Pálína Jónsdóttir skrifar:
Það var mikill fagnaðarfundur þegar Senjóríturnar mættu á fyrstu kóræfingu á nýju ári. Vináttan, hlýjan og gleðin ríkti í hópnum og var hreinasta heilsubót.
Það eru ótrúlega margir kórar starfandi á landinu, en ekki geta allir eða kæra sig um að vera í kór.
En það er líka margt annað skemmtilegt og áhugavert í boði. Í flestum hverfum eru starfandi félagsmiðstöðvar og bjóða upp á margvísleg viðfangsefni. Þar er hægt að spila á spil og tefla, þar eru leshópar, söngur, dans og svo auðvitað föndur og handavinna af ýmsu tagi. Blöðin liggja frammi og þar eru áreiðanlega einhverjir, sem eru til í að ræða innihald þeirra yfir kaffibolla.
Og ekki má gleyma sundstöðunum. Við búum við þann lúxus að eiga frábærar sundlaugar og þær eru sem betur fer mikið notaðar. Bæði er sund holl og góð líkamsrækt og svo myndast fljótt kunningjahópar sem gaman er að spjalla við. Samvera í heitu pottunum verður að föstum lið þar sem þjóðmálin eru rædd af kappi og miklum áhuga. Já, það er margt sem hægt er að gera sér til ánægju og fækka þar með einverustundunum.
En svo eru sjálfsagt ýmsir – þó ég þekki engan slíkan – sem helst vill vera einn í friði með sjálfum sér. Lesa eða dunda sér við einhver áhugamál. En væri nú samt ekki gaman að hafa einhvern til spjalla um þau við. Hrista upp í heilasellunum með því að fá nýtt sjónarhorn á málið, hugleiðingar eða spurningar frá öðrum?
Það er ástæðulaust að láta heilabúið „ryðga“ meðan maður enn er þó á lífi. Þótt líkaminn stirðni með árunum er engin ástæða til að láta heilastarfsemina staðna. Og ég trúi því að besta ráðið til þess að halda henni vakandi sé að hitta fólk og deila með því áhugamálum og geði. Því maður er manns gaman.
Pálína Jónsdóttir er fædd árið 1924. Kennari frá Kennaraskóla Íslands og BA í dönsku og þýsku frá HÍ. Virk í ýmsum samtökum, t.d. alþjóðafélagi kvenna í fræðslustörfum og í kór kvenna 60 ára plús sem kalla sig Senjórítur.
Fyrsta pistil Pálínu Maður er manns gaman #1 má finna hér!