Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Engin mjólk í dag – Dagur í lífi atvinnusjúklings

$
0
0

 

Ég vaknaði í morgun við vekjaraklukku mannsins míns og ýtti við honum og stelpunni svo þau kæmust af stað til að skutla henni í skólann. Hann skutlaði til mín morgunlyfjunum vegna þess að ég er í miðju veikindakasti og ekki mögulegt fyrir mig að komast fram úr snemma á morgnana. Það tekur mig svo um það bil þrjá klukkutíma flesta daga að jafna mig á áhrifunum sem morgunlyfin kalla yfir mig en í dag var verri dagur svo ég komst ekki af stað fyrr en klukkan þrjú.

Mér snarbregður, bara klukkutími eftir af opnunartíma Fjölskylduhjálpar. Dreg mig á fætur og keyri í loftköstum upp í Breiðholt.

Miðvikudagar eru matarúthlutunardagar hjá Fjölskylduhjálp og Mæðrastyrksnefnd en Mæðró er bara með fataúthlutun fyrsta miðvikudag í mánuði þannig að ef ég ætla að ná í mat er það Fjölskylduhjálpin í dag. Kem að húsinu korter í fjögur og sé strax að það er ekki allt með felldu, ekki sála fyrir utan.

Kíki samt inn til að athuga málið. Það er farið að vanta margt á heimilið og þessi mánuður er harður. Þegar inn er komið sé ég að biðröðin er ekki inni heldur og starfsmennirnir í hálfrökkri að vinna með pappíra og annað.

„Er engin úthlutun?“ spyr ég þótt það sé augljóst. Nei, það er verið að vinna eitthvað annað núna. „Er þá engin úthlutun neins staðar?“

Það má reyna að sjá hvort þau viti eitthvað en þau vita ekki um neitt. Fer og settist út í bíl. Tárin stelast aðeins fram.

Þessi mánuður er erfiður, maðurinn minn var að færast af sjúkradagpeningum yfir á atvinnuleysisbætur og það seinkaði einhverju einhvers staðar þannig að hann fær ekki borgað fyrr en fimmtánda. Ég var eiginlega búin að treysta á að fá úthlutun í dag, á bara tólf þúsund eftir og peningarnir hans fara örugglega allir í reikninga. Hann lenti í slysi þarsíðasta sumar og hefur verið í endurhæfingu síðastliðið ár og er bara að byrja að sækja um vinnu núna.

Vonandi fær hann vinnu sem allra fyrst svo við getum byrjað að leysa úr uppsöfnuðu peningarústinni sem safnast hefur síðasta ár. Það er nógu erfitt að borga reikninga með einn öryrkja á heimilinu þótt ekki bætist við skerðing á hans tekjum. Sem öryrki þarf ég að treysta á fyrirvinnu.

Það vantar túrtappa þannig að ég fer í apótek. Fimmtán hundruð krónur þar. Hringi svo í manninn minn og bið hann um að senda mér sms með því sem þarf nauðsynlega að kaupa. Stefnan er tekin á næstu lágvöruverðsverslun.

Sms-ið kemur: Skinku, mjólk, tómata, banana, ost, smjörva, engjaþykkni og eitthvað kex fyrir snarl. Mér bregður örlítið við að sjá ostinn á listanum. Ostur er eitt af þessu sem kostar alltaf slatta. En það verður víst að kaupa ost stundum. Rölti um búðina og tíni í körfuna, bæti við kotasælu, perum og ákveð að leyfa mér einn dekurdrykk, strax farin að finna fyrir líkamanum og er að reyna að kvíða ekki verðinu á kassanum of mikið. Þetta eru engin ósköp, getur bara ekki verið.

Samtalan á kassanum er rúmlega fjögur þúsund, og ég fæ sting við að heyra það. Bið um strimilinn og sest út í bíl til að fara yfir hann, aftur með tárin í augunum. Osturinn 739 kr., ekkert óvænt þar, en kotasælan og smjörvinn kosta bæði vel rúmlega fjögur hundruð krónur.

Getur þetta staðist? hugsa ég og man þá eftir virðisaukabreytingunni. Og drykkurinn sem kostaði um 300 kr. síðast þegar ég keypti hann er líka rúmlega 400 kr. Fæ stingandi samviskubit.

