Eins og ég impraði á í síðasta bloggi þá mun ég fjalla um merkingar matvæla á næstu vikum og mánuðum. Ástæðan er tvíþætt. Í síðustu viku tóku gildi nýjar reglur um matvælamerkingar sem eru til bóta að mörgu leyti. Í öðru lagi hef ég ótrúlega gaman af þessum pælingum og fann fjölina mína allhressilega þegar ég fór að starfa í Neytendasamtökunum en þar er ég varaformaður.
Í síðasta bloggi fjallaði ég um innihaldslýsingar á matvælum. Núna ætla ég að tala um ofnæmisvalda
Samkvæmt nýju reglunum er skylt að taka fram ofnæmisvalda í innihaldslýsingu og merkja þá þannig að það fari ekki framhjá lesanda að hann staldri við og átti sig á málinu. Þetta er yfirleitt gert þannig að ofnæmisvaldar eru feitletraðir.
Af könnun að dæma sem Neytendasamtökin framkvæmdu á dögunum kom í ljós að merkingar ofnæmisvalda eru í góðu lagi að því er virðist. Þetta er reyndar svo alvarlegt mál að við eigum að gera kröfur um að merkingar ofnæmisvalda séu alltaf í fullkomnu lagi. Ég er ekki í vafa um að matvælaframleiðendur deili þessari skoðun með neytendum.
Hér að neðan eru myndir af nokkrum handahófsvöldum vörum þar sem ofnæmisvaldar eru ekki merktir samkvæmt nýju reglunum. Fyrirtæki fá 6 mánuði til að virkja þessa reglu í innihaldslýsingunum sínum. Það er því full snemmt að byrja að skammast út í þennan eða hinn. Hinu er ekki að neita að nýju reglurnar (sem tóku gildi 12. des.) hafa verið klárar um langa hríð og sum fyrirtæki hafa farið eftir þeim jafnlengi.
Rétt hjá MS. Mjólk og mjólkurvörur eru ofnæmisvaldar og ber að taka fram á umbúðum.
Eftir að hafa skoðað yfir 400 vörur er hægt að draga fram nokkur fyrirtæki sem sannarlega standa sig vel. SS er eitt af þeim.
Hérna er allt rétt varðandi ofnæmisvalda. Takið eftir hvað það er sniðugt að hafa svartan bakgrunn og hvítt letur.
KEA-skyrdrykkur í ruglinu. Undanrenna er ofnæmisvaldur.
Kjarnafæði er annað fyrirtæki sem stendur sig yfirleitt vel varðandi vöruupplýsingar. Hérna myndi ég setja athugasemd við að letrið á ofnæmisvöldunum er sennilega of lítið. Nýju reglurnar eru til bóta hvað þetta varðar. Þar er kveðið á um lágmarksstærð leturs í 13. grein.
Hérna er svolítið vafamál. Það getur verið að þessi vara sé undanþegin ofnæmismerkingu. Vara sem er beinlínis öll úr ofnæmisvaldi gæti sloppið við merkingu. Í 19. grein nýju laganna er býsna skýrt kveðið á um að það má sleppa því að birta innihaldslýsingu (og þar með að telja upp ofnæmisvalda) ef að.. „matvæli sem samanstanda af einu innihaldsefni þegar“:
- ( i.) heiti matvælanna er það sama og heiti innihaldsefnisins eða
- ( ii.) heiti matvælanna gefur eðli innihaldsefnisins greinilega til kynna.
Hinsvegar eru fullyrðingar á umbúðunum að ofanverðu sem kveða á um að lýsi sé bætandi. það er heilsu-fullyrðing og sé slík viðhöfð, er skylkt að hafa næringartöflu og innihaldslýsingu. Auðvitað er lang best fyrir alla að hafa sem bestar upplýsingar um vöruna. Ekki bara fyrir neytendur. Líka fyrir framleiðendurna. Allir græða.
Sojabaunir og afurðir úr þeim eru ofnæmisvaldar og ber að tiltaka. Rétt hjá SS
Egg eru ofnæmisvaldur.
Þarna vantar feitletrun á ofnæmisvalda
Þessi vara er eiginlega merkileg fyrir þær sakir hvað það eru margir ofnæmisvaldar samankomnir í henni. Hún er beinlínis unnin úr ofnæmisvöldum.
. . . Þetta var ósanngjarnt hjá mér.
Það er ekki við hæfi að halda sig innan mæra lausbeislaðs og kersknisfulls gyss þegar ofnæmi er annarsvegar.
Ofnæmisvaldarnir eru svo tilteknir í viðauka 2 við reglurnar. Hérna er hlekkur á viðaukann. Ef að vara inniheldur eftirfarandi efni, þarf að taka það fram í innihaldslýsingu.
Eins og sjá má er þetta skemmtilegur listi. Það er hins vegar ekkert skemmtilegt þegar einhver fær ofnæmiskast vegna einhvers sem sá neytir. Ég þekki eina sem er með svo heiftarlegt hnetuofnæmi að hún steypist upp í útbrotum við það eitt að vera í sama herbergi og hnetur hafa verið meðhöndlaðar. Húðin verður rauð og erfiðleikar með andardrátt. Það þarf ekki að hugsa þá hugsun til enda ef þessi manneskja (eða einhver önnur með sterk ofnæmisviðbrögð) borði svona vöru og fái hana inn í líkamann.
Ofnæmislistinn er af þessum sökum mjög mikilvægur. Þetta getur snúist um líf og dauða og segi ég þetta sem sá sem er illa við að „dramaísera“ hluti og hef horn í síðu „sensasjónalista“ af öllum sortum. Matvælaframleiðendur verða að taka þetta alvarlega og fara eftir reglunum.
Nú er lag.
.