Nú á að opna umræðuna um auknar rannsóknarheimildir lögreglu. Ég veit ekki af hverju þetta orðalag að „opna umræðuna“ komst í tísku en ég hef notað það óspart. Sjálfur er ég búinn að opna svo margar umræður undanfarið að mér líður eins og ég hafi stofnað líkamsræktarstöðvakeðju. Er að opna út um allar trissur.
Heima hef ég opnað umræðuna um það að ég fari á allsherjar fyllirí með strákunum í kvöld. Komi heim ráfandi og ruglandi um miðja nótt, veki börnin og sofi svo af mér allan sunnudaginn. Það er dæmi um umræðu sem virðist vera eitthvert tabú. Allavega hef ég varla nýlokið við að opna umræðuna þegar skellt er á nefið á mér. Það þarf eiginlega að opna umræðuna um opnun umræðuna.
Það er nefnilega vandasamt að opna umræðu. Það getur komið fyrir að þú getir ekki lokað á eftir þér og fljótlega kemur allskonar pakk inn til þín sem þú kærir þig ekkert um. Einhver opnar umræðu og fljótlega er næsti leigubílstjóri sem hlustar of mikið á Útvarp Sögu farinn að gjamma eitthvert vænisjúkt þvaður sem hann hefur ekki hundsvit á.
Nú skortir Ríkislögreglustjóra heimildir til að rannsaka þá menn sem geta framið voðaverk hér og sú umræða er nú opin. Allir helstu vitleysingar samfélagsins hafa tekið tækifærinu fagnandi og eru alfarið á móti því að lögreglan fái þær heimildir sem hún þarf til að tryggja öryggi almennings. Það er eins og að vera á móti því að Slökkviliðsstjóri fái nægilegt bensín á slökkvibílana til að sinna öllu sem hann gæti þurft að sinna.
Lögreglan sjálf segir orðrétt: „Við búum yfir upplýsingum að hér séu einstaklingar sem hafa bæði vilja og getu til þess að fremja hér voðaverk og það er það sem við viljum vekja athygli á.“ Lögreglan hefur meira að segja hækkað viðvörunarstigið um eitt stig. Ég vek athygli á því að stigagjöfin í þessu virkar öðruvísi en í t.d. Júróvision. Í þessu er slæmt að fá stig.
Á sama tíma og ég las það að viðbúnaðarstig lögreglu gegn hryðjuverkum hækkaði horfði ég í gegnum eldhúsgluggann á nágranna minn bera pallaefni úr bílnum sínum og inn í bílskúr. Er hann að fara að byggja pall í sumar eða eldflaugapall? Hækkaði viðvörunarstigið vegna þess? Konan er að fara í vinnuferð til útlanda fljótlega. Eða er hún kannski að fara að ganga til liðs við Íslamska ríkið? Ég þarf að muna að fá að sjá flugmiðann hennar. Ef það stendur á honum Sýrland þá tilkynni ég það að sjálfsögðu.
Þegar lögreglan segist vita af hættulegum mönnum sem hafa viljann og getuna til að fremja hér hryðjuverk þá vil ég að hún hafi burði til að gera eitthvað í því. Í einu húsi i Reykjavík hittast reglulega 63 hættulegustu menn landsins. Þar hóta þeir hryðjuverkum nánast daglega en það er greinilega ekki nóg að menn segist ætla að fremja hryðjuverk, það þarf forvirkar rannsóknarheimildir. Annars væri lögreglan löngu búin að ryðjast vopnuð inn í Alþingishúsið og skella þessu Íslenska ríki þarna í steininn.
Þegar hópur manna hefur ítrekað framið hér hryðjuverk með þeim afleiðingum að náttúruperlum hefur verið rústað, bankakerfið sett á hausinn, auðlindum okkar stolið, láglaunastefnu er viðhaldið og samningaviðræður okkar við Evrópusambandið eru skipulagt eyðilagðar, og það er ekki nóg til að lögreglan bregðist við, þá vil ég að hún fái þær heimildir sem hún þarf til að góma þessa þrjóta.
Ef lögreglan vill ná hættulegustu mönnum landsins, og það dugar ekki að horfa á Alþingisrásina til að afla sannana, þá þarf hún bara að fá þessar forvirku þarna. Sagan segir okkur að Íslendingum stafar mest ógn af Alþingismönnum. Styðjum lögregluna til að ná þeim áður en þeir láta til skara skríða aftur.