Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Bækur í skammdeginu

$
0
0

Nú eru jólin búin, allir búnir að borða nægju sína af söltuðu kjöti og smá konfekti með. Þegar hátíðinni er lokið þá fer janúar yfirleitt í það að koma sér aftur í gírinn. Líkamsræktarstöðvarnar fyllast af fólki að sprikla af sér jólaspikið. Útsölur úti um allt og jólaskrautið fer niður í kassa.

Margir tala um að janúar sé svo dimmur , kaldur og erfiður. Mér finnst janúar æðislegur, gæti tengst því að ég á afmæli í janúar . Gæti líka haft eitthvað með það að gera að ég elska skipulag og rútínu og janúar er einmitt mánuður sem slíkt kemst aftur í lag.  Allt komið í nokkuð eðlilegt horf og þó svo að það sé kalt úti og það dimmi fyrir kvöldmat þá þurfum við ekkert að örvænta.

Janúar fer nefnilega oftar en ekki mikið í lestur á mínum bæ, þá er virkilega hægt að skoða það sem maður las ekki á síðasta ári og henda sér ofan í góðar bækur, og ekki skemmir að útsölur eru hafnar svo maður fær þetta allt saman á hálfvirði.

Hér eru nokkrar bækur sem ég get einlæglega mælt með í skammdeginu. Nú og ef þú vilt hreyfa þig og lesa í leiðinni þá er hægt að fá hljóðbækur líka sem þú getur bara smellt inn í símann þinn eða Ipodinn og tekið með í ræktina.

12695_10201791618865423_1122174898_n

 

Tímakistan

Þó það sé enn þá bara janúar þá er þetta nú samt orðin uppáhaldsbókin mín þetta árið.

Hér er á ferðinni ævintýrabók fyrir öll heimili. Bók sem kennir manni að meta tímann. Þegar bókin byrjar er jörðin í ruglinu, allir eru lokaðir inni í kössum nema ein gömul kona. Hún hleypir út börnum og segir þeim söguna af því hvernig kisturnar urðu til.  Söguna af því þegar Dímon konungur kynntist ástinni sinni og missti hana þegar hún eignaðist barnið þeirra. Dímon vill  sigra heiminn fyrir Hrafntinnu dóttur sína og vera viss um að hún fái eingöngu það besta og mesta. Hann sendir fólk í gin ljónanna ef það er ekki samboðið prinsessunni og fer í stríð til að sigra heiminn. En áður en hann fer í stríðið þá leitar hann að lausn til að gera prinsessuna eilífa og dvergarnir gefa honum Tímakistuna, tímakistuna sem lokar tímann úti.

Dímon setur prinsessuna í kistuna og á meðan stöðvast tíminn hjá henni. Hann leyfir engum að opna fyrir henni nema það sé fullkomin tími, sem eðlilega kemur sjaldan. Það er erfitt að segja ekki alla söguna í heild sinni því maður dettur inn í ævintýrið aftur við það að rifja það upp hér. Bókin er með ótrúlega flottan boðskap og kenndi mér heilmargt. Ég dáist að ímyndunarafli höfundar og hvernig honum tekst að leiða mann með sér inn í þennan heim tímans.

Ég hvet þig eindregið, kæri lesandi, að verða þér úti um þessa bók og lesa hana, eftir lesturinn að spyrja þig svo að þessari spurningu … myndi ég kaupa svona tímakistu ef hún væri í boði? Og ef þú átt barn/börn þá er þetta klárlega saga sem ég myndi lesa fyrir börnin.

Það er auðvelt að gleyma skammdeginu með svona bók við höndina.

123

 

Blóð hraustra manna

Bókin byrjar á því að Gunnar ætlar að hefna sín á mönnum sem fóru illa með hann en það endar ekki betur en svo að hann fer fyrir vikið í fangelsi. Hannes er nýbúinn að fá starf sem yfirmaður innra eftirlits hjá lögreglunni og er að leita að „hvíslara“ úr röðum lögreglunnar sem er greinilega að leka upplýsingum í dópheima. Erfitt er að gefa upp nákvæmlega um hvað bókin er en þetta er spennusaga sem dregur mann inn frá fyrstu blaðsíðu og heldur manni alveg fram í blálokin. Hörkuflottur þriller hér á ferð.

Lygi-175x262

 

Lygi

Í þessari bók eru nokkrar sögur, ég hef ótrúlega gaman af þannig bókum þegar þær eru vel heppnaðar og þessi er það sannarlega hjá henni Yrsu. Fjölskylda kemur heim úr ferðalagi og fólkið sem var með íbúðina þeirra meðan á ferðinni stóð hefur gengið afskaplega illa um. Fólkið virðist bara hafa gufað upp og ekkert hægt að ná í það. Á meðan annars staðar er fólk fast upp á Þrídrangavita og enn annars staðar er lögreglukona að snuðra um gömul mál sem gætu tengst tilraun kærasta hennar til að binda enda á líf sitt. Allar þessar sögur fléttast ótrúlega flott saman og gera í heildina glæsilega spennusögu með smávegis draugalegu ívafi.

sonnettugeigur

 

Sonnettugeigur

Síðast en alls ekki síst langar mig að benda fólki á þessa litlu sætu ljóðabók eftir hann Valdimar Tómasson um lífið og dauðann.  Ég var mjög forvitin um innihaldið svo ég ákvað að lesa eitt ljóð en festist í lestrinum og kláraði bókina. Þetta er einstaklega falleg lítil bók og svo sannarlega gott dæmi um þegar kemur að bókum þá er þetta spurning um gæði – ekki magn. Dásamleg lítil ljóðabók sem hlýjaði mér um hjartarætur í kuldanum.

Ef skammdegið og frostið er að fara með ykkur þá er bara um að gera að skella sér djúpt ofan í góða bók, ferðast um heima og geima án þess að þurfa að fara í snjógallann og skafa af bílnum.

Góðan lestur.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283