Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Íbúð óskast – Greiðslugeta: Mínus 10 þúsund á mánuði

$
0
0

Guðmundur Guðmundsson skrifar:

gg

Fyrirsögnin í pistlinum er byggð á REIKNIVÉL velferðarráðuneytisins um lágmarksframfærslu einstaklings á höfuðborgarsvæðinu.

Samkvæmt reiknivélinni þarf einstaklingur á höfuðborgarsvæðinu að lágmarki 234.564 kr. fyrir utan húsnæðiskostnað til að komast af. Ef þessi viðmið eru borin saman við launataxta almennings er greiðslugetan mismunandi há mínustala. Lægstu launataxtar á Íslandi eru rétt rúmar 200.000 kr. á mánuði. Útborguð byrjunarlaun á dagvinnutaxta eru um 230.000 kr.

Þessar tölur eiga við um fjölmennar starfsstéttir. Vinnuframlag þessa fólks heldur uppi grunnstoðum samfélagsins. En hvar á þetta fólk að búa? Hvernig á t.d. leikskólakennari á lágmarkstaxta að komast í húsaskjól?

Ný hugsun í húsnæðismálum

Í kynningu ríkisstjórnarinnar á skuldaleiðréttingunni frá fyrra ári er minnst á leigumarkaðinn í einni málsgrein:

„Unnt verður að ráðstafa séreignarlífeyrissparnaði til lækkunar höfuðstóls og býðst sú leið öllum þeim sem skulda húsnæðislán sem veita rétt til vaxtabóta. Einnig býðst fólki að nýta séreignarsparnað til fasteignakaupa og njóta samsvarandi skattafsláttar, en það getur meðal annars nýst fjölskyldum í leiguhúsnæði.“

Millifyrirsögn málsgreinarinnar var „Ný hugsun í húsnæðismálum“. Ekki fylgir sögunni hvaða almannatengill samdi auglýsingatextann. Ekki heldur hvernig þriðjungur heimila landsins á leigumarkaði getur nýtt sér þessa nýstárlegu hugsun í húsnæðismálum.

Það þarf að leita með stækkunargleri til að finna eitt orð um leigjendur í stórkostlegustu húsnæðisaðgerð Íslands. Það segir sína sögu um áherslur stjórnvalda á íslenskan leigumarkaði. Þótt neyðarástand hafi ríkt á leigumarkaði allt frá hruni eru aðgerðir yfirvalda enn í fullkomnu skötulíki.

Í núgildandi stjórnarsáttmála er ekki minnst á leigjendur, en eftirfarandi málsgrein fjallar um húsnæðismál:

„Ríkisstjórnin leggur áherslu á að landsmenn búi við öryggi í húsnæðismálum í samræmi við þarfir hvers og eins, og hafi raunverulegan valkost um búsetuform.“

Fyrir leigjendur sem taka mark á málsgreininni felst í orðunum – „Raunverulegur valkostur um búsetuform“… eitt stórkarlalegasta kosningaloforð seinni tíma.

Og efndirnar? Á næstum hálfnuðu kjörtímabili bólar ekkert á efndum eða aðgerðum stjórnvalda. Þótt þessi markaður sé kallaður „villta vestrið“ og ástandinu lýst sem skelfilegu.

Þetta er sumsé „Ný hugsun“ ríkisstjórnarinnar í húsnæðismálum.

 

Höfundur er sjómaður og áhugamaður um launa- og húsnæðismál íslenskrar alþýðu.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283