Ég veit að þetta hljómar ekki endilega vel í huga allra. Avókadó-súkkulaðikökur. Já, ég játa. Ef ég hefði lesið þessa fyrirsögn fyrir ári síðan hefði ég hugsað; hvaða hryllingur er þetta? og hrist hausinn. En ég lofa, þær eru þess virði að prófa. Það er ekki langt síðan ég fór að borða avókadó. Fyrst gat ég bara borðað það í sushi-rúllum. Svo bættist guacamole við og ég er alltaf að reyna að finna nýjar leiðir til að koma avókadó í mataræðið. Það eru margar góðar uppskriftir af heilsusamlegum avókadó-súkkulaðibúðingum svo af hverju ekki að setja það í smákökur?
Kökurnar líta út fyrir að vera brenndar, ég veit. Kökurnar sjálfar eru mjög dökkar og svo kemur þessi ljósi litur úr ljósa súkkulaðinu sem ég notaði. Þetta eru kökur fyrir þá sem vilja dökkt súkkulaði. Þær hafa ríkt súkkulaðibragð og eru kannski ekki allra.
Avókadó er frábær uppspretta af hollri fitu og trefjum og inniheldur mjög lítið af ávaxtasykri, eða aðeins 1 g í 100 g og hefur því ekki áhrif á blóðsykurinn.
Einnig er avókadó ríkt af K,-B,-C- og E-vítamíni.
Avókadó er frábær staðgengill fyrir smjör í bakstri. Gefur mjúka áferð, bragðlaus og auka vítamín-boost í baksturinn.
Avókadó-súkkulaðikökur:
-80-100 g avókadó
-50 g sukrin gold (þú getur notað púðursykur ef þú ert ekki að forðast sykur)
-1 egg
-50 g sykurlaust súkkulaði, var með ljóst súkkulaði (má sleppa súkkulaðinu)
-30 g ósykrað kakó
-6 dropar bragðlaus stevía (má sleppa)
-1/2 tsk. vanilludropar
-1/2 tsk. matarsódi
Setjið hráefnin (ekki súkkulaðið) í blandara og blandið vel saman. Saxið súkkulaðið og bætið við deigið. Ef þú átt ekki blandara geturðu maukað avókadóið niður með gaffli og þeytt svo saman við hráefnin.
Notið tvær skeiðar til að færa deigið yfir á bökunarpappír. Ég fékk um 10 stk. úr deiginu.
Bakið á 175 °C í 8–10 mínútur.
Látið kökurnar alveg kólna áður en þið fjarlægið af bökunarpappírnum og geymið í kæli. Þær eru langbestar kaldar