NY Times, eitt fremsta dagblað í heimi, birtir í grein lista yfir áhugaverða staði sem vert er að heimsækja á árinu 2014. Þarna eru ýmsir sérstæðir staðir nefndir til sögunnar en mig rak í rogastans þegar ég skoðaði listann og sá þar ljósmynd frá Íslandi.
Ljósmyndin frá hálendi Íslands sem fylgir hér er ótrúlega glæsileg, en textinn sem fylgir myndinni og er skrifaður af blaðamanni NY Times, Danielle Pergament, hlýtur að vera eins og spark í magann á öllum sem láta sig einhverju varða hvað verður um náttúru og auðlindir Íslands.
Það grætilega er að allt sem blaðamaður skrifar er ýkjulaust.
Textinn er svona í lauslegri þýðingu ónefnds velunnara Kvennablaðsins:
30. Hálendi Íslands
Náttúrundur eru í hættu.
Heimsækið þau áður en það er um seinan.
Áratugum saman hafa íslensk stjórnvöld verndað Þjórsárver; hálendisvin við jökuljaðar með mýrlendi, stöðuvötnum, pollum og rústaflám. En á síðasta ári boðaði ríkisstjórnin áform um að rifta friðuninni og leyfa vatnsaflsvirkjun á svæðinu.
Sjáið fyrir ykkur stíflur, uppistöðulón, háspennulínur og malbikaða vegi í stað jöklakyrrðar og óbeislaðra fallvatna.
„Ef virkjanamenn sleppa inn á svæðið á annað borð verður engin leið að afstýra því að þeir gjörspilli öllu votlendissvæðinu,“ sagði Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands.
Frekari ótíðindi liggja í loftinu: Frumvarp til laga hefur verið lagt fram sem veikir enn frekar fyrri áform um verndarsvæði á Íslandi. Ef þið hyggist njóta hinnar víðfrægu, ósnortnu, náttúru Íslands ættuð þið að heimsækja landið strax.
Danielle Pergament
Það er merkilegt að við skulum ætla okkur að verða að athlægi um allar jarðir fyrir skammsýni okkar og skeytingarleysi gagnvart einstakri náttúru landsins. Eins verður okkar minnst fyrir taumlausa græðgi íslenskra stjórnvalda á tímum þar sem allt hugsandi fólk vinnur hörðum höndum að því að vernda náttúruauðlindir jarðarinnar.
Komandi kynslóðir munu ekki frekar en ferðamenn frá öðrum löndum fá að lifa að kynnast ósnortinni náttúru landsins sem senn mun heyra sögunni til. Sorglegt svo ekki sé meira sagt og á okkar ábyrgð. Óskemmtilegur minnisvarði og svik við börnin okkar og barnabörn.
Á vef Umhverfisstofnunar segir svo um Þjórsárver, feitletrun er mín:
Þjórsárver voru fyrst lýst friðland árið 1981 og friðlýsingin var endurskoðuð árið 1987. Víðáttumesta gróðurvin á miðhálendinu. Stingur í stúf við harðneskjulegt umhverfið. Gróskumiklar og fjölskrúðugar flæðilendur með afar fjölskrúðugu gróðurfari. Mestu varpstöðvar heiðargæsarinnar í heimi. Svokallaðar rústir eru sérkennilegar sífreramyndanir í jarðvegi sem geta orðið yfir metri að stærð. Örnefni minna á búsetu útilegumanna í gegnum tíðina.
Svæðið er verndað samkvæmt samþykkt um votlendi sem hefur alþjóðlegt gildi, einkum fyrir fuglalíf (Ramsar). Á tímabilinu 1. maí til 10. júní er umferð um varplönd heiðargæsar bönnuð.
Þjórsárver er víðáttumikil gróðurvin á miðhálendi Íslands, um 140 ferkílómetrar að flatarmáli. Verin eru að mestu leyti vestan Þjórsár sunnan Hofsjökuls og eru í um 600 metra hæð yfir sjávarmáli. Meginhluti Þjórsárvera og aðliggjandi svæði (alls 583,9 km2) voru friðlýst árið 1981 og svæðið tekið á Ramsarskrána árið 1990 sem alþjóðlega mikilvægt votlendi, einkum vegna auðugs fuglalífs.
Gróin svæði í Þjórsárverum hafa endinguna -ver, svo sem Tjarnaver, Oddkelsver og Þúfuver. Orðið ver getur merkt tvennt, annars vegar mýri eða flói, og sú merking er viðtekin nú í huga fólks, en hins vegar, og það sem er nær lagi í þessu tilviki, getur það vísað til staðar þar sem menn veiddu dýr eða söfnuðu eggjum. Þessu til sönnunar má nefna íslenska orðið verbúðir, sem er haft um dvalarstaði sjómanna, og í norsku þekkjast orðin eggvær og dunvær, sem á íslensku verða eggver og dúnver: staðir þar sem stunduð var eggjataka eða dúntekja. Þjórsárver eru ein víðáttumesta og afskekktasta gróðurvin á hálendi Íslands. Sérstaða þeirra og tilvist er fyrst og fremst afrakstur af samspili jökla, vatns, jarðvegs, veðurfars, gróðurfars og dýralífs. Þjórsárver eru hluti mikilfenglegrar náttúru og landslagsheildar sem er að mestu leyti ósnortin.
Umhverfisráðuneytið birti fréttatilkynningu eftir að grein NY Times birtist og má lesa hana hér.
Ljósmynd er skjáskot af vef NY TIMES og auðkennd þar svo: „The rugged scenery in Iceland’s Highlands. Dirk Bleyer/Imagebroker, via Newscom“