Jafnrétti hvað, enn ein greinin um jafnrétti kynjanna, var ekki búið að ná því? – kunna einhverjir að spyrja. Og máli sínu til stuðnings benda þeir á allar konurnar sem hafa látið til sín taka, leiðtogar, forsetar og ráðherrar, forstjórar og ég veit ekki hvað – og eru ekki konur komnar í meirihluta háskólamenntaðra?
Svörin við þessu er jú, við höfum vissulega færst nær jafnrétti kynjanna og farin að skilja hversu sjálfsagt það er. Einnig er að verða ljóst að framlag kvenna, sem meðal annars byggist á aukinni menntun og þekkingu, er gríðarlega mikilvægt fyrir eðlilega framþróun og vöxt samfélagsins.
Hins vegar sýna nýlegar alþjóðlegar rannsóknir, sem m.a. eru kynntar í nýútkominni skýrslu Alþjóða-vinnumálastofnunarinnar, að þrátt fyrir þessa þróun eru konur enn að rekast á veggi og glerþök þegar kemur að topp-stöðum og stjórnarsetu hjá fyrirtækjum – og er haldið frá háum stöðum þar sem m.a.eru teknar mikilvægar ákvarðanir um efnahagsmál.
Allt í lagi en hvað með það!? – Hvað erum við að væla um stöðu hvítra forréttindakerlinga, hvort þær fái að vera í forstjóraleik eða ekki? Af hverju erum við ekki að tala um raunverulegt misrétti, kúgun, ofbeldi og útskúfun, sem konur t.d. í hinum „vanþróaða“ heimi upplifa á hverjum degi? Mál sem varða líf og dauða?!
Um það þarf líka að fjalla og betur má ef duga skal. Það merkilega er hins vegar að í því misrétti og mismunun sem konur í efri lögum píramídans eru beittar, kristallast einmitt skýrt og greinilega hvers vegna þetta misrétti milli kynjanna hefur viðgengist og gerir enn. – Þarna liggur sem sagt hundurinn grafinn.
Engan skyldi undra að konur í lokuðum og vanþróuðum samfélögum, sem öldum saman hafa búið við undirokun feðraveldisins, brjótist ekki fram til fulls jafnréttis á við karla á einni nóttu. Hins vegar er áhugavert að skoða að þegar allar aðstæður eru eða ættu að vera jafnar, menntun og opið lýðræðislegt samfélag – hvað er það sem skapar hindranir og glerþök fyrir konur? Með því að skoða einmitt þetta getum kannski frekar afhjúpað þann hugsunarhátt sem viðheldur og réttlætir hið þrautseiga misrétti.
Fræðimaðurinn og jafnréttisfrömuðurinn Kate Millet sagði fyrir allmörgum árum að í nútíma feðraveldissamfélögum hefði konum vissulega opnast aðgangur að öllum stigum menntunar. Það segði þó ekki nema hálfa söguna þar sem menntun og valdapólitík séu svo samofin að þar hafi karlar haldið áfram að hafa yfirhöndina. Td. hafi skólar sem mest voru sóttir af konum ekki notið fjárframlaga ríkis og stórfyrirtækja í sama mæli og þeirra sem skilgreina mætti sem karlaháskóla.
Hún sagði menntun kvenna lengst hafa verið bundna við greinar utan þess hvar hin raunverulegu völd liggja. Menntun þeirra yrði því varla meira en takmörkuð útvíkkun á því hlutverki sem viðtekið hafði verið fyrir konuna, að afla sér hæfilegrar menntunar áður en gengið væri í hjónaband.
Þó þessar niðurstöður Millet séu aðeins komnar til ára sinna eru þær í fullkomnu samræmi við niðurstöður áðurnefndrar könnunar. Þar kemur m.a. fram að samhliða ört vaxandi hlut kvenna í háskólanámi þá virðist tilhneigingin vera í þá átt að þær fara gjarnan í störf sem síður myndu leiða til mikils „frama“, störf sem tengjast t.d. mannauðsstjórnun og almannatengslum.
Reglan virðist vera að hlutfall kvenna lækkar eftir því sem hærra er farið í valdastiganum. Þrátt fyrir að í 80 af þeim 108 ríkjum sem könnunin náði til hafi konum sem reka eigin fyrirtæki eða eru í stjórnunarstöðum farið fjölgandi, þá eru konur einungis um 5% forstjóra stærstu fyrirtækja heims.
Jafnframt sýna helstu niðurstöður þessarar könnunar að fjölgun kvenna á vinnumarkaði sé grundvöllur að þeim efnahagslega vexti sem átt hefur sér stað undanfarin ár. Um leið er áhugavert er að skoða að kynjabilið hvað varðar atvinnuþátttöku og efnahagsleg tækifæri í heiminum er nú um 60% – og hefur minkað um 4% síðan 2006. Með sama áframhaldi og forsendum myndi það þó enn taka 81 ár að ná fullum jöfnuði.
Já rólegur, segir einhver, þetta fer að ganga hraðar. Nei, ekki þegar forstjóri Microsoft segir konum beinlínis að halda kjafti og vera sætar. Að leiðin að því að leiðrétta það að þær fái einungis 78% þeirra launa sem karlar fá, sé að biðja ekki um hækkun heldur bíða og sjá, hafa trú á að verða umbunað á sanngjarnan hátt. – Góður! – eins og einhver segir.
