Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Lögreglan mátti alltaf vopnast rafbyssum

$
0
0

Þær fagnaðarfréttir bárust í gær að reglur um valdbeitingu lögreglumanna og meðferð og notkun vopna og valdbeitingartækja hefðu verið birtar almenningi á vef innanríkisráðuneytisins.  Við lestur reglnanna verður kona nú hálf bit yfir að þær skuli hafa verið ríkisleyndarmál fram að þessu. Auðvitað eru þessar reglur bara toppurinn á ísjakanum. Við lestur þeirra kemur skýrt fram að útfærsla þeirra og nánari verklagsreglur eru í höndum ríkislögreglutjóra.  Þær reglur fáum við ekki að sjá.

Samkvæmt opinberu reglunum ákveður ríkislögreglustjóri hvers konar vopnum lögreglan vopnast og í hvaða mæli. Það vekur athygli mína að ríkislögreglustjóri hefur heimild til þess að vopna lögreglumenn með rafbyssum. Honum er líka heimilt að láta sérþjálfa hunda til að ráðast á menn. Í raun virðast engar hömlur vera á því hvers konar vopnum lögreglan má búast og litlar sem engar takmarkanir á því í hvaða kringumstæðum þeim er heimilt að bera þau.

Ljóst er að almenna reglan er sú að lögreglumenn skuli vera óvopnaðir í störfum sínum en þó kemur skýrt fram að ríkislögreglustjóri geti tekið þá ákvörðun að hafa skuli vopn í lögreglubílum að jafnaði, en ein helsta ástæða þess að hér varð allt vitlaust þegar í ljós kom að lögreglan væri að flytja inn fleiri hundruð hríðskotabyssur var einmitt sú að almenningur trúði því ekki að lögreglan hefði heimild til að gera það (aðrar mikilvægar ástæður voru leyndin sem hvílt hafði yfir innflutningnum og sú staðreynd að tollurinn  var ekki látinn vita af þessari „gjöf Norðmanna“). En nú  er sem sagt ljóst að lögreglan ræður því alveg sjálf hvenær og hvernig hún vopnast og hefur ýmsar heimildir aðrar sem undirritaðri og væntanlega flestum sem eru fyrst að berja þessar reglur augum núna var ekki ljóst fram að þessu, s.s eins og  til að vopnast rafbyssum og að nota árásarhunda í störfum sínum.

Ekkert um ábyrgð og viðurlög

Reglurnar sjálfar eru óljóst orðaðar og veita talsvert svigrúm til túlkunar. Þar kemur ekki fram hver er ábyrgur fyrir því að meta hvort farið hafi verið eftir umræddum reglum né hver viðurlögin eru við því að brjóta þær. Þannig vitum við ekki hvernig lögreglan hefur eftirlit með því að þessum reglum sé fylgt. Enda vantar ennþá heilmikið upp á til að hægt sé að segja að lögreglan sé gagnsæ stofnun sem upplýsi almenning um valdsvið sitt og hvað geti talist brot í starfi þar á bæ og hvernig á því er tekið. Og enn er ekkert sjálfstætt ytra eftirlit með störfum lögreglu.

Nú spyr ég mig til dæmis hver viðurlögin voru fyrir þá lögreglumenn sem handtóku flóttamannin Chaplas Menka, að því er virðist án heimildar og særðu hann síðan alvarlega á fæti þannig að sauma þurfti  13 spor til að loka sárinu og kálfavöðvinn á honum rifnaði.  Chaplas fékk fjögur stungusár í fótinn þegar lögreglan reyndi að leysa af honum plastbensli sem hún hafði notað til þess að binda fætur hans með því að skera á þau með hníf, en í athugasemd við 5. grein reglnanna kemur fram að við notkun fótbensla þurfi að vera tiltæk „töng, klippur eða annað áhald til að unnt sé að fjarlægja þau.“ Flokkast hnífur virkilega sem annað áhald til að fjarlægja bensli í skilningi reglnanna?

Réttarstaða almennings styrkist

Nú þegar reglurnar hafa verið birtar styrkist réttarstaða almennra borgara gegn lögreglunni þar sem þeir geta betur áttað sig á hvenær hún hefur farið út fyrir valdsvið sitt. Hingað til virðist fólk hafa þurft að kæra lögregluna blindandi fyrir brot í starfi þar sem ómögulegt var að vita hvaða reglum lögreglunni bar að fara eftir í valdbeitingu sinni. Þó vantar enn ýmislegt upp á til að skýra myndina enn betur.

