Dagdraumar eru eitthvað sem ég hef alla tíð getað týnt mér í. Ég hef ánægju af þeim og þeir fylla mig ró sem er engri annarri ró lík. Það líður ekki sá dagur sem mig dagdreymir ekki. Ég hef heldur aldrei verið viss um það hvort mig dagdreymi extra mikið eða hvort fólk sé yfir höfuð ekkert hrifið af því að deila sínum dagdraumum.
Ímyndunaraflið mitt getur orðið svo skemmtilega mikið stundum að það gæti örugglega sprengt einhverja skala, ef þeir eru þá til. Sem unglingur komu tímar þar sem ég hafði áhyggjur af þessu og datt jafnvel í hug að ég hlyti að vera haldin einhverjum skelfilegum ímyndunarsjúkdómi.
Ég gekk jafnvel svo langt að ræða þessar áhyggjur mínar við geðlækninn minn en sem betur fer hló hún bara að mér og sagði mér að þetta væri alls ekki eitthvað sem ég ætti að hafa áhyggjur af, þannig að í dag leyfi ég mér að dreyma út í hið óendanlega.
Það koma augnablik þar sem ég hef týnt mér svo í draumaheimum að einstaka manneskja hefur farið að hafa áhyggjur af mér og þá aðallega ef fólk gerir þau mistök að taka mig of alvarlega þegar ég babbla út í bláinn um það sem mér hefur dottið í hug. Eins og þegar ég týni mér í dagdraumum um fullkominn heim og fer að reyna að ræða það við mér eldra fólk. Þá á ég það til að fá augnatillit til baka sem lýsir áhyggjum en þá er ég fljót að benda á að auðvitað séu þetta einungis draumar en ekki endilega eitthvað sem er mögulegt á þessari stundu eða jafnvel nokkurn tímann.
Stundum dett ég út og gleymi að hlusta á fólk, það getur verið óhentugt sérstaklega ef fólk er í miðjum samræðum við mig, eða þegar kennarinn í skólanum er að reyna að kenna bekknum eitthvað sem skiptir máli. Ef ég virðist ekki vera að hlusta eða er annars hugar, þá er bókað mál að ég hef bara aðeins kíkt yfir í draumaheim.
Ég er jafnvel á þessum tíma að velta fyrir mér hvernig fjörðurinn sem ég bý í líti út frá sjónarhorni fljúgandi hrafns eða hvernig tilfinning það væri að hafa lifað allt sitt líf sem selur og vera að sjá manneskju í fyrsta skipti.
Ein af meginástæðum þess að ég get ekki beðið eftir sumrinu er að þá kemst ég aftur upp í fjall. Það að vera ein uppi í fjalli, umvafin náttúru, með símann á „silent“ til að fá enga truflun eru hinar fullkomnu aðstæður til að týna sér gjörsamlega í dagdraumum. Ég sest kannski í laut til að lesa bók og á meðan er hugurinn á fullu að skapa óraunhæf ævintýri. Ég ímynda mér að það komi álfur út úr steini og kíki yfir lautarbarminn til að athuga hvað ég sé að gera. Ég passa mig á því að snúa mér ekki í þá átt sem álfurinn heldur sig því þá gæti ég komist að því að það er enginn álfur og hefur aldrei verið. Ég hef engan áhuga á því að sprengja draumakúluna sem mér þykir svo gott að hreiðra mig um í.
En trúi ég á álfa, tröll, sæskrímsli, dýr sem tala á ákveðnum dögum og risa sem breytast í fjöll á meðan þeir sofa? Nei, ég geri það ekki í raun en mig langar að trúa á þetta allt þannig ég leyfi mér að dreyma og hver veit, einn daginn gæti hæfileiki minn til að týna mér í draumalandi komið að góðum notum.
Mig langar til dæmis til að skrifa fantasíubókmenntir einhvern daginn og ég tel það nánast ómögulegt ef að hæfileikann til að dreyma skortir.
Það gerir líf mitt svo innihaldsríkt að dreyma vakandi. Í stað þess að líta upp í himininn og sjá fuglahóp fljúga yfir mig og halda svo áfram með mitt daglega líf þá slæst ég í hóp með fuglunum í huganum og flýg smá spöl með þeim. Í stað þess að sjá fjall þá sé ég heilu ævintýrin, tröll sem kafa snjóinn, einsetumanninn sem stendur á fjallstindinum og veltir fyrir sér tilgangi lífsins ásamt öllum álfunum og huldufólkinu sem halda stórfenglegar veislur í höllum sínum, hallir sem fólk sér yfirleitt sem óhemju stóra steina.
Það verður aldrei nein spurning fyrir mig um það hvort að það sé hollt eða gáfulegt að halda áfram að dagdreyma á fullorðinsárum.
Ég þekki of marga miðaldra einstaklinga sem hafa bælt niður í sér löngunina til að týna sér í draumum til að hafa nokkurn áhuga á að feta þær slóðir.
Lífið er bara of fallegt og það býður svo mikið upp á að fólk geri það enn þá fallegra með draumum sínum, of mikið til þess að ég geti hugsað mér að hætta að dreyma eins og ég geri í dag.
Ég veit ekki hvað ég myndi gera ef ég vaknaði einn daginn og sæi einungis fjall þegar ég horfi á fjall, ef að sæskrímslin væru horfin úr sjónum og huldufólkið hefði gufað upp eins og það hefði aldrei verið þarna. Ég er ekkert viss um að ég hefði eins gaman af lífinu ásamt einföldustu hlutum ef að draumarnir myndu hverfa frá mér.
Ég er stolt draumórakona og vona að ég verði það alla tíð.