Við Íslendingar erum vissulega komin hvað lengst í þessum málum. Tölurnar eru samt ekkert til að hrópa húrra fyrir því konur eru í minnihluta í æðstu embættum hins opinbera og við stjórnun fyrirtækja. Aðeins ein kona hefur gengt embætti forsætisráðherra en 26 karlar, af 20 borgarstjórum hafa þrír verið konur og ein kona gegnt forsetaembætti. Það sama er upp á teningnum hér sem annarsstaðar þegar kemur að fjármálakerfinu, aðeins um 7% af æðstu stjórnendum eru konur. – Þetta er greinilega allt að koma, eða ekki.
Feðraveldið hefur enn innbyggð tök á samfélaginu, það sýna m.a. athugasemdir frá fólki (líka konum) sem kvartar undan „þessum femínistum“ hvað þeir séu nú að væla þegar allt sé svo gott. – Ástandið hefur lagast en hvað varðar kynbundinn launamun var hann ennþá 20% á Íslandi árið 2014 – Sumum þykir það kannski bara allt í lagi.
Þetta er ekki bara eitthvert „femínistakjaftæði“. Þetta snýr líka að hreinum og klárum efnahagslegum hagsmunum. Væru konur á vinnumarkaði til jafns við karlmenn gætu t.d. Bandaríkjamenn aukið hagvöxt um 5%, Japanir um 9% og Egyptar um 34%.
Þetta er heldur ekki bara hugarfarslegt afturhald eins og það sem viðheldur „óútskýrðum“ launamun. Samkvæmt nýútkominni skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er réttur kvenna til atvinnuþátttöku beinlínis takmarkaður með lögum. Í 90% ríkja heims eru enn einhvers konar lagalegar hindranir sem snúa að kyngervi og 28 ríki hafa tíu slík lög.
Árið 1995 á kvennaráðstefnunni í Peking var helsta niðurstaðan og það sem sett var á oddinn sem verkefni framtíðar, væri að útrýma lagalegu misrétti milli kynjanna. Nú 20 árum síðar vantar talsvert upp á að takmarkinu sé náð.
En þá má líka spyrja, hvaða takmörkum er verið að ná og við hvaða aðstæður, viljum við það endilega? Það er ljóst að konur munu alltaf þurfa að taka á sig meiri ábyrgð sem snýr að barneignum. Það kemur í veg fyrir að þær standi jafnfætis körlum þegar krafan um vinnuframlag er mjög mikil.
Konur (og karla) langar kannski einnig til að eyða tíma með og hlúa að börnum sínum fyrstu árin, og það er ekki sjálfgefið að vinnuveitendur séu tilbúnir til að taka þátt í slíku. Reynslan sýnir líka að konur hverfa frekar frá vinnu sem kemur niður á starfsframa þeirra.
Þarna er ein mikilvægasta spurningin, viljum við endilega hafa þetta svona? Á metnaðurinn um starfsframa endilega að liggja í því að fórna tíma með börnum og heilbrigðu lífi fyrir óeðlilega langan og strangan vinnutíma, þar sem jafnvel er gengið nærri heilsu fólks? Að taka þátt í einhverju kapphlaupi þar sem hinir hafa augljóst forskot, þeir settu reglurnar.
Það skyldi engan undra að konur hiki aðeins við að hella sér út í þessa baráttu uppá skertan hlut þar sem reglurnar eru þeim í óhag og fá svo í bakið að þær séu slæmar mæður — hver á að hugsa um börnin? — spurði fólk með áhyggjusvip, þegar Þóra Arnórsdóttir var í forsetaframboði.
Höldum aðeins áfram, hverjir eru mótherjarnir? Eru það ekki karlar sem þrátt fyrir allt fá enn þá þau skilaboð að það sé að einhverju leyti eftirsóknarvert og jafnvel nauðsynlegt að vera hinn sterki, skaffa vel og sjá fyrir sinni fjölskyldu? – Það hentar þeim alls ekki að konur standi jafnfætis þeim á vellinum þegar skilaboðin og hugsunarhátturinn eru þannig.
Frami kvenna þýðir þá bara eitt, stöðu karla er ógnað og það eru dregnar átakalínur. Þarna er ég alls ekki að draga úr konum, segja þeim að slaka á og hætta að reyna að standa jafnfætis körlum, eða að segja að allir karlmenn reyni að berjast gegn konum. Það er hins vegar mikilvægt að skoða hvaða leikreglur eru í gildi. Það er ekki sanngjarnt að berjast þar sem forsendur eru skakkar og ójafnt gefið.
Þetta hefur auðvitað eitthvað breyst en gerist hins vegar fullhægt eins og rakið hefur verið hér að framan. Sumum þykir ástandið bara allt í lagi og pirra sig á röfli um feðraveldi og ímyndað misrétti – Það fólk kýs að líta fram hjá hvað „þessir femínistar“ eru búnir að áorka fyrir samfélagið, og gera sér tæplega grein fyrir hvert við erum þó komin, nema fyrir þá baráttu sem háð hefur verið og stendur enn.