnum.

Auðvitað er gaman að fylgjast með því líka, en slík umfjöllunin getur orðið frekar einhæf til lengdar. Þess vegna fannst mér mjög gaman að sjá hvernig Kvennablaðið nálgast þessa hluti og hlakka til að fylgjast með blaðinu vaxa og dafna.

kl


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283