Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Stafar ógn af Rússum á norðurslóðum?

$
0
0

 

Aftur til fortíðar
Að undanförnu hafa atburðir í Úkraínu vakið ugg í brjósti og stjórnarhættir Vladimirs Putin Rússlandsforseta þótt minna á fyrri tíð hins kalda stríðs. Athyglin hefur því einnig beinst að norðurslóðum þar sem Rússar hafa verið að auka viðbúnað sinn og þær spurningar vaknað hvort Rússar hyggi þar á framrás og landvinninga. Hér verður reynt að varpa ljósi á málið, hvort raunveruleg ógn stafi af Rússum á norðurslóðum.

Þegar rússneskir landkönnuðir settu niður fána á hafsbotninn á norðurskautinu árið 2007 var freistandi að túlka þá djörfu aðgerð á þann veg að þar með væri hafið kapphlaup um norðurslóðir, hugsanlega með átökum. Reyndin hefur þó verið önnur og líklega voru rússnesk stjórnvöld að styrkja pólitíska stöðu sína innanlands og að senda öðrum ríkjum skilaboð. Þannig gerðu þeir ákveðið tilkall til svæðisins og styrktu mögulega strategíska stöðu á heimsvísu til framtíðar.

Putin viðurkenndi seinna að hinar miklu olíuauðlindir á svæðinu gætu verið grundvöllur fyrir landfræðilega hagsmunabaráttu. Hann lagði samt áherslu á að þarna væru engar aðstæður fyrir stríðsátök og ríkin fimm sem hagsmuna eiga að gæta leystu úr deilumálum á vettvangi alþjóðlegs réttar Sameinuðu þjóðanna.

Auk fánamálsins hafa Rússar nú boðað eflingu norðurflota síns með endur-opnun herstöðvar á Nýju-Síberíueyjum þar sem öflugur floti mun hafa aðsetur allt árið um kring, en stöðin var síðast í notkun árið 1993. Einnig hafa rússneskir „Birnir“ tekið til við að fljúga nýja leið, m.a inn í lofthelgina umhverfis Ísland og lofthelgi Kanada, eins og tíðkaðist á kaldastríðsárunum.

Helstu fræðimenn á sviði norðurslóðamála, ma. Michael Byers, Alyson Bailes og Lasse Heninen hafa þó sagt að þrátt fyrir hernaðaruppbyggingu Rússa á norðurslóðum sé megináhersla þeirra á að viðhalda stöðugleika og stuðla að samvinnu á svæðinu.

Rétt er að hafa í huga að þegar rætt er um öryggismál og viðbrögð við slysum eða umhverfisvá í norðurhöfum, verður vart hjá því komist að nýta sér hernaðarleg úrræði. Tilvitnun í fyrrverandi yfirmann kanadíska heraflans, Walt Natynczyk, setur hlutina í rétt samhengi:

„Ef einhver væri nógu heimskur til að ráðast á okkur á norðurskautssvæðinu væri mitt fyrsta verk og skylda að senda björgunarsveit á staðinn.“

Aukin hernaðarumsvif þurfa því ekki endilega að þýða aukna hernaðarlega spennu. Aðstæður í Íshafinu eru hreinlega svo erfiðar að ekkert ríki heldur úti sjálfstæðum björgunarsveitum, nógu öflugum til að bregðast við þeim ógnum sem þar eru, án hernaðarlegra úrræða.

Staða Rússa
Hér verður ekki gert lítið úr alvarleika framferðis Rússa í Úkraínu og almennt ögrandi utanríkisstefnu þeirra. Kannski er erfitt að gera tæmandi grein fyrir þessu máli í fáum orðum en mikilvægt er þó að leggja ekki aukin umsvif á norðurslóðum að jöfnu við td. atburði á Krímskaga. Skal það útskýrt nánar hér á eftir.

Rússar hafa í raun langa sögu tengsla og kröfugerða gagnvart norðurskautssvæðinu sem rekja má aftur til upphafs nítjándu aldar. Það sem styrkir þessa stöðu þeirra er sú staðreynd að einn fimmti alls landsvæðis Rússlands er innan norðurskautssvæðisins og þar eru heimkynni tveggja milljóna manna. Sex stórfljót í Rússlandi renna í Íshafið á móti einu til tveggja fljóta í öðrum ríkjum og hátt í helmingur svæðisins í heild tilheyrir Rússlandi.

