Ragnar Þór Pétursson skrifar:

„Rétt“ klæddir vitringar í þann mund að hrinda af stað atburðarás sem stendur enn
Það segir sitt um versnandi stöðu vitringa að þeir, sem fyrir 2000 árum rannsökuðu halastjörnur og komust að þeirri niðurstöðu að þær vísuðu á guðdómlega hvítvoðunga, skuli enn í dag hafa á sínu bandi fjölda fólks í hinum „upplýsta heimi“, á meðan vitringar nútímans, sem geta búið til halastjörnulíki úr þurrís og sandi og kunna að lenda fjarstýrðum myndavélum á yfirborði halastjarna langt úti í geimi, fá skammir fyrir að vera í of sexí skyrtum.
Það segir sitt um versnandi stöðu samfélagsrýna að rúmri hálfri öld eftir að berklaveikur Orwell fórnaði lífi sínu með því að skrifa 1984 í rafmagnslausum, saggafullum, illa ræstum og reykfylltum kofa um skuli ísraelskir landnemar klappa þegar þyrlur tæta í sig palestínskar fjölskyldur og bandarískir sunnudagaskólakennarar yppta öxlum yfir þeirri afhjúpun að öryggiskennd þeirra hefur verið hert í blóði pyntaðra.
Það segir sitt um versnandi stöðu listamanna að sjötíu og fimm árum eftir að Chaplin afhjúpaði harðstjórann í kvikmynd og kvaddi alla hugsandi menn til andófs gegn grimmd og til varðstöðu um mannúð skuli heimurinn standa á nöf styrjaldar og hryðjuverka vegna gamanmyndar sem er skv. þeim sem hana hafa séð „álíka fyndin og langdregin og hungursneyð“.