
Grein upphaflega úr Sleggjunni iðnaðarblaði 24. febrúar 2015. Sleggjan er gefið út af Fótsporum ehf. sími: 578-1190. Smellið á myndina til að lesa blaðið í heild.
Hópfjármögnun hefur færst mjög í aukana undanfarið en hópfjármögnun er fjármögnun í gegnum hóp einstaklinga sem hver og einn leggur fram breytilega og oft tiltölulega lága fjárhæð. Hópfjármögnun byggist oft á stóru neti vina, fjölskyldu og samstarfsmanna sem hægt er að ná til í gegnum félagsleg tengsl.
Stundin er nýr fjölmiðill sem hóf göngu sína í febrúar og er fjármagnaður með hópfjármögnun í gegnum Karolina Fund sem stofnað var árið 2012. Karolina Fund er byggt á erlendri fyrirmynd en bandaríska vefsíðan Kickstarter nálgast hópfjármögnun með svipuðum hætti. „Karolina Fund er ætlað að leysa ákveðnar hindranir innan skapandi greina og nýsköpunar á borð við erfiðleika við fjármögnun, skort á trausti, gagnsæi og öryggi. Markmiðið er að auka líkur á árangri verkefna með því að tvinna saman hópfjármögnun við verkefnastjórnunarkerfi sem gerir hugmyndasmiðum, þjónustuveitendum og fjárfestum kleift að starfa saman með árangursríkari hætti en áður. Þrátt fyrir að frumkvöðlarnir á bak við síðuna einblíni fyrst á íslenskan markað þá er ætlunin að koma sér einnig inn á markað í Evrópu á næstu misserum,“ segir á vef Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands um stofnun og tilgang Karolinu.
Undanfarin ár hefur hópfjármögnun vaxið og þroskast erlendis. Frægust er eins og áður segir síðan Kickstarter sem er bandarískur vefur. Í Evrópu hefur Indiegogo náð hvað mestu flugi. Fjármögnun Stundarinnar markar kaflaskil hér heima en Stundin sló flest met í fjölda áheita og upphæð sem safnaðist. Alls söfnuðust rúmlega sex milljónir króna, sem er rúmlega það sem stefnt var að í upphafi. Að auki má ætla að stór hluti þeirra einstaklinga sem styrkja Stundina í upphafi ætli sér áskrift til frambúðar. Þrátt fyrir að upphæðin sé lág markar Stundin, sé miðað við þróun hópfjármögnunar erlendis, kaflaskil í að sýna fram á að hugmyndin virkar á stærri skala.
Kælibox, tölvuleikir og smartúr
Árið 2014 ákvað Ryan Greppert að reyna enn eitt skiptið á hópfjármögnun vegna hugmyndar sem hann vildi þróa. Hann hafði áður reynt að fjármagna þróun og framleiðslu ‘Coolest cooler’ með hópfjármögnun án þess að ná markmiði sínu. Í þetta sinn sló kæliboxið öll met og safnaði 1,7 milljörðum króna frá áhugasömum kaupendum á síðunni Kickstarter. Greppert vinnur nú að framleiðslu vörunnar en þeir einstaklingar sem lögðu fram fé geta átt von á eintaki í júlí á þessu ári en þá er búist við að framleiðslu og þróun ‘Coolest cooler’ verði lokið. Þrautseigjan borgaði sig fyrir Greppert en honum hafði margsinnis misheppnast áður. Saga Kickstarter sýnir að hópfjármögnun fer í gegnum nokkur þrep áður en hún nær þeim hæðum að fjármagna á jafn stórum skala og dæmin sýna í Coolest Cooler. Árið 2012 vantaði tvö lítil tæknifyrirtæki þróunarfé til að komast á framleiðslustig með vöruna sína. Leikjatölvan OUYA og snjallúrið Pebble var útkoman. Bæði fyrirtækin náðu margföldu markmiði sínu. Í tilfelli OUYA var upphaflega óskað eftir tæplega 125 milljónum króna sem árið 2012 þótti brjálæðislegt markmið í hópfjármögnun. Leikjatölvan safnaði að lokum 1.130 milljónum króna eða tíföldu markmiði sínu. Pebble var upphaflega að leita að 13 milljónum en safnaði að lokum 1,3 milljörðum.

