Aðeins ein sýning er nú eftir á Björt í sumarhúsi í Tjarnarbíói, nýjum íslenskum söngleik fyrir börn, sem hlaut frábærar undirtektir þegar hann var frumsýndur í Hörpu á tónlistarhátíðinni Myrkir músíkdagar.
Sýningin er laugardaginn 28. febrúar kl. 15.00.
Tónlistin er eftir Elínu Gunnlaugsdóttur við texta Þórarins Eldjárns sem byggist á ljóðum úr bókinni „Gælur, fælur og þvælur“.
Ung og hæfileikarík stúlka, Una Ragnarsdóttir, sem syngur og leikur Björt, tók sín fyrstu skref í Hörpu sem leik- og söngkona af miklu öryggi og fagmennsku. Hún skilar sínu hlutverki frábærlega að öllum öðrum ólöstuðum en Valgerður Guðnadóttir í hluverki ömmunnar, Jón Svavar Jósefsson í hlutverki afans og Bragi Bergþórsson í hlutverki hlaupagikks, ókindar og draugs fara öll á kostum í sýningunni hvert á sinn hátt.
Tónlistin er falleg og skilar sínu vel, fjölbreytt og áheyrileg, en fyrst og fremst styður hún kraftmikla og kostulega texta Þórarins Eldjárns. Kristína Berman hefur skapað söngleiknum litríka og fjörlega umgjörð, Jóhann Bjarni Pálmason sér um lýsingu og Ágústa Skúladóttir leikstýrir. Hljóðfæraleikarar í sýningunni eru Ármann Helgason á klarínett, Kjartan Guðnason á slagverk, Vignir Þór Stefánsson á píanó og Birgir Bragason á kontrabassa.
Sagan segir frá Björt sem er í pössun hjá afa sínum og ömmu í sumarbústað en þar er lítið við að vera og henni leiðist. Í bústaðnum eru engin númtímatæki eins og tölvur og snjallsímar. Afinn og amman reyna að hafa ofan af fyrir henni, en hún gerist æ óþægari. Glói gullfiskur, fiskifluga, hlaupagikkur og dúðadurtur koma við sögu en að lokum finnast bækur í bústaðnum og Björt kemst í ró.
Það eru Töfrahurð og Óperarctic félagið sem standa að baki uppsetningunni. Það er einlæg ósk þeirra sem að sýningunni standa að Björt í sumarhúsi megi þroskast og dafna og verða íslenskum börnum jafn hjartfólgin og ljóðabækur Þórarins Eldjárns fyrir börn.
Frekari upplýsingar og miðasala er hér.