„Kæra Byrgíta Jónsdóttir,
Við ritum þér hér nokkrar línur vegna orða sem þú lést falla í viðtali í útvarpsþættinum Harmageddon þriðjudaginn 24. mars síðastliðinn, en þar voru Píratar og uppgangur þeirra í stjórnmálunum þessa dagana til umræðu. Í viðtalinu barst þú stjórnmálaflokkinn Pírata saman við “þriðja kynið” og lýstir honum sömuleiðis sem “kynlausum” í því samhengi.
Við erum nokkuð hugsi yfir því hvað það var nákvæmlega sem vakti fyrir þér þegar þú lést þessi orð falla og jafnframt hvaða hóp þú áttir við, því þeir geta verið nokkrir. Við veltum fyrir okkur hvort t.d. hafi verið átt við intersex fólk, trans fólk, non-binary trans fólk eða annað fólk. Burtséð frá því hvaða hóp var um að ræða myndum við gera athugasemdir við að lýsa þeim sem “kynlausum” í umræðu um “þriðja kynið.” Fólk sem skilgreinir sig kynlaust (e. agender) skilgreinir sig nefnilega ekki jafnframt sem “þriðja kynið” – og kynlaus á alls ekki við um intersex fólk eða aðra flokka undir non-binary trans regnhlífinni.
Fyrir intersex einstakling, sem hefur jafnvel véfengt eigið kyn, getur orðanotkunin “kynlaus” endurvakið gamla, röklausa hræðslu. Það að kyneinkenni manneskju séu örlítið frábrugðin þeim samsetningum sem algengastar eru gerir hana ekki kynlausa. Sömuleiðis er það trans fólk sem upplifir kynvitund sína utan tvíhyggju hins ‘hefðbundna’ kynjakerfis (sem gerir eingöngu ráð fyrir karl- og kvenkyni) ekki “kynlaust” og gefur slík orðanotkun jafnvel til kynna að kynvitund þeirra sé ekki raunveruleg, eða óæðri en ella.
Við gerum okkur grein fyrir því að þessi orð voru eflaust ekki útpæld og sett fram í einhverskonar kímni. Útkoman verður samt: manneskja í forréttindastöðu að gera grín á kostnað þessara minnihlutahópa.
Í ljósi þessa atviks, og vegna þess að lögfestingu á þriðja kyninu er að finna í jafnréttistefnu Pírata, viljum við skora á þig og flokkinn að afla sér viðeigandi fræðslu um málefnið, þingmönnum og öðru félagsfólki til góða. Starfsfólk og sjálfboðaliðar Samtakanna ‘78 eru t.d. boðin og búin, en í fræðsluefni samtakanna er einmitt tekið á þessum málefnum. Við teljum mikilvægt að stjórnmálaafl sem er á uppleið og sækir vald sitt til grasrótarinnar standi undir væntingum og tali um hinsegin fólk af virðingu.“
Með vinsemd og virðingu,
Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir, formaður Trans-Ísland
Kitty Anderson, formaður Intersex Ísland
Bríet Finnsdóttir, varaformaður Intersex Ísland
Alda Villiljós, stofnandi Non-Binary Iceland
Sigurður Ýmir Sigurjónsson, formaður Q – Félag hinsegin stúdenta á Íslandi
Hilmar Hildarson Magnúsarson, formaður Samtakanna ‘78 – félags hinsegin fólks á Íslandi