Ragnheiður Tryggvadóttir skrifar:
Ég rakst á gamla kunningjakonu um daginn og sagði henni frá þeirri furðu að ég væri að verða amma. Hún horfði á mig með þetta undursamlega blik í augunum sem ég hef séð hjá svo mörgum konum sem ég hef fært þessa frétt. En svo sagði hún: Ástin til barnabarnsins mun eiga sér sama stað í hjartanu og ástin til barnsins þíns en það sem verður nýtt og öðruvísi er þessi tilfinning um keðju.
Svo hófust tónleikarnir og ég hugsaði ekki um þetta meir fyrr en nokkrum dögum seinna.
Það er kannski erfitt að skilja þegar maður er fullorðinn að þessir óþolandi, pirrandi, afskiptasömu foreldrar séu þeir sem elski mann mest.
En þegar þú heldur á þínu eigin barni í fanginu í fyrsta skipti og skilur ekki hvaða tilgang lífið hefur eiginlega haft fram að því, þá þarftu að átta þig á að þannig hefur „einhverjum“ og já – alls ekki bara „einhverjum“ liðið vegna þín. Og „einhverjum“ hefur líka liðið svona með foreldri þitt í fanginu. Barninu þínu á vonandi líka eftir að líða þannig. Það er keðjan.
Foreldraást er nefnilega í flestum tilfellum alveg skilyrðislaus. Þó að þú munir alveg eftir mánuðunum fjórum þegar hámarks svefntími var korter og frekjuköstunum sem stóðu nánast óslitið í þrjú ár þá skiptir það engu.
Þú manst nefnilega enn betur þegar þú varst stóra ástin í lífi þeirra. Þegar litlar hendur vöfðu fingrunum um hárið á þér til að róa sig og þú eyddir allri nóttinni með hausinn ofan í rimlarúminu.
Eða þegar áttaáringurinn var svo hræddur um að þú myndir deyja að hann gisti á dýnu við rúmið þitt á hverri nóttu og hélt í höndina á þér. Axlarkreppan er löngu liðin hjá en tilfinningin í hjartanu er söm við sig.
Stráksinn sem kemur hlaupandi heim úr skólanum, sér elskulegan pabba sinn við eldavélina og stynur upp: „Er enginn heima“? Stelpuskottið sem klípur varlega í handlegginn á mömmu sinni og hvíslar: „Það finnst öllum vinkonum mínum þú skemmtilegasta mamman, mér líka, sú allra besta, ég elska þig.“
Tilfinningabrunið, ástin, ástarsorgirnar. Að skríða uppí langt fram yfir fermingu til að fá knús. Minningarnar eru endalausar.
Ég var svo gæfusöm að missa föður minn ung; já, undarlega til orða tekið en ef til vill þess vegna þurfti ég aldrei að standa frammi fyrir neinum efa. Hann elskaði mig svo mikið að ég vissi alveg pottþétt að ég væri stórkostlegasta stelpa í heimi. Hann var sá sem ég elskaði heitast af því að hann efaðist aldrei um mig, aldrei.
Þrátt fyrir þá gæfu að hafa eignast eiginmann, börn, stjúpbörn, skábarnabarn og nú bráðum ömmustrák þá held ég að enginn hafi elskað mig jafn skilyrðislaust og pabbi. Ég átti líka dásamlega móður, okkar samband var öðruvísi en líka litað af þessari eindregnu ást.
Að eiga einhvern að sem efast aldrei um mann, bara elskar og viðurkennir þrátt fyrir feilspor og veikleika er svo ómetanlegt að ég held að þau ykkar sem eruð svo heppin að eiga foreldra á lífi ættuð að athuga ykkar gang, alveg sama hvernig sambandið hefur verið og hvað foreldrarnir eru vonlausir, þreytandi og ómögulegir. Hratt flýgur stund!
Bestu kveðjur á nýju ári!