Hugsa um það í smá stund hvort ég eigi að fara inn og skila kotasælunni, ostinum og drykknum. Mig verkjar svo mikið að ég ákveð að bíta bara í það súra í þetta sinn og svo væri það líka eitthvað svo niðurlægjandi að fara að skila inni í fullri búð.

Á leiðinni heim hækka ég í útvarpinu til að bægja frá óþægindahugsunum. Samt koma þær. Áhyggjur af því hvernig ég eigi að láta hlutina ganga. Ég er búin að fá vilyrði frá tannlækni sem ég þekki að fá að borga seinna, þarf að biðja annan lækni um það sama í vikunni.

Ég er búin að fresta þessum tveim læknum það lengi að ég er orðin of veik til að geta sleppt þeim þótt ég hafi ekki efni á heimsóknunum. Það var samt ekki neitt smá erfitt að hringja og betla hjá vinnandi fólki.

Þegar ég kem heim með innkaupin sér maðurinn minn strax á mér að ekki er allt með felldu. Ég segi honum frá hvað kom mér í uppnám og hann tekur utan um mig og reynir að sannfæra mig um að þetta leysist allt og segir mér að vera ekki að hafa áhyggjur af þessum drykk.

Dóttir mín reynir að ná athygli minni en ég er of örg til að geta sinnt henni. Hún sér vel að það er eitthvað að. Mér þykir alltaf jafn erfitt þegar það gerist. Mig langar ekki að hún þurfi að dragast inn í fullorðinsvandamálin strax. Verkirnir aukast og ég bið manninn minn að sækja verkjalyf. Ég veit samt að þau slá bara örlítið á, þetta er einn af þeim dögum.

Þegar verkirnir taka svona yfirhöndina er ég léleg móðir, félagsskapur og eiginkona og þá gagnast þrír hlutir allra mest; að leggjast upp í rúm, sundferð eða að fara út af heimilinu og koma mér fyrir með eitthvað í eyrunum og skrifa frá mér óþægindin.

Ég get ekki farið fylgdarlaus í sund og er búin að sofa of mikið svo það er einn valmöguleiki eftir. Maðurinn minn stingur upp á að ég setjist á uppáhaldskaffihúsið mitt, Babalú. „Ertu eitthvað bilaður? Það kostar minnst fjögur hundruð krónur!“ Maður þarf jú að borga fyrir þjónustuna og ekki í boði að sitja á kaffihúsi án þess að vera viðskiptavinur. Ég segi honum að ég fari bara á bókasafn eða eitthvað.

En hann heimtar. „Þú þarft að sinna andlegu hliðinni. Kaffihúsaferð hleður þig andlega, bókasafnið er líka að loka.“ Og ég er brotin svo ég fer. Hvort eð er á hausnum. Fer að kassanum á Babalú og sé að te er ódýrast. Vel það og klöngrast svo verkjuð upp stigann. Svo kósí uppi.

Sest niður og ætla að byrja að skrifa en þá er tölvan með eitthvert vesen. Búin að borga teið og get svo ekki einu sinni skrifað. Samviskubitið hellist yfir mig aftur. Reyni að halda andlitinu. Spurning að reyna að skrifa á símann þótt gigtin sé slæm. Fimm mínútum seinna deyr batteríið í honum. Æi, reyni bara að slaka á allavega og lesa og fara svo heim að skrifa þegar hausinn er betri. Finn bók í hillunni.

Á næsta borði er fjölskylda, miðaldra foreldrar og tvær stúlkur milli tvítugs og þrítugs. Þau eru að tala um að skella sér í skíðaferð næsta ár, leigja hús, önnur stelpan þarf kannski að spara, hin tala eins og ekkert sé sjálfsagðara. Reyni að hlusta ekki. Öfunda þau af áhyggjuleysinu. Gefst upp og fer heim. Finnst ég hafa klúðrað öllu. Allavega átta hundruð krónur sem ég hefði getað sparað í dag. Verð svo reið yfir því að nokkur hundruð krónur láti mér líða svona.

Í bílnum hljómar lagið „No milk today“ og ég keyri með tárin í augunum heim.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283