Íslenska sprotafyrirtækið RóRó nýtti sér nýlega hópfjármögnun við vöruþróun á dúkkunni Lúllu. Fyrirtækið safnaði um þremur milljónum með hópfjármögnun til framleiðslu á dúkkunni.
Listir, hönnun og menning
Kickstarter hóf starfsemi árið 2009 og hefur frá stofnun verið ráðandi í hópfjármögnun í Bandaríkjunum. Kickstarter starfar nú, auk Bandaríkjanna, í Ástralíu, Nýja-Sjálandi, Bretlandi, Kanada, Hollandi, Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Írlandi. Þar sem hópfjármögnun er eins konar smásölufjármögnun segir sig sjálft að vörur sem almenningur hefur meiri áhuga á gengur gjarnan betur. Tækni- og tölvuleikjaþróun hefur þannig átt nokkuð góðu gengi að fagna í hópfjármögnun á meðan aðeins eitt verkefni er varðar erfðabreytingar á plöntum hefur náð fjármögnun. Í rannsókn sem unnin var í Wharton-háskóla í Pennsylvaníu á verkefnum sem ná markmiðum sínum á Kickstarter koma fram ýmsar breytur sem hafa áhrif. 89 prósent verkefna sem valin eru á forsíðu Kickstarter ná tilætluðum árangri í fjármögnun. Þá kemur einnig í ljós að verkefni ná afar mismunandi árangri eftir því í hvaða flokk þau falla og að flokkurinn hefur sömuleiðis áhrif á hversu vel þeim gengur. Þannig kemur í ljós að tvö af hverjum þremur dansverkum sem sóst hafa eftir hópfjármögnun á Kickstarter hafa náð markmiði sínu á meðan aðeins um þriðjungur verkefna við tískuhönnun ná árangri.

Fyrirtækið Heilshugar framleiðir vöruna Millimál sem er heilsusamlegt snakk milli mála. Fyrirtækið sótti stuðning við markaðssetningu og vöruþróun á Karolina Fund.
Reynslan á Íslandi
„Þetta gengur út á það að sá sem ætlar að framkvæma eitthvert verkefni sækir sér peninga ekki til einhvers eins, tveggja eða þriggja fjársterkra aðila heldur til mjög margra,“ sagði Arnar Sigurðsson, einn stofnenda Karolina Fund, á fundi Innovit um hópfjármögnun. „Yfirleitt fá þeir sem leggja til peninga í verkefnið eitthvað að launum fyrir það.“ Karolina Fund er ætlað við fjármögnun á skapandi verkefnum. „Við tökum við skapandi verkefnum. Við skilgreinum það mjög vítt hvað skapandi verkefni er. Hver sem er getur verið að gera skapandi verkefni. Við myndum ekki taka við fjármögnun á kosningabaráttu stjórnmálaflokks en við myndum taka við fjármögnun á bók um stjórnmálastefnu. Við skilgreinum skapandi í þessum skilningi. Það er mjög vítt,“ sagði Arnar um Karolina Fund að loknu prófunartímabili síðunnar.

Snjallúrið Pebble var um tíma eitt best heppnaða hópfjármögnunarverkefni allra tíma. Pebble var um leið eitt af fyrstu snjallúrunum á markaði. Pebble tengist snjallsíma notandans í gegnum Bluetooth og getur þannig sýnt á skjánum hver hringir, minnt notandann á fundi og annað í dagatali símans auk þess sem skjárinn getur birt smáskilaboð á úrinu í stað símans.
