Það vakti talsverða athygli á síðustu dögum þegar DV tilkynnti að Ólafur Ólafsson, einn dómþola í Al-Thani málinu svokallaða, hafi óskað eftir – og fengið – að hefja strax afplánun á Kvíabryggju.
Nokkrir fangar hafa bent á að það sé óeðlilegt að maður með fjögurra og hálfs árs dóm á bakinu fái að byrja afplánun á Kvíabryggju þar sem viðmið Fangelsismálastofnunar hafi hingað til verið að þar afpláni menn að jafnaði ekki lengur en tvö ár. Páll Winkel, forstjóri Fangelsismálastofnunar segir þau viðmið miða við ástandið árið 2008 þegar einungis 14 opin fangelsisrými hafi verið fyrir hendi og að með 200% fjölgun opinna fangelsisrýma hafi myndast aukið svigrúm til þess að vista þar fólk með lengri dóma.
Þá hefur það vakið furðu margra að Ólafur sé tekin fram fyrir þá tæplega 500 dómþola, sem bíða afplánunar á biðlista sem lengist stöðugt.
Páll Winkel, segir Ólaf þó ekki fá neina sérmeðferð og að Fangelsismálastofnun sé einungis að vinna eftir þeim leikreglum sem henni hafa verið settar af löggjafanum. Þegar þessar leikreglur eru skoðaðar kemur þó í ljós að stofnunin hefur í raun mjög frjálsar hendur til þess að ákvarða hver skuli vistast hvar.
Rangfærslur forstjóra Fangelsismálastofnunar
Fjölmiðlar hafa vitnað í upplýsingabækling um Kvíabryggju þar sem fram kemur að miðað er við að fangar skuli að jafnaði ekki afplána meira en 2 ár í fangelsinu. Í viðtali við Vísi segir Páll:
„Það er viðmið en það sem hefur breyst frá því að þessi bæklingur var settur fram árið 2008 er að annað opið fangelsi hefur verið tekið í notkun, það er að segja Sogn. Þar eru tuttugu pláss. Frá árinu 2008 þegar Kvíabryggja var 14 pláss erum við núna með 42 opin pláss sem þýðir að það eru fleiri sem þurfa að vera þar,“
Þá segir Páll einnig að þar sem plássum í opnum úrræðum hafi fjölgað um 200% frá því að bæklingurinn kom út árið 2008, hafi viðmiðunarmörkin verið hækkuð frá 2 árum upp í 3 ár.
Þetta virðist ekki alls kostar rétt hjá forstjóranum
Umræddur bæklingur er vissulega úreltur, en Páll ætti að þekkja manna best að til er nýrri og öllu áreiðanlegri heimild um þessi viðmið. Reyndar nefnist hún réttu nafni „Vistun í opnum fangelsum – Verklagsreglur til viðmiðunar.“ Þessar verklagsreglur eru undirritaðar af Páli Winkel sjálfum, dagsettar þann 1. desember 2012. Í annarri grein verklagsreglnanna er að finna sömu reglu og í upplýsingabæklingnum, semsagt að miðað er við að fangar afpláni að jafnaði ekki lengur en 2 ár í opnu fangelsi.
Það verður að teljast í meira lagi undarlegt að Páll kveði umræddar viðmiðunarreglur miða við ástand sem var fyrir hendi fjórum árum áður en hann undirritaði þær.
Tölurnar sem Páll vísar í um fjölgun opinna fangelsisrýma standast heldur ekki nánari skoðun. Í fyrsta lagi má sjá á vef Fjársýslu ríkisins að stækkun Kvíabryggju úr 14 í 22 pláss var lokið í október 2007. Árið 2008 voru því 22 pláss í opnu úrræði fyrir hendi en ekki 14 eins og Páll hélt fram í viðtali við Vísi. Hann getur kannski leiðrétt mig, hann var jú forstjóri Fangelsismálastofnunar á þessum tíma.
Svo má nefna að frá árinu 2010 til ársins 2012 var starfrækt opið fangelsi á Bitru en þar var pláss fyrir 16 fanga. Þeir voru síðan færðir á Sogn árið 2012 þar sem pláss var fyrir 20 fanga. Árið 2010 voru því 38 pláss í opnum fangelsum fyrir hendi og þeim fjölgaði í 42 um mitt ár 2012.
