Eva Rut Benediktsdóttir skrifar:
Mig langar til að stíga fram og segja mína upplifun af kynferðislegu ofbeldi, ofbeldi í sambandi og afleiðingar þess.
Ég var í sambandi með strák í um eitt og hálft ár. Þessi tími er tíminn sem ég myndi hiklaust vilja stroka út úr lífi mínu.
Í fyrstu, þegar við vorum rétt að kynnast, leit hann bara út eins og þessi fínasti strákur. Ég var fljót að falla fyrir honum. Það liðu ekki margir mánuðir þar til við vorum farin að rífast heiftarlega mikið og oft; það leið heldur ekki langur tími þar til hann var farinn að beita mig andlegu ofbeldi, kalla mig ljótum nöfnum, skipa mér fyrir, gagnrýna mig, gera lítið úr mér og tilfinningum mínum, einangra mig og því næst fór hann að beita mig líkamlegu ofbeldi.
1. júní 2013 tók líf mitt stóra U-beygju. Aðfaranótt þessa laugardags var ég kynferðislega misnotuð af hálfu þáverandi kærasta míns. Ég ætla ekkert endilega að fara út í smáatriði en mig langar til að segja frá þessu og hvernig áhrif þetta hafði á mig.
Hann átti alltaf erfitt með að stjórna skapi sínu og þetta kvöld var engin undantekning. Hann tók reiðina út á mér, ég varð í hvert skipti fyrir barðinu á henni. Ef ég gerði ekki eins og hann vildi var ég lamin, fleygt um herbergið, kölluð ýmsum ljótum nöfnum, klipin, mér ýtt og hótað öllu illu. Hann hótaði mér einnig oft og mörgum sinnum að hann myndi drepa sig ef ég gerði eitthvað rangt og að dauði hans yrði þá mín sök.
Þetta laugardagskvöld rifumst við allt kvöldið og alla nóttina. Hann barði mig, sparkaði í mig og hló að mér þar sem ég lá í kleinu á gólfinu, tók utan um hálsinn á mér og þrýsti og sleppti ekki fyrr en ég var farin að hósta, skellti höfðinu á mér í veggina, hótaði mér með hníf, hrinti mér hingað og þangað, kallaði mig allskyns ljótum nöfnum, kleip mig og gerði grín að mér.
Ég reyndi eins og ég gat að forða mér, ég reyndi að hlaupa út en hann var á undan að hurðinni og ýtti mér frá, ég reyndi að hlaupa upp á efri hæðina í húsinu mínu með heimasímann til að hringja í mömmu mína en hann reif mig niður stigann, ég reyndi að læsa mig inni á baðherbergi en hann náði mér í hvert skipti. Þegar líða fór á nóttina var ég við það að gefast upp.
Þarna var klukkan orðin sex að morgni til og ég var orðin virkilega þreytt og uppgefin. Ég stóð við kommóðu í herberginu mínu þegar hann gengur inn í herbergið, lokar hurðinni, slekkur ljósið og dregur svo niður gardínurnar. Því næst gengur hann í áttina að mér og fleygir mér í rúmið mitt þar sem hann berst við mig til að ná mér úr buxunum og nærbuxunum sem honum tekst svo á endanum. Það næsta sem hann gerir get ég ekki farið ítarlega útí en ég get sagt það að ég myndi ekki óska mínum versta óvini að upplifa þetta.
Þann 20. desember 2013 endurtók þessi atburður sig. Í þetta skiptið notaði hann ekki kynfærið á sér heldur fingurna. Ég tók þá vitlausu ákvörðun að hitta hann þrátt fyrir allt sem hann hafði gert mér. Þetta sama kvöld tilkynnti hann mér að hann væri búinn að hugsa þetta allt í gegn og hvernig hann gæti komið sér út úr því ef ég skyldi ákveða að kæra hann (sem ég gerði aldrei).
Hann dróg mig í húsasund í miðbænum og káfaði þar á mér og misþyrmdi mér. Ég öskraði eins hátt og ég gat á hjálp og eftir skamma stund fór ég að taka eftir fólki birtast í gluggum á blokkinni sem við vorum upp við. Ein kona kom út á svalirnar og var í símanum, ég vonaðist innilega til þess að hún væri að hringja á lögregluna en engin hjálp barst.
Mig langaði alltaf til að trúa því að hann gæti breyst og orðið betri, en svo varð aldrei. Á þessum tíma sem ég var í sambandinu taldi ég sjálfri mér trú um að þetta væri bara venjulegt, að það væri ekkert svakalegt í gangi og ég gerði mér enga grein fyrir því að ég væri í ofbeldissambandi. Lengi vel kenndi ég sjálfri mér um framkomu hans og hélt að eitthvað hlyti að vera að mér sjálfri, að ég væri svona treg, leiðinleg, pirrandi og óþolandi og þess vegna væri hann svona. Í dag hef ég gert mér grein fyrir því að þetta var ekki mér að kenna og ég gerði ekkert rangt.
Þessu fylgir svo mikil reiði. Öllu ofbeldi fylgja afleiðingar. Í mínu tilfelli sökk ég í mikið þunglyndi og kvíða sem ég þarf núna að taka lyf við. Ég skrópaði úr skóla af því ég hafði enga löngun til að gera neitt, ekki einu sinni vakna á morgnana. Mig langaði oft til að hverfa úr þessum heimi og nokkrum sinnum var ég með verkfærið í hendinni en af einhverjum ástæðum tókst mér aldrei að framkvæma þann verknað. Það var eins og mér hefði birst einhver ósýnileg hjálparhönd sem ég greip í, og því er ég mjög fegin. Ég ætla að standa uppi sem sigurvegari. Hann fær ekki að sigra mig. Ég er betri en hann.
Ég er með galopið sár á sálinni sem ég berst við að loka og með aðstoð fjölskyldunnar og dýrmætu vina minna hef ég komist nálægt því.
Það sem mér þykir mikilvægast í þessu ferli er að vera með góðan og traustan bakhjarl, sem ég hef algjörlega. Ég á yndislegar vinkonur sem hafa allar veitt mér stuðning og skilning. Foreldrar mínir gerðu allt í sínu valdi til að hjálpa mér og ég er þeim óendanlega þakklát. Pabbi minn fór strax af stað í leit að góðum miðstöðvum til að taka við mér.
Ég á elskulegan kærasta núna, sem ég gæti ekki verið þakklátari fyrir. Ég væri ekki hér og mig langar ekki að vita hvar ef hann hefði ekki komið inn í líf mitt. Hann er kletturinn sem stendur ávallt við bakið á mér.
Ég get örugglega aldrei, aldrei þakkað nóg fyrir það sem fólk hefur gert fyrir mig og með mér.
Með því að stíga fram og segja mína sögu vonast ég til að hafa áhrif. Ég vona að ég geti hjálpað öðrum einstaklingum sem berjast við svona sambönd að koma sér úr þeim. Þetta er ekki fórnarlambinu að kenna og ég hvet fórnarlömb að leita sér hjálpar – það er mikilvægt.
Að lokum vil ég þakka ykkur, kæru lesendur, fyrir að lesa þessa grein mína. Ég vona að þið hafið gert það með umhyggju og skilningi.