Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Dyggðirnar og aginn

$
0
0

Rétt eina ferðina er þjóðin hlaupin af hjörunum vegna mælinga sem benda til þess að
við berum ekki höfuð og herðar yfir alla menn. Það er óbærileg tilhugsun.

Einstaka maður leyfir sér að huga að mælitækinu. Er það örugglega loftvog en ekki
klukka? Eða hitamælir? Eða jafnvel hraðamælir? Er vit í vísindunum? Það eru ágætar
spurningar.

Viðbrögðin eru á ýmsa vegu: Einn heimtar meiri peninga í skólastarfið, annar mælir
með styttingu skólans, sá þriðji sakar kennara um klandrið, sá fjórði krefst
harðari aga. Fæstir leggja til að þolendur skólastarfsins séu spurðir ráða.
Nemendur eru einungis hráefni sem rennibekkir okkar og námsmeinatæknar
eiga að breyta í nytjahluti af ýmsu tagi. Hið arðbæra líf hefst þegar skólagöngu er lokið,ekki fyrr.

Fyrstu áratugirnir í lífi mannsins eru einungis undirbúningur – gráupplagðir til að venjast því að sitja kyrr, hlýða og þegja.

Mig langar til að ræða örlítið um aga. Ég er nefnilega mjög andsnúinn aga, í þeirri mynd sem talsmenn hans virðast telja eftirsóknarverðan og lofsverðan. Aga sem leggur áherslu á hlýðni og undirgefni við fyrirmæli og skipanir. Ég er talmaður óþægðar og uppreisnar gegn kjánalegu regluveldi. Ég er á móti hræðslugæðum og hræsni og gef ekki baun fyrir námsárangur sem knúinn er fram með slíkum aðferðum, jafnvel ekki þótt hann skili fáeinum tröppum uppávið í skakka turninum frá PISA.

Ég varð einu sinni þeirrar gæfu aðnjótandi að heimsækja landsfrægan úrvalsskóla sem var talinn rækta dyggðirnar af meiri ákefð en aðrar sambærilegar stofnanir.

Dagurinn hófst á sal. Þangað streymdu nemendur í skipulögðum röðum undir glæsilegum aga bekkjarkennara, settust á gólfið á skipulagðan og afar dyggðugan hátt og þögðu eins og málleysingjahæli. Fundurinn hófst með skörulegum fyrirlestri skólastjórnanda um dyggð mánaðarins, sem ég hef því miður steingleymt hver var, en hún var einstaklega göfug. Á eftir komu fulltrúar bekkja og lýstu niðurstöðum hópa um kosti sömu dyggðar fram yfir ódyggðugt líferni. Að lokum fóru allir með dyggðaeiðinn í kór, svo hátt og snjallt að undir tók í fjöllunum. Þetta var allt mjög hrífandi og þegar fundi var lokið stóðu dyggðugir nemendur upp með dyggðugum hætti og marseruðu í kennslustund í ákaflega dyggðugum röðum.

Mér fannst ég vera kominn til Norður- Kóreu og óbeit mín á utanáliggjandi dyggðum varð endanlega takmarkalaus. Þurfti að reykja tvo vindla í beit til að róa taugarnar eftir þessi ósköp.

Nokkru síðar hitti ég kennara við skólann fyrir tilviljun og einnig foreldra. Þeir voru engu hrifnari af þessum fígúrugangi en undirritaður. Þeir lýstu eðlilegri þörf nemenda til að gera til bölvunar um leið og enginn sá til. Þörfinni til að brjóta gegn rangsnúnum aga, en Benedikt af Spinoza mun telja að slík þörf blundi í brjósti hvers frjálsborins manns. Dyggðakennslan virtist hafa snúist uppí kennslu í leiknum köttur og mús, kennslu í því að sleppa billega frá kattarófétinu.

Annar vitur karl, grískur, lét eftir sig fáeina sundurlausa minnispunkta. Einn þeirra segir eitthvað á þá leið að menn eigi að breyta rétt, ekki vegna ytri aga eða ótta við refsingar, heldur vegna þess að önnur breytni er ósamboðin mennsku þeirra og siðviti.

Ég er sammála gamla Grikkjanum og fullyrði að skólar geta hagað störfum sínum með þeim hætti að öll börn eflist að siðviti og rækti með sér þá sjálfsvirðingu er leiðir þau til góðra verka, í lífi og námi. Ég bið um slíka skóla, jafnvel þótt það kosti fall um nokkrar tröppur í skakka turninum frá PISA.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283