Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Verður þetta alltaf svona vont?

$
0
0

Ragnheiður Kr. Jóhannesdóttir skrifar:

„Ég veit, elskan mín, þetta lagast þegar þú eignast börn,“ segir mamma við mig áhyggjufull þar sem ég ligg 15 ára í hnipri í rúminu mínu, nýkomin úr sjóðandi heitu baði, búin að gleypa allar þær verkjatöflur sem mér voru skaffaðar af heimilislækninum, með hitapoka í fanginu en engist samt um af kvölum og ógleði.

Svartir og drungalegir verkirnir eru að ganga frá mér. Mér finnst eins og kranabíll sé búinn að krækja í líffærin í kviðarholinu og sé að draga þau upp úr mér hægt og rólega á meðan verið er að berja með voldugri sleggju á mjóbakið á mér. Mér er auk þess óglatt, ég er sveitt og þvöl, með kraftmikinn höfuðverk, sára ristilkrampa og eiginlega bara hálf hrædd við alla þessa verki og hamagang. Getur verið að þetta eigi að vera svona sárt og kvalafullt? Verður þetta alltaf svona vont?

Engin eins

Engin kona upplifir tíðaverki eins – svo mikið veit ég. Sumar konur finna ekkert til, aðrar finna aðeins verk í bakinu, einhverjar bara í kviðarholinu og aðrar bæði í kviðarholi og baki. Svo eru konur sem finna mikið til. Mikið. Og konur sem eru undirlagðar af verkjum. Undirlagðar frá toppi til táar. Mígreni og höfuðkvalir, ógleði, brjóstsviði, magakrampar, ristilkrampar, iðraólga, vindverkir, tak í þindinni, máttleysi, hitavella, krampar í kviðarholi og sárir stingir, eymsli og verkir í mjóbaki eða rófubeini, verkir við þvaglát eða hægðir, dofi eða taugaverkir niður í fótleggi … Það eru ekki eðlilegir verkir eða eitthvað sem kona á að sætta sig við.

Ragnheiður2

Verð á Vestfjörðum um helgina að bægja frá óveðri

Í sumum menningarheimum til forna var kona sem hafði á klæðum talin heilög og valdamikil, sums staðar var talið að þær hefðu hæfileika til að lækna sjúka og annars staðar að þær gætu fælt í burtu haglél, hvirfilbyli og eldingar. Mannkynssagan hefur að geyma ótrúlegustu sögur, hjátrú og fordóma tengdu þessu náttúrulega ferli kvenlíkamans sem gerir okkur kleift að fjölga mannkyninu. Og í dag hlæjum við að þessum sögum. En það hlæja ekki allar konur. Þær konur sem kveljast í hverjum mánuði af endómetríósu og mæta fordómum og vanþekkingu hjá heilbrigðisstarfsfólki og almenningi er ekki hlátur í huga. Það eru um 10% allra kvenna!

Dýrt spaug

Sjálf kvaldist ég í 27 ár áður en ég fékk greiningu! Samt fór ég mjög reglulega til heimilislæknis og kvensjúkdómalæknis. En það var ekki fyrr en þegar ég, 40 ára gömul, rambaði fyrir slysni inn á vefsíðuna www.endo.is, þar sem ég gat hakað við hvert og eitt einasta einkenni nema ófrjósemi að ég áttaði mig á því að þetta væru sennilega ekki eðlilegar kvalir. Í framhaldi óskaði ég eftir kviðarholsspeglun hjá nýjum kvensjúkdómalækni og fékk staðfestingu á sjúkdómnum.

330 skipti á blæðingum (dreg frá 30 mánuði í meðgöngu tveggja barna og brjóstagjöf). Tæplega 2000 kvalafullir dagar og þar af um 650 dagar þar sem ég var alveg óvinnufær af verkjum og kvölum eða um 2 og 1/2 ár í fullri vinnu! Það er enginn smá kostnaður fyrir þjóðfélagið og atvinnulífið. Þá er ég ekki að telja með dagana í kring þar sem ég var hálf manneskja … verkjuð þó ég væri minna verkjuð, með hitavellu eftir átök líkamans … illa sofin … full af verkjalyfjum … kraftlaus eftir ristilkrampa og uppköst … þá tel ég ekki með tímann og kostnaðinn sem fer í járngjafir upp á Landspítala til að bæta upp fyrir blóðmissinn, eða tímann og kostnaðinn sem fór í að leita sér hjálpar … eða kostnaðinn fyrir þjóðfélagið að halda mér uppi á tímabundinni örorku þar sem ég er núna óvinnufær m.a. vegna endómetríósu (en einnig sjálfsofnæmis- og gigtarsjúkdóma sem eru mögulega afleiðing þess).

Mér er ekki hlátur í huga, ekki einu sinni bros. Og ég vil ekki að dætur mínar þurfi að ganga í gegnum það sem ég gekk í gegnum. Ekki heldur dóttir þín, frænka þín eða systir. Kvalafullar tíðablæðingar eru EKKI eðlilegur partur af því að vera kona.

Hættum þessum fordómum gagnvart þessu eðlilega og fallega ferli kvenlíkamans og tölum jafn hreinskilnislega um endómetríósu og hjartasjúkdóma og heilablóðfall og hlustum á þær konur sem eru að upplifa óeðlilega verki. Með því að grípa fyrr inn í en seinna er mögulegt að spara heilbrigðiskerfinu og atvinnulífinu gríðarlegan tíma og kostnað og koma í veg fyrir þær miklu kvalir sem þær konur líða iðulega af, sem þjást af þessum falda sjúkdómi.

 


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283