Semsagt, þegar Páll undirritar umræddar viðmiðunarreglur um vistun í opnum fangelsum var fjöldi slíkra plássa sá sami og hann er í dag og er því um 0% frekar en 200% fjölgun plássa að ræða.
Frá Hegningarhúsinu á Kvíabryggju á nó tæm
Umræddur Ólafur fékk ansi hratt inni á Kvíabryggju en ekki nóg með það, heldur fékk hann samkvæmt heimildum Kvennablaðsins, strax loforð um að vera fyrstur inn í vist á eftirsóttasta vistunarúrræði fangelsisins, fyrrum bústað forstöðumannsins á svæðinu.
Þó bíða 33 konur afplánunar og munu gera þar til nýtt fangelsi opnar á Hólmsheiði á næsta ári þar sem loka á Kvennafangelsinu í maí. Þetta ástand hefur vitrari maður en ég kallað klárt mannréttindabrot.
Kvíabryggja á þó að heita eina opna úrræðið sem opið er báðum kynjum en þar afplánar einungis ein kona af þremur sem afplána innan fangelsa sem stendur. Höfundur spyr sig hvort engin þessara kvenna hefði frekar átt að fá þetta pláss? Sérstaklega í ljósi þess að forveri Páls hafi lýst Kvennafangelsið illa fallið til vistunar og áréttað að án opinna úrræða fyrir konur væri þeim mismunað í fangelsiskerfinu? Nú eða allir hinir innan fangelsiskerfisins sem uppfylla viðmiðunarkröfur?
Leikreglur löggjafans
Páll Winkel segist ekki mismuna föngum og að hann fari alfarið eftir þeim „leikreglum“ sem löggjafinn setur honum þegar kemur að forgangsröðun á biðlista og ákvarðana um hverja skuli vista hvar. Þessar leikreglur eru hins vegar ekkert sérstaklega nákvæmar. Í lögum um fullnustu refsinga er tekið fram að Fangelsismálastofnun ákveði í hvaða fangelsi afplánun skuli fara fram. Viðmiðin eru:
„Við ákvörðunina skal tillit tekið til aldurs, kynferðis og brotaferils fangans og þyngdar refsingar auk þeirra sjónarmiða sem gilda um vistun í hverju fangelsi fyrir sig.“
Sjónarmiðin sem gilda við val á vistmönnum á Kvíabryggju eru einnig áhugaverður lestur. Auk þess að venjulega sé miðað við að afplánunartími sé ekki lengri en 2 ár eru einnig gerð þau skilyrði að vistmenn séu ekki háðir vímuefnum, séu vel vinnufærir og að þeim sé treystandi til þess að afplána í opnu úrræði. Úrræðið er einnig hugsað fyrir fanga sem hafa afplánað lengi og eru á leið út í samfélagið á ný.
Að þessu sögðu eru engar frekari upplýsingar að finna um stjórnsýsluna í kringum val á fangelsi, ekkert gagnsætt ytra eftirlit er með stofnuninni og hún gaf síðast út ársskýrslu árið 2003.
Það er því illa fært fyrir almenning að kynna sér hvernig röðun í fangelsi skiptist eftir brotaflokkum, kynjum, lengd afplánunar eða annarra þátta sem varpað gætu ljósi á framkvæmd Fangelsismálastofnunar í úthlutun fangaplássa.
Engin yfirsýn á biðlistum
Sömu sögu má segja um forgangsröðun á biðlista, það er, að litlar sem engar upplýsingar eru fyrir hendi um hvernig að þeim er staðið. Á vef fangelsismálastofnunar kemur fram að fangar sem taldir eru hættulegir samfélaginu eða með þunga dóma eru teknir fram yfir röðina. Og að biðji fangar um að afplána strax skuli reynt að verða við því.
