Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Líf án jakkafata

$
0
0

Það eru til þrjár myndir af sjálfum mér sem mér hefur alltaf verið einstaklega uppsigað við. Ég sit á gólfinu með spiladós og þetta sykursæta krúttbros gjörsamlega grunlaus um hvað lífið á eftir að skammta mér og ég er í matrósafötum!

Síðan er það fermingarmyndin. Ennþá sama sykursæta brosið, klippingin er nær því að vera herramaður þó svo að lubbinn sé aðeins að teygja sig í áttina að hippatískunni sem auðvitað var liðin hjá því pönkið er alveg að koma. En það er ekki mikið pönk í hátíðarsvipnum og ekki heldur jakkafötunum sem nú hafa leyst matrósafötin af. Þetta eru minnir mig grá jakkaföt og ég man að mér leið skelfilega í þeim. Ég kunni betur við smurolíuklessur á skálmunum og fjósalykt í hárinu.

Það liðu ekki mörg ár frá fermingu – nánast hægt að mæla það í mánuðum – og þá var ég kominn um borð í Bæjarútgerðartogarann Þormóð Goða. Man þegar ég kom í land og fór á kontórinn að nálgast hýruna þá var þar einmitt jakkafataklæddur maður sem tilkynnti mér að ég fengi bara hálfan hlut því ég væri svo ungur.

Hvað mig langaði að kýla kvikindið.

Ég sagði honum að ég hefði ekki þótt of ungur til að standa rekísvaktina í haugabrælu um hánótt á miðju Grænlandssundi frammi á hvalbak með 10 þúsund watta ljóskastara og líf áhafnarinnar í höndum mér. Mig minnir að þessu hafi lokið með fullri hýru mér til handa en það skipti svo sem ekki máli því það brann allt upp í Þórskaffi hvort sem var.

Þar var áhöfnin allt í einu einmitt orðin jakkafataklædd. Mikið hrikalega sem mér fannst það fara þeim illa. Sérstaklega þegar líða tók á nóttina. Þeir urðu eitthvað svo umkomulausir miðað við hvað þeir voru flottir í sjóstakknum með norðan frostbylinn beint í andlitið.

Ég lærði semsagt þarna fljótlega að jakkaföt væru annaðhvort að reyna að hella í þig brennivíni eða hafa af þér peninga.

Auðvitað man ég líka að sú verkamannastétt sem ég er vaxinn af fór í jakkafötin á tyllidögum án þess að hún ætlaði endilega að hrynja í það. Það voru þrautleiðinlegar messur skírnir jarðarfarir og fermingar. Ekki beint eftirsóknarvert fyrir ungan mann.

Man að það komu drengir á mínum aldri einu sinni og bönkuðu heima í alveg hreint stífpressuðum og glerfínum jakkafötum. Þeir vildu ræða við mig um Jesú. Ekki cool. Ekki fyrir mann sem var að reyna að finna út hvort væri meira spennandi hippið eða pönkið.

Það var einu sinni þannig að ef mann vantaði pening til að framkvæma einhverja snilldarhugmyndina þá pantaði maður sér viðtal við bankastjóra. Hann tók á móti manni í jakkafötunum sem konan hafði straujað fyrir hann og það fyrsta sem hann spurði um var: „Hvað ætlar þú að gera við peninginn góði?“ Djöfulinn kom honum það við? Hann fiskaði svo ýmist út úr jakkafötunum hreint og klárt „nei“ eða í besta falli 65 til 70 prósent af því sem mann vantaði. Þannig sáu jakkafötin til þess að maður náði aldrei alveg að framkvæma.

Mér gengur alltaf verr og verr að skilja af hverju menn velja að mæta jakkafataklæddir í vinnuna. Það eru ekki margir sem hreinlega valda því. Ég meina jakkaföt krumpuð að aftan og flösusýni niður axlirnar. Ekki traustvekjandi.

Þau eru til dæmis ekki mikið að hjálpa honum Sigmundi okkar Davíð. Ef ég væri stílistinn hans þá ræki ég hann í eitthvað annað.

Finnst mönnum þeir vinna svona rosalega hátíðlegt starf? Munið þið 2007. Allt fullt af litlum strákum í jakkafötum og támjóum hrikalega löngum skóm. Ekki að tala um Jesú, nei þeir hvísluðu um afleiður og vafninga. Það voru ekki vafningar eins og við hipparnir vorum í feluleik með. Það voru svona vafningar sem létu lífeyri eldriborgaranna fuðra upp í reyk. Hátíðlega merkilegt starf eða hitt þó heldur.

Sennilega er Alþingi þó háborg jakkafatanna. Þar má ekki mæta í vinnuna nema með bindi, svo merkilegt er nú það starf. Það eru eiginlega jakkafötin sem stjórna landinu. Sjaldan eða aldrei hefur jakkafatafyllingin verið jafn dapurleg og nú um stundir. Þá sjaldan þau mæta í vinnuna þá gera þau lítið annað en að brenna upp þeim oggolitla trúverðugleika og sjarma sem jakkafötin eittsinn höfðu. Til að gæta jafnræðis þá er rétt að geta þess að dragtirnar sitja alveg skuldlaust við sama borð.

Þriðju og síðustu myndina og þá sýnu verstu hef ég reyndar aldrei séð. Bara veit. Þegar nýrómantíkin tröllreið tónlistarsenunni rak ég rokkbúllu. Þetta var eitt af þessum stuttu en ofsa skemmtilegu tímabilum í lífinu. Allt að gerast. Ég var staddur á Ronnie Scotts í London að horfa á Charlie Watts Big Band. Sé ég ekki nema sjálfan Keith Richards og af því að ég vissi að þetta væri örugglega eina tækifærið mitt í lífinu að tala við goðið þá rauk ég á hann og náði að halda honum á spjalli í dágóða stund. Var kominn vel áleiðis með að landa Rolling Stones tónleikum í höllinni. Þegar maður hangir svona með fræga fólkinu þá þarf maður að sætta sig við það að lenda á ljósmynd.

Þegar ég seinna í vélinni á leiðinni heim fór yfir atvikið í huganum rann upp fyrir mér sú skelfilega staðreynd að á þessum hápunkti í lífinu hafði ég asnast til að kaupa mér ný föt í London og var að prufukeyra draslið þetta örlagaríka kvöld. Góðir lesendur, ég var í jakkafötum. Og ekki bara einhverjum jakkafötum. Þau voru nýrómantísk. Síður jakki og uppbrettar ermar. Ég hef enn í dag ekki getað skilið hvernig þetta gat gerst.

Ég hugsa til þess með hryllingi þegar einhver dúddinn er að flagga myndaalbúminu sínu. „Sjáið þið þessa mynd, þetta er Keith Richards“ … „já flott, en hver er þessi Simon Le Bon Wannabe!! þarna með honum?“

Þessi jakkaföt fóru síðan bara beint inn í skáp og eru núna jafn tínd og tröllum gefin og fermingarfötin. Ég hef hvort sem er ekkert þorað að experimenta með jakkaföt síðan. Hræddur um að enda í einhverri óspennandi vinnu og svo veit maður aldrei hvar Keith dúkkar upp. Ég meina Jagger var að spóka sig á Ísafirði einn daginn.

Svo vill maður auðvitað ekki líta út eins og framsóknarmaður í vinnunni yfir hátíðarnar.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283