Það er margt sem deilt er um á meðal femínista sem er hollt og gott fyrir hreyfinguna, en það er eitt sem virðist fá suma femínista til að vilja „skalla vegg þangað til það líður yfir þær“[1] og það er þegar einhver kona segir að hún sé ekki femínisti. Listum með nöfnum listakvenna er dreift reglulega á netinu þar sem farið er yfir stöðuna, hver segist vera femínisti og hver ekki.
Það olli mikilli gleði um daginn að Björk hafi minnst á feminisma í viðtali og Kayley Cuoco sem leikur í the Big Bang Theory þurfti að biðjast afsökunar á því að hafa sagt í viðtali að hún væri ekki femínisti.
Óþolinmæðin náði hins vegar hámarki þegar Women Against Feminism Tumblr og síðar Twitter og Facebook-síður voru settar upp, þar sem konur birta af sér sjálfsmyndir og texta sem útskýrir hvers vegna þær þarfnist ekki feminisma. Í fyrstu var gert mikið grín að þessu uppátæki, síðan var „flett ofan af því að þetta væru konur sem gerðu þetta af því að karlar sögðu þeim það“ og hægt er að lesa ótal blogg og twitter-samtöl þar sem rifist er um þessar myndir og gert lítið úr þeim konum sem þar koma fram.
Þessar konur eru sakaðar um að „hrækja á grafir“ látinna femínista, óvirða konur sem börðust fyrir kosningarétti og rétti kvenna til umráða yfir eigin líkama svo fátt eitt sé nefnt.
Margar viðurkenna að feminismi hafi fært þeim mikilvæg réttindi en telja að nútímafeminismi (þetta hugtak er oftast ekki skilgreint frekar) hafi villst af leið og snúi meira að því að berjast fyrir sérréttindum ákveðins hóps kvenna eða óþarfa hlutum (dæmi sem hefur verið nefnt er baráttan fyrir því að láta prenta mynd af konu á peningaseðil í Bretlandi þar sem einn femínisti gagnrýndi að hér væri baráttan fyrst og fremst táknræn en ekki nytsamleg, þ.e. það ætti í raun að einblína á að berjast fyrir því að konur (sérstaklega í láglaunastöðum) fengu meiri peninga í sinn hlut í stað þess að einblína á hvaða mynd væri á peningunum. Hérna væri augljóslega um að ræða feminíska baráttu sem væri háð af þeim konum sem næga peninga ættu.
Hvernig margar konur skynja feminisma litast oft af því hvernig feminismi birtist í fjölmiðlum. Fjölmiðlar eru duglegir við að birta „skrýtnar og skemmtilegar“ fréttir og eitthvað sem vekur athygli og umræðu. Þess vegna einblína þeir oft á táknrænu baráttuna en láta hina nytsömu eiga sig.
Ekki er þó hægt að kenna fjölmiðlum einum um því staðreyndin er sú að ekki eru allir femínistar skapaðir jafnir þegar kemur að aðgengi að fjölmiðlum og vettvöngum til að tjá skoðanir sínar.
Stærstu feminísku vefsíðunum, í Bretlandi a.m.k., er stýrt af hvítum millistéttarkonum og það eru þær sem eru eru alltaf kallaðar í öll viðtöl til að gefa sínar feminísku skoðanir á málefnum líðandi stundar. Þær hafa á þennan hátt skapað ráðandi feminískar orðræður og skilgreint hvað eru mikilvæg baráttumál og hvað ekki. Þær konur sem hafa aðrar áherslur og önnur baráttumál og vilja þar af leiðandi sjá öðruvísi feminisma hljóta lítinn sem engan hljómgrunn og eru ósýnilegar í umræðunni.
Ef fylgst er með internet-samræðum og greinaskrifum kvenna af litarhætti (e. women of colour) á netinu þá er viðvarandi sú tilfinning að þær eigi ekki heima innan feminisma sem oftast miðar að því að berjast fyrir réttindum hvítra millistéttarkvenna. Konur af litarhætti benda á að rasismi hafi verið hluti af feminisma frá byrjun og þær benda á að súffragetturnar hafi látið margt frá sér fara sem bendir til þess að þær hafi aðeins að berjast fyrir jafnrétti hvítra kvenna en ekki kvenna af litarhætti eða fátækra kvenna.
Þær segja að enn þann dag í dag séu konur af litarhætti ósýnilegar í kvennabaráttunni og skemmst er að minnast Óskarsverðlaunaviðtals við leikkonuna Patricia Arquette þar sem hún beinir sjónum sínum að kynbundnu launaójafnrétti þar sem hún sagði m.a. að nú væri kominn tími til að fólk af litarhætti (e. People of Colour)og LGBTQ fólk hjálpi nú konum í þeirri baráttu.
Fyrir margar konur af litarhætti var þessi ræða sönnun þess að þær væru enn ekki hluti af af hópnum konur, þegar kemur að feminískri baráttu. Fleiri hópar af konum, eins og t.d. kynlífssverkakonur, transkonur og trúaðar konur (sérstaklega Múslimakonur) tjá svipaðar tilfinningar, þar sem þeim finnst oft að þeim vegið úr búðum femínista og þar af leiðandi, eiga þær erfitt með að skilgreina sig sem femínista þrátt fyrir að styðja jafnréttisbaráttu kvenna.
Margar konur sem skilgreina sig ekki sem femínista kjósa frekar að nota hugtökin jafnréttissinni (e.egalitarian) eða kvensisti (e.Womanist) og telja að þessir merkimiðar nái betur að endurspegla þeirra hugmyndafræði þegar kemur að jafnréttisbaráttu.
Enn öðrum konum er neitað um að skilgreina sig sem femínista, og þetta á einkum við um konur sem vinna í kynlífsiðnaðnum eða þær sem skilgreina sig sem kynlífsjákvæða femínista. Oft er vísað til þeirra sem handbenda eða þjóna feðraveldisins og þeim er ekki treyst sem konum til að skilgreina sjálfar sig og sína jafnréttisbaráttu.
Þessi grein hefur farið á hundavaði yfir mismunandi sögur af konum sem finna sig ekki innan feminisma og margar hverjar neita að skilgreina sig sem slíkar þó svo að þær berjist fyrir jafnrétti kynjanna, LGBTQ fólks, trúarhópa, etnískra hópa og fólks af litarhætti.
Í þessu samhengi hafa nokkrar spurningar vaknað:
Hvaða hætta stafar af því að sumar konur skilgreini sig ekki sem femínista? Er ástæða til að taka til greina hvað þessar konur eru að segja eða munu femínistar halda áfram að afgreiða þetta sem misskilning, vanþekkingu og/eða heimsku? Er feminismi eina leiðin að jafnrétti? Skiptir það máli hvernig fólk skilgreinir sig og sína jafnréttisbaráttu? Er rétt að skamma konur fyrir að vilja ekki skilgreina sig sem feminista?
Höfundur er femínisti.
[1] Úr umræðuþræði á Facebook