Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Tátólógía hins sálarlausa stafræna heims

$
0
0

Daníel Magnússon skrifar:

Screen Shot 2014-12-25 at 10.00.49 e.h.

Í boðinu heima hjá Hrönn systur var ég að sýsla með myndavél til að ná myndum af unglingunum okkar og auðvitað þeim eldri líka. Besta leiðin til að sjá hvernig tíminn er að hlaupa frá manni er að skoða líf annars fólk … hvernig tímanum er bókstaflega stolið af fólki sem maður hélt að myndi aldrei vaxa hvað þá raka sig.

Ég tók myndir eftir fyrirsögn systur minnar og tókst það ágætlega. Mömmu varð starsýnt á myndavélina eftir að tökunni lauk og spurði mig hvort þetta væri nýtt. Ég játti því og þá spurði hún jafn óðar hvort ég framkallaði filmurnar sjálfur.

Mamma hefur sitt vit á þessum tækjum því hún tók mikið af myndum í gamla daga á litla 35 mm myndavél sem hún fékk í afmælisgjöf frá Systu systur. Hún fór sjálf með sínar filmur í framköllun og hélt utan um þennan ljósmyndabúskap af stakri prýði. Allar myndirnar voru límdar í albúm og þar mátti án vandkvæða finna sögu Goðatúnsins og þeirra sem gistu þar.

Ég tjáði henni að nú væri ljósið ekki það mikið að ég væri ekki að taka á filmu. Hún leit á mig spurnaraugum og sagði:

Þú varst að taka myndir áðan, góði minn ..!

– Já, ég veit! svaraði ég. Þetta er ekki myndavél með filmum, þetta eru rafmagnsmyndir
og notaði þar hugtak sem mér hefur verið tamt um þess lags ljósmyndun.

– Rafmagnsmyndir, hváði hún forviða og leit á mig … rafmagnsmyndir?!

Ég játti því og bætti við að þetta væri digital. Þá gerði ég mér grein fyrir því að ég var að útskýra fyrir sakleysinu tækni sem því var óviðkomandi. Ég var að útlista fyrir algjörlega óspilltri manneskju, tátólógíu hins sálarlausa stafræna heims.

Ég horfði þarna á fulltrúa Jesúbarnsins sem skildi meyfæðinguna í fjárhúsinu án þess að það væri lýst upp með halogenperum og jarmið í geitunum dugði sem trygging fyrir því að frelsarinn hlaut að hafa fæðst í hálmi.

Ég leit feiminn undan þessu augnaráði sem reyndi að skilja hversvegna ég væri skyndilega orðinn glataði sonurinn sem svikið hefði filmuna á helgri nóttu og þættist vera að taka myndir með filmulausri vél. Ég stóð þarna orðlaus í dálítinn tíma en þá gall úr eldhúsinu rödd systur minnar sem kallaði hátt og snjall: Kaffi ef einhver vill!

Mér fannst eins og forsjónin hefði leyst mig frá stórri freistingu þegar ég horfði á eftir aldraðri móður minni ganga inn í eldhús til að vitja kaffibollans sem var jafn trygg líknun stökkum beinum eins og fæðing frelsarans er von fyrir plebba eins og mig.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283