Það er upplagt að fara með krakkana á skíðasvæðin innan borgarmarkanna um helgar. Slíkar ferðir kosta litla fyrirhöfn, engin útgjöld og hægt að skreppa með litlum fyrirvara. Kakó á brúsa og nesti er allt sem þarf fyrir utan auðvitað að klæða sig vel og taka með þotur, bretti og skíði. Frábær leið til að stunda útivist og auka samverustundir fjölskyldunnar.
Innan borgarmarka Reykjavíkur eru þrjár skíðalyftur sem ætlaðar eru börnum og byrjendum. Lyfturnar eru opnar þegar aðstæður leyfa.
Lyfta er í Ártúnsbrekku við bæinn Ártún hjá gömlu Rafstöðinni og er ekið að henni frá Rafstöðvarvegi.
Önnur lyfta er við Jafnasel í Breiðholti á milli Seljahverfis og Fellahverfis.
Þriðja lyftan er í Grafarvogi og er staðsett meðfram göngustíg sem liggur upp að Húsahverfi. Erfitt er að finna bílastæði við hana.
Aðgangur að lyftunum er án endurgjalds.
Opið er um helgar frá 10:00 – 16:00 og virka daga frá 16:00 – 20:00
Upplýsingar um opnun er í símasvara 878 5798. Facebook síða skíðasvæðanna er hér.