Yrði norðursiglingaleiðin, norður fyrir Rússland til Asíu, reglulegur valkostur þýddi það róttæka breytingu á landfræðipólitísku umhverfi. Þar gætum við horft upp á kínversk herskip sigla um til verndar kaupskipum sínum sem gæti orðið krefjandi staða gagnvart Rússum og NATO út frá sjónarmiðum öryggismála.

Þó Rússar hafi lagt í talsverðar fjárfestingar í höfnum og annarri nauðsynlegri þjónustu, meðfram 17.500 km langri strandlengjunni, er ljóst að enn er ekki útséð um hvernig leiðin beri sig fjárhagslega. Flutningar milli Asíu og Evrópu, sem byggja jafn mikið á áreiðanlegum tímasetningum og tryggu þjónustuneti, eru ekki endilega fýsilegir í Norður-íshafinu. Þeir bjartsýnustu telja þó að leiðin geti tekið við aukinni umferð, sér í lagi ef til vandræða horfir á núverandi leið um Súez-skurð.

Aðilar að málinu hafa ekki enn sem komið er véfengt stjórn Rússa yfir norðursiglingaleiðinni. Kínverskir fræðimenn hafa þó sagt að Kína gæti skoðað þá möguleika að láta þar reyna á fullveldi Rússa – og þá einnig Kanadamanna yfir norðvestur-leiðinni. Það getur haft mikla þýðingu því ef siglingaleið liggur innan svæðis sem telja má til efnahagslögsögu ríkis, getur það í raun krafist gjalds af þeim sem sigla þar um.

Af þessu má ætla að mikilvægt sé fyrir Rússa að sýna fram á hernaðarlega getu til þess að stjórna svæðinu. Að sögn Pútins er þó ekki einungis ætlunin að endurreisa fyrrnefnda herstöð með tilheyrandi viðbúnaði, heldur verði þar einnig aðsetur sérfræðinga og vísindamanna til að veita þjónustu á norðursiglingaleiðinni.

Ekki verður lagt mat á hvort þessi orð endurspegli stefnu Rússa þegar á hólminn er komið en það er ekki sjálfgefið að barátta um olíu og aðrar auðlindir verði tilefni til átaka af þeirra hálfu. Líklegra er að átök muni fremur spretta af herstjórnarlegum rótum hvað varðar opnun norðursiglingaleiðarinnar, sem gerir Rússland berskjaldað gagnvart árásum sem áður voru óhugsandi.

Þó ber að hafa í huga að Rússar eiga einnig mikilla hagsmuna að gæta gagnvart nýtingu orkuauðlinda á norðurslóðum. Það getur haft afgerandi áhrif á viljann til að hafa í heiðri umhverfissjónarmið ef að þeim þrengir í orku- og efnahagsmálum. Þar gæti legið raunveruleg hætta sem vert er að gefa gaum.

Nú þegar öll spjót virðast beinast að Rússum, sem flokka mætti undir fallandi heimsveldi, er mikilvægt að vera vel á verði því ríki í þannig stöðu geta sýnt af sér hegðun hins afkróaða dýrs. Það er hins vegar lítil ástæða til að óttast bein átök á svæðinu sem um ræðir og óhætt er að fullyrða að það eru í raun engar deilur á borðinu um landsvæði eða réttindi sem útkljá þarf með hernaði.

Sögulegar breytingar á flutningsleiðum hafa í gegnum tíðina verið tengdar tilfærslu á efnahagslegu og pólitísku valdi í heiminum. Aukin umsvif Rússa nú eru fyrst og fremst til að tryggja yfirráð, hafa viðveru, á svæði sem tilheyrir þeim sannarlega og er að verða aðgengilegt, ma. með auknum alþjóðlegum siglingum.

Ljóst er að íslenskum hagsmunum stendur engin bein ógn af Rússum vegna aukinna umsvifa þeirra á norðurslóðum. Mestu skiptir að þau ríki sem þarna hafa aðkomu gæti þess að tryggja öryggi með hliðsjón af vernd hinnar viðkvæmu náttúru og varðar ma. auðlindir Íslendinga.

 


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283