Matur, spil og sirkustjald
Þótt Stundin hafi vakið mikla athygli undanfarið fer því fjarri að fjölmiðillinn sé fyrsta íslenska verkefnið sem tekst vel við fjármögnun á með hópfjármögnun. Grænmetispylsurnar Bulsur eru dæmi um vöruþróun sem fjármögnuð var með hópfjármögnun á vef Karolina Fund. „Í apríl 2012 sat Svavar Pétur [Eysteinsson, hugmyndasmiður Bulsa] á skrifstofunni og hugsaði um pulsur. Nokkrum mánuðum áður hafði hann tekið ákvörðun um að hætta að borða kjöt. Hann var mjög ánægður með þá ákvörðun en einn galli var á gjöf Njarðar, Svavar dauðlangaði í pulsu. Eftir nokkra umhugsun og vangaveltur ákvað Svavar að panta fund hjá bæði Matís og Nýsköpunarmiðstöð. Hann sagði þeim frá hugmynd sinni, að búa til nýja gerð af pulsum án dýraafurða,“ segir á vefsíðu Bulsa. „Um svipað leyti komst Svavar í samband við Inga Rafn hjá Karolina Fund sem leiddi til þess að Svavar ákvað að hefja fjáröflun hjá Karolina Fund til að koma verkefninu á koppinn. Fjáröflunin gekk vonum framar og fór langt fram úr væntingum. Margir höfðu trú á verkefninu og lögðu því lið og þeim verður seint fullþakkað.“ Bulsur eru enn í dag framleiddar og eru nú fáanlegar í almennum matvöruverslunum. Bulsur er meðal fyrstu verkefna Karolina sem fjármögnuð voru hér á landi. Verkefnið er um leið gott dæmi um styrk hópfjármögnunar þegar kemur að fjármögnun smærri markmiða og verkefna sem við fyrstu sýn virka ekki líkleg til að ná hefðbundinni fjármögnun. Árið 2013 safnaði Sirkus Ísland fyrir spánnýju sirkustjaldi með hópfjármögnun Karolina Fund. Þótt ekki sé hægt að fullyrða neitt um sirkusáhuga bankamanna má ímynda sér að hópur sirkusfólks geti átt töluvert erfiðara með að sannfæra jakkafataklædda bankamenn um að slíkt tjald sé góð fjárfesting. „Við þurfum að safna 40 þúsund evrum eða um 6,5 milljónum króna. Best væri ef við söfnum meira en lágmarkinu, því allur umfram peningur fer í að kaupa stóla, ljós, hljóðkerfi og flutningskostnað,“ segir á verkefnasíðu hópsins. Fjármögnunin heppnaðist og tjaldið er á landinu.
Persónulegt samband
Svavar Pétur bulsugerðarmaður fór yfir fjármögnun Bulsa á fundi Innovit, Klak og Landsbankans um hópfjármögnun á síðasta ári. Þar sagðist Svavar raunar sakna þeirra persónulegu tengsla við neytendur sem fylgdi hópfjármögnun. Sömu sögu má einmitt segja um Sirkus Ísland en á sama fundi kom fram að pantanir á sýningar hjá þeim hefðu aukist mjög eftir að sirkushópurinn hóf hópfjármögnunarverkefni sitt. Þannig þjónar hópfjármögnun ekki aðeins hlutverki fjármögnunar heldur byggir um leið upp vörumerki og hóp fólks sem hefur áhuga á að sjá vörumerkið styrkjast og halda áfram. Þeir sem fjárfestu í Bulsum Svavars buðust nokkrar upphæðir til fjármögnunar og um leið aukin verðlaun. Með því að leggja 120 þúsund krónur til fjármögnunar fylgdi Bulsuveisla fyrir allt að 20 manns ásamt tónleikum með hljómsveitinni Prins Póló. Einn einstaklingur lagði þá upphæð til. „Við héldum eitt svona bulsupartí sem var alveg stórkostlega eftirminnilegt. Við fórum til einhvers fólks með bulsur og grill og heila hljómsveit inn í einhvern garð í Vogunum og hentum upp grillpartíi. Þannig komumst við í samband við fólk og hengum með því heila kvöldstund að tjútta. Það sem mér fannst mjög mikilvægt var að vera í persónulegum samskiptum við neytendur, við fólkið sem fjármagnaði verkefnið og kom því á koppinn með mér. Það er kannski það sem ég sakna mest núna eftir að varan hrökk bara í gang.“