Það virðist vera regla að í hvert sinn sem forsætisráðherra bregður sér út fyrir landsteinana skilur hann eftir einhverja bombu sem á að springa meðan hann skoðar sig um í hinu vonda Evrópusambandi og nýtur allra þeirra lystisemda sem hann vill fyrir enga muni deila með löndum sínum.
Í gær var tekin sú fordæmislausa ákvörðun að utanríkisráðherra sleit mögulegum áframhalds-viðræðum við Evrópusambandið. Upp á eigin spýtur og framhjá þinginu. Áþekk freksemi hefur bara einu sinni gerst áður og þá var skipuð utanþingsstjórn í kjölfarið því ljóst var að stjórnarskráin hafði verið brotin og eitthvað annað kerfi en þingræði komið í gang.
Nokkuð sem ætti að vekja ugg í brjóstum allra Íslendinga. Þetta er klárlega brot á lögum um ráðherraábyrgð (8. gr. – liður b) og snýr að grundvallaratriði í stjórnskipan Íslands.
Með þessum ósvífna hætti er ríkisstjórnin að taka mikinn sjens þótt hún átti sig sennilega ekki á því. Miklu meiri sjens en að láta málið fá eðlilega og þingræðislega meðferð. En þetta er sannarlega ekki fyrsta sprengjan sem springur framan í þessa hörmungarstjórn.
Ég spái að héðan í frá falli öll vötn til Dýrafjarðar og allur stuðningur frá silfurskeiðungum.
Ekki bara vegna þess að þetta er fávitaleg aðgerð. Heldur ekki síður að í silfurskeiðungum birtist á mjög skýran hátt sviksemi og hugleysi. Sviksemi vegna þess að báðir silfurskeiðungar lofuðu að kosið yrði um framhald viðræðnanna við Evrópusambandið, og hugleysi fyrir það að þora ekki með málið í gegnum Alþingi.
Og allt vegna þess að þeir þora ekki að láta heilbrigða umræðu fara fram um kosti og galla mögulegrar aðildar. Þola ekki þá hugsun að mögulega náist í gegn ákjósanlegur samningur við Evrópusambandið sem myndi snúa við spilaborði þjóðlífsins, öllum til framfara og hagsældar nema örfáum ríkum, gömlum köllum sem öllu vilja ráða.