Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Hin íslenska spilling

$
0
0

Við höfum áður orðið vör við umræðu um frænd- og vinagarð Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins t.d. í kringum Vafningsmálið og nú síðast vegna sölu Landsbankans á Borgun.

Sú umræða hefur sprottið aftur upp í þessari viku vegna tveggja mála þar sem annarsvegar einn samkeppnisaðili Kynnisferða sem er í eigu fjölskyldu Bjarna Benediktssonar segir það hreint út að skattaundanþágur hafi verið sérsniðnar að því fyrirtæki vegna frændhygli og svo stóra skattsvikamálið þar sem fjármálaráðherra virðist standa beinlínis í vegi fyrir því að hægt sé að komast yfir upplýsingar um eignir Íslendinga í skattsvikaskjólum.

Eignir sem flestir eru á því að tilheyri mjög líklega frænd- og vinagarði Bjarna Ben og hinum innsta kjarna Sjálfstæðisflokksins sem segir svo við okkur hin að það þurfi að spara í ríkisrekstri vegna ónógra skatttekna og einkavæða eignir ríkisins til þeirra sem svíkja undan skatti og koma því fyrir í skattsvikaraskjólum.

Nú er svo sem líklegt að það heyrist mótbárur um að það sé nú ekkert hæft í þessu en á móti verður maður að velta því fyrir sér af hverju flestum finnst það mjög líklegt og verulega trúlegt að frænd- og vinahygli tengist þessum málum.

Svarið við því er frekar einfalt.

Svoleiðis hafa kaupin gerst á eyrinni hjá Sjálfstæðisflokknum í gegnum tíðina þegar hann er við völd.

Við höfum fjölmörg ný og gömul dæmi um þetta.

Við höfum horft upp á skipanir á dómurum samkvæmt vináttu, ætterni og flokkskírteinum þar sem grafið er um leið undan réttarríkinu.

Við höfum horft upp á fjöldann allan af ættmenna-, vina- og flokksmannaráðningum á óhæfu fólki þar sem gengið er framhjá hæfasta fólkinu í nafni flokksins sem prédikar að ráða eigi hæfustu einstaklinganna í stöður óháð skoðunum, ætterni eða skírteinum.

Við höfum horft upp á einkavinavæðingar banka til góðra flokksmanna, séð ríkisfyrirtæki færast til frænda og vina og horft á baktjaldamakk um að koma orkufyrirtækjum í hendur viðskiptajöfra sem greiddu tugmilljón króna „styrki“ til flokksins og flokksþingmanna.

Við höfum horft upp á að reynt hefur verið að hafa áhrif á eða eyðileggja rannsóknir á flokksfólki, vinum og vandamönnum innan flokksins hvort sem það var olíusamráð, samkeppnismál, einkavæðing bankanna eða lekamálið.

Við höfum horft upp á þingmenn, borgar- og bæjarfulltrúa og fleiri stjórnmálamenn misnota sér aðstöðuna í þágu vina, vandamanna og styrkveitenda þar sem hagsmunum í þágu allra er fórnað til auð- og valdsöfnuninnar hinna fáu.

Við höfum horft upp á heilt samfélag rotna að innan vegna hinnar íslensku spillingar sem fyrirfinnst fyrst og fremst í frænd- og vinahygli með þeim afleiðingum að fólk virðist alltaf geta trúað því versta þegar kemur að stjórnvaldsákvörðunum og eiginlega treyst á það að slíkt sé í spilunum þegar það kemur að því að einhver sé að maka krókinn í nafni vinarins, ættarinnar og flokksins sem kennir sig við sjálfstæði.

Það er því fullkomlega eðlilegt og skiljanlegt í ljósi hinnar íslensku spillingar að þessi umræða komi upp um frænd- og vinagarð Bjarna Benediktssonar, formann flokksins sem hefur staðið hvað mest í þessu þó vissulega séu aðrir ekki heldur saklausir.

Enda er þetta mein búið að eitra allt traust manna á milli án þess að þeir sem bera ábyrgð hafi þurft að axla ábyrgð spillingar sinnar að ráði.

Sum okkar hafa m.a.s. viðhaldið þessu meini með því að verðlauna hinna spilltu með atkvæði sínu í stað þess að sýna í verki að þeim er ekki sama.

Það er vægast sagt mikil þörf á því að það taki einhver af skarið og byrji að skera burt þetta mein.

Til dæmis gæti nú Bjarni Ben gert það sjálfur með því að segja sig frá allri ákvörðunartöku sem gæti haft áhrif á auð- og valdasöfnun ættingja og vina hans í viðskiptalífinu.

Hann gæti svo líka ákveðið að kaupa gögnin um eignir Íslendinga í skattsvikaraskjólum og fá þau heim án þess að þjóðin þurfi að standa fyrir söfnun í sjónvarpssal undir formerkjunum Skattinn heim með tilheyrandi tónlistar- og skemmtiatriðum svo hægt sé að endurheimta fé frá nokkrum af harðsvíruðustu glæpamönnum landsins úr viðskiptalífinu.

Þess til viðbótar er þetta líka farsælasta útgönguleiðin fyrir hann ef hann vill byrja að eyða þeim stimpli frænd- og vinahygli sem yfir honum hvílir.

Jafnvel þó það geti valdið honum einhverjum leiðindum í fjölskyldu- og vinasamkomum utan sem innan innsta kjarna Sjálfstæðisflokksins.

Það væri lítið gjald fyrir trúverðugleika hans sjálfs.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283