Birgitta Jónsdóttir er fyrsti flutningsmaður nýs frumvarps frá þingmönnum Pírata, þess efnis að sjálfkrafa skráningu barna í trúfélög verði hætt. Um tvennskonar breytingu er að ræða. Annars vegar er lagt til að börn geti tekið ákvörðun varðandi aðild sína að skráðu trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi sjálf á fjórtánda aldursári eða þegar þau eru orðin 13 ára í stað 16 ára aldurs. Hins vegar er lagt til að lagaáskilnaður um sjálfkrafa skráningu nýfæddra barna í trúfélög eða lífsskoðunarfélög verði felldur úr lögunum.
Flutningsmenn frumvarpsins telja ekki rétt að börn séu sjálfkrafa skráð í trúfélag eða lífsskoðunarfélag við fæðingu og með þessu frumvarpi er lagt til að slík skráning verði afnumin. Sjálfkrafa skráning barna í trúfélög er ekki í þágu hagsmuna barnsins og í raun er þetta fyrirkomulag einungis í þágu hagsmuna trúfélaganna eða lífsskoðunarfélaganna sjálfra.
Í 2. mgr. 14. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins segir: „Aðildarríki skulu virða rétt og skyldur foreldra, og lögráðamanna, til að veita barni leiðsögn við að beita rétti sínum, til frjálsrar hugsunar, sannfæringa og trúar, sem samræmist vaxandi þroska þess.“ Í þessu ákvæði felst að það er skylda foreldra til að aðstoða barn við slíka ákvörðun og taka afstöðu hafi barn ekki þroska til þess sjálft að taka ákvörðun um þessi mál. Á þetta benti Mannréttindaskrifstofa Íslands í umsögn sinni við fyrrgreinda lagabreytingu á 141. löggjafarþingi. Í umsögn Mannréttindaskrifstofunnar segir einnig og í framhaldi af þessari túlkun á 2. mgr. 14. gr. barnasáttmálans, að því væri lagt til að ákvæðið kvæði á um það að foreldrar barns í hjúskap eða skráðri sambúð taki sameiginlega ákvörðun um skráningu barns í trúar- eða lífsskoðunarfélag og fram til þess tíma verði staða barns að þessu leyti ótilgreind.
Píratar vilja að farið verði að tilmælum Jafnréttisstofu og Mannréttindaskrifstofu Íslands og leggja til að ákvæði 8. gr. laga um skráð trúfélög verði breytt á þann veg að sjálfkrafa skráningu barna í skráð trúfélag eða lífsskoðunarfélag verði hætt og foreldrar eða forsjáraðili barnsins ákvarði sjálfir, að eigin frumkvæði, hvort barn skuli skráð í trúfélag eða lífsskoðunarfélag. Þá er lagt er til að sá háttur verði hafður á að barn geti tekið ákvörðun um aðild að skráðu trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi sjálft á fjórtánda aldursári eða þegar einstaklingur er orðinn 13 ára að aldri. Vilja flutningsmenn því miða við hinn hefðbundna fermingaraldur eða þegar venja er að ungmenni hljóti einhvers konar manndómsvígslu.
Nánar er fjallað um frumvarpið hér.