Í öðru nýlegu viðtali við Vísi sagði Páll að dómþolum með 2 ára dóm og þyngri væri forgangsraðað inn í fangelsin en að vissulega væru nokkrir með þunga dóma enn á biðlista. Þá kemur fram í meistararitgerð Sólveigar Margrétar Karlsdóttur að meirihluti þeirra sem bíða afplánunar hafi hlotið stutta dóma, oftast fyrir umferðarlagabrot, en þar séu þó margir líka með lengri dóma. Þá kemur það fram í umfjöllun Kjarnans um fangelsismál að lengsti biðtími eftir því að taka út refsingu hafi verið kominn upp í 5 ár í október í fyrra.
Forgangsröðun og fyrningar
Biðtíminn er hjá mörgum orðinn svo langur að dómarnir fyrnast áður en að fangavist kemur. Þannig fyrntust um 20 dómar árið 2013 en 32 í fyrra.
Engar upplýsingar er að finna á vef fangelsismálastofnunar um hvers eðlis dómarnir sem fyrntust voru.
Páll Winkel sagði í samtali við RÚV að fjórðungur þeirra væru dómar gegn erlendum ríkisborgurum sem borgi sig ekki að fá framsenda og að allir fyrndir dómar hafi verið lágir.
Páll segir það mjög sjaldgæft að fangar biðji um að fá að hefja afplánun og að oftast vilji fólk fresta afplánun. Þó benti Margrét Frímannsdóttir forstöðukona á Sogni á að engum er greiði gerður með því að bíða í fleiri mánuði, jafnvel ár eftir því að taka út refsingu. Sem er alveg rétt því í raun lengist fangavistin bara því sem biðinni nemur, þar sem viðkomandi á það alltaf yfir höfði sér að geta verið kallaður inn í afplánun á hverri stundu.
Er sannleikurinn virkilega sá að enginn þessara 500 á biðlista hafi beðið um að komast í afplánun strax?
Hluti af stærra samhengi
Ástandið í fangelsismálum á Íslandi er vissulega ansi dapurt. Lítið fjármagn rennur til stofnunarinnar (fyrir utan miljarðana tvo sem fóru í Hólmsheiðina) og föngum stendur fátt til boða sem verða mætti til þess að þeir nýti fangavistina til betrunar.
Skortur er á menntunar- og starfsúrræðum og endurkomutíðnin hefur rokið upp í 50% prósent á örfáum árum. Þá bætir það gráu ofan á svart að kærur fanga og kvartanir þurfa að bíða í fleiri mánuði eða ár eftir úrlausn í kerfinu.
Þar að auki gagnrýndi Sendinefnd Evrópuráðs gegn pyntingum og annarri ómannúðlegri meðferð það fyrirkomulag árið 2012 að engin eftirlitsstofnun hefur umsjón með að fylgjast með daglegu starfi fangelsanna og taka við kvörtunum fanga.
Það ætti því enginn að vera að flýta sér í fangelsi sem svona er ástatt fyrir, en illu er þó oft best af lokið. Og að taka út dóminn í opnu fangelsi hlýtur að vera eftirsóttasti kosturinn.
Það er því eðlilegt að kalla eftir opnari stjórnsýslu í fangelsismálum þar sem fangar og almenningur getur fullvissað sig um að farið sé eftir þeim leikreglum sem um ræðir með jafnræði og meðalhóf í fyrirrúmi. Þá er nauðsynlegt að komið verði á fót eftirlitsstofnun til þess að fylgjast með rekstri fangelsanna eins og sendinefnd Evrópuráðs hefur ítrekað kallað eftir.
Auðvitað má vel vera að farið hafi verið eftir leikreglum löggjafans í þessu máli, en þar til að við sjáum útfærslu þeirra svart á hvítu hlýtur maður að spyrja sig hvers vegna Ólafur Ólafsson, maður sem fellur ekki innan viðmiðunarreglna um vistun í opnu fangelsi, kemst fremstur í 500 manna röð til þess að afplána þar á besta stað?
Myndskreyting Kristján Frímann Kristjánsson
Höfundur vill þakka Björgvin Mýrdal fyrir gott samstarf við vinnslu greinarinnar.
Uppfært 27.02.2015: Höfundur fékk ábendingu um að Ólafur væri ekki kominn inn í bústað fyrrum forstöðumanns Kvíabryggju heldur hafi hann hlotið loforð um að verða fyrstur þar inn. Það hefur því verið leiðrétt í greininni.