Í síðasta pistli fjölluðum við um Domain Paul Mas og tvö af vínunum frá honum sem fáanleg eru í vínbúðunum. Chateau Paul Mas Chardonnay og Chateau Paul Mas Cabernet Sauvignion, sem eru eins og fram kom þá, frábær vín á mjög góðu verði, bæði undir 2.000 kr.
Í þessum pistli ætlum við að halda áfram með þessa frábæru víngerð sem við erum svo heppin að geta fengið nokkur vín frá hér á landi. Paul Mas-víngerðin leggur mikla áherslu á mikil gæði á góðu verði og það er óhætt að segja að það haldi áfram að skila sér þegar maður færir sig upp um verðflokk. Við ætlum að segja ykkur frá þremur vínum sem eru úr hinni svokölluðu Estate-línu frá Paul Mas sem vissulega eru dýrari en hin tvö, en vínfræðingar eru sammála um að gæði vínanna séu mjög mikil, séstaklega þegar tillit er tekið til þess hvað þau kosta.
Í Langedoc, þar sem Paul Mas-víngerðin er staðsett, rennur Hérault-áin í gegn og það er við hana sem goðsögnin um Hegran Vinus er sögð hafa gerst. Sagan af hegranum sem settist að við árbakkann, þar sem nú eru Grand Cru-ekrur Paul mas, því hann vildi frekar lifa á vínberjum en fiski eins og aðrir hegrar. Til heiðurs þessari goðsögn er mynd af þessum hegra á flöskumiðunum hjá Paul mas.
Vínin úr Estate-línunni koma öll frá bestu vínekrum vínhússins sem þykja með þeim betri á svæðinu. Ekrum sem liggja nálægt árbakkanum á svæðum sem heita Pézenas og Montagnac. Þessi vín hafa öll mikinn karakter og hefur á síðustu 15 árum fengið meira en 300 verðlaun og viðurkenningar, þeirra á meðal víngerð ársins 2013 valin af samtökum vínþjóna í Bandaríkjunum (Sommelier Challenge Awards).
Paul Mas Estate GSM 2011
Það eru sennilega margir sem kannast við að hafa séð þessa skammstöfun, GSM, á vínflöskumiða en örugglega ekki allir sem vita fyrir hvað í ósköpunum það stendur og nú skal bætt úr því. GSM eru upphafsstafir þeirra þrúgna sem notaðar eru í vínið. Þær eru Shirah, Grenache og Mourvedre.
Þetta er blanda sem er upprunnin í Rónardalnum, nágrannahérað Languedoc í norðaustri. Vín úr þessari þrúgublöndu geta þó verið jafn ólík og þau eru mörg, enda er það víngerðarfólkinu í lófa lagt hvert hlutfallið í lokaútgáfunni er. Þegar best tekst til má finna karaktereinkenni hverrar tegundar fyrir sig í bragðinu og hér er það þannig.
Til að ná þessum eiginleikum er vandað til verks. Þegar búið er að handtína þrúgurnar af vínviðnum eru þær flokkaðar til að eingöngu séu notaðar bestu þrúgurnar. Það er síðan gert vín úr hverri þrúgutegund fyrir sig og vínið látið gerjast við 28 °C. Eftir gerjun er vínið látið liggja á hratinu í 15–25 daga eftir því hvernig tunnurnar eru og síðan er það pressað varlega blandað saman í rétta blöndu. 20% af víninu fer þá í 225 lítra eikartunnur og er geymt á þeim í 6 mánuði áður en öllu er svo blandað aftur saman.
Úr þessu verður vín sem er djúprautt með fjólubláum tónum. Í nefi er það með ákafan ilm af brómberjum, kaffi og trufflusveppum og aftast má greina blóm eins og fjólur sem gefa því aukna dýpt. Í munni er það höfugt með flauelsmjúkum tannínum, sólberjum og lakkrís og hefur langt og mikið eftirbragð.
Þetta vín hentar vel með vetrarmat eins og nautakjötspottréttum, villibráð, grilluðu rauðu kjöti, pasta með kjötsósu og hörðum ostum.
Paul Mas Estate Sauvignon Blanc 2012
Sauvignon Blanc er ilmrík þrúga og viðkvæm og víngerðarmenn tala um að það geti verið erfitt að búa til vín úr sauvignon Blanc, svo duttlungarfull sé hún. Þegar vel tekst til koma framúrskarandi vín úr Sauvignon Blanc alls staðar að úr heiminum.
Þetta vín er 100% Savignon Blanc sem vex við bakka árinnar Hérault af þeim ekrum sem flokkaðar hafa verið sem Grand Cru-ekrur.
Vínið er gert þannig að þrúgurnar eru tíndar á nóttunni á meðan svalt er til að koma í veg fyrir oxun. Stilkurinn er tekinn af og safinn pressaður úr við 10 °C. Þegar hreinn safinn hefur náð gerjunarhita sem er 18 °C er hartinu, án stilks, bætt aftur út í og vínið látið gerjast í 18 daga. Í öllu þessu ferli er þess vandlega gætt að vínið komist ekki í snertingu við súrefni með því að nota nitrogen. 70 % vínsins er látið eldast á stáltönkum með hratinu í fjóra mánuði og hin 30% eru látin eldast í amerískum eikartunnum áður en því er blandað saman í desember.
Þetta vín er bjart og fallegt með grænum tónum. Flókið í nefi með kryddjurtum, aspas og suðrænum ávöxtum. Í munni er það ávaxtaríkt og mikið með bragði af hunangsmelónum.
Til að njóta þessa víns sem best er gott að bera það ekki of kalt fram, 10 °C er fullkomið hitastig og þá hentar það sérstaklega vel með sjávarréttum, hvítum fiski, aspasréttum, en líka með hvítu kjöti, kjúklingi, mjúkum ferskostum og ávaxtaeftirréttum. Það er líka fullkomið eitt og sér til slökunar.
Paul Mas Carignan Vieilles Vignes
Orðin Vieilles Vignes sjást stunum á vínflöskumiðum. Bein þýing þess er gamall vínviður og það er einmitt það sem þetta stendur fyrir. Í þessu víni, sem er eingöngu gert úr þrúgum sem heita Carignan, koma allar þrúgurnar af vínviði sem er eldri en 52 ára. Eftir því sem vínviður verður eldri vilja menn meina að af honum komi betra vín. Það er vegna þess að ræturnar liggja orðið dýpra í jörðinni og þess vegna skilar karakter jarðvegsins (Fr. terroir) sér betur í bragðið auk þess sem eftir því sem vínviður eldist ber hann minni ávöxt og þar af leiðandi verður bragðið af hverjum dýpra og meira.
Þetta vín er gert þannig að safinn er pressaður úr berjunum og svo látinn liggja á hratinu í nokkra daga við 10 °C og látinn byrja hægt og er svo kláraður á skömmum tíma við hærra hitastig. Vínið er síðan sett á tunnur úr amerískri eik, af hverjum 20% eru nýjar. Þar er það geymt í 6 mánuði og svo sett á flöskur, ófilterað.
Þetta vín er djúprautt á litinn með rúbínrauðum tónum. Í nefi er það kryddað með áberandi brómberjum, skógarbotni og kakó og ristuðum eikarnótum. Í munni er það höfugt og mikið með flauelsmjúkum tannínum. Bragðið er margslungið með hugmynd um lakkrís ásamt brómberjum og kakói.
Þetta vín hentar vel með rauðu kjöti, nauti eða lambi, steikum, bragðmiklum ostum og pottréttum.