Enn er margt á huldu um Hraunbæjarmálið

Þannig eru þessar reglur ekki verklagsreglur þær sem lögreglan á að hafa fylgt út í ystu æsar í Hraunbæjarmálinu svokallaða, en þær nefnast ‚verklagsreglur um starfsemi sérsveitar RSL og viðbúnað og viðbrögð við ógnun með vopnum, gíslatöku, hryðju- og skemmdarverka‘.  Við vitum því ekki enn hvort það samrýmist þeim verklagsreglum að hafa ekki vitað um hvers íbúð þeir sátu í Hraunbænum í þeim aðgerðum er drógu Sævar Rafn Jónasson til dauða. Í birtum relgum er þó eitt áhugavert atriði að finna í þessu samhengi, en það er athugasemd sem gerð er við 10. grein reglnanna sem hljóðar svo:

„Almennt er ætlast til þess að beita úðavopni gegn manni innanhúss. Þó er unnt að beita efninu utanhúss en þá þarf að huga að vindátt. Reynt skal að sprauta á neðri hluta andlits. Það tekur efnið frá 1 – 30 sekúndur að hafa áhrif. Varað er við því að ekki er öruggt að efnið hafi tilætluð áhrif á einstakling sem er undir miklum áhrifum vímuefna eða er alvarlega geðtruflaður.“

Hér er skýrt tekið fram að gasvopn hafi ekki endilega tilætluð áhrif á einstakling sem er alvarlega geðtruflaður einsog vitað er að Sævar var þegar hann lést. Þó segir í greinargerð ríkissaksóknara um Hraunbæjarmálið að reyndir sérsveitarmenn hafi ekki hugmynd um af hverju gasið hafði ekki tilætluð áhrif á Sævar, þ.e.a.s. að yfirbuga hann og fá hann út úr íbúðinni sinni. Kona spyr sig hvort þessir sérsveitarmenn hafi þá kynnt sér þessar reglur í þaula fyrst þetta er tekið fram þar, og hvort ríkissaksóknari hafi kynnt sér þær ef því er að skipta?

Enginn munur á glæpamönnum og geðsjúkum

Annað sem vekur upp spurningar hjá undirritaðri er að engin greinarmunur virðist gerður á manni sem ógnar lífi annarra vegna alvarlegs geðsjúkdóms eða manni sem gerir það í glæpsamlegum tilgangi. Ekkert ákvæði er um að lögreglan skuli leita ráða hjá sérfræðingum þegar um geðveika menn er að ræða eða að lögreglumenn skuli hljóta sérstaka þjálfun í að takast á við geðveika sem ógna heilsu og öryggi sjálfs síns eða annarra með hegðun sinni. Í reglunum stendur einungis:

„Við notkun skotvopns verður að gæta þess, eftir því sem kostur er, að lífi eða heilsu óviðkomandi manna sé ekki stofnað í hættu(innsk. höfundar: man einhver eftir lásasmiðnum?). Ef hætta er á því, þarf ástand að vera orðið mjög alvarlegt, ef nota á skotvopn. Ef t.d. stórhættulegur afbrotamaður eða geðsjúkur maður notar sjálfur eða er í þann mund að nota skotvopn eða annað lífshættulegt vopn, getur verið réttlætanlegt að lögreglumaðurinn noti sjálfur skotvopn, þó að það geti stofnað öðrum mönnum í hættu. Þeim mönnum getur verið stofnað í enn meiri hættu, ef afbrotamaðurinn eða geðsjúklingurinn er ekki stöðvaður.“

Lítið er um tilvísanir

Þá vantar inn í reglurnar allar tilvísanir í almennar stjórnsýslureglur sem koma málinu við. Þannig er hvergi vísað í rannsóknarreglu opinberra starfsmanna, þ.e. að lögreglumönnum beri að rannsaka mál til hlítar áður en tekin er ákvörðun sem hefur íþyngjandi afleiðingar í för með sér fyrir borgarana (eins og í Hraunbænum; að rannsaka hver sá maður var sem setið var um áður en ráðist var á hann). Þá vantar tilvísun í meðalhófsregluna svo fátt eitt sé nefnt. Engu orði er vikið að því að reyna skuli eftir fremsta megni að varðveita líf þess sem ógnar öryggi annarra, þrátt fyrir að dómasaga Mannréttindadómstóls Evrópu segi til um það.

Niðurstaða mín eftir að hafa lesið þessar reglur er sú að það er algjörlega óskiljanlegt og jafnvel óafsakanlegt að þær hafi verið leyndarmál fram að þessu og að betur má ef duga skal í þessum málum. Almenningur hefur nú loks haldbær vopn í höndum sér telji hann lögregluna hafa brotið á sér með valdbeitingu. Eftir stendur að almenningur hefur ekki hugmynd um aðrar starfsreglur lögreglu. Í þessum reglum er til dæmis ekkert að finna um hvenær megi og hvernig eigi að framkvæma hús- og líkamsleitir, þær reglur eru eftir sem áður, af óútskýrðum ástæðum, leyndarmál.

 


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283