Sunna Dís Jónasdóttir skrifar:
Mig langar aðeins að tala um tilfinninguna skömm. Þessi tilfinning er ótrúlega sterk og getur virkilega litað allt okkar líf. Gæti verið að það sé eitthvað í fari mínu þess eðlis að ef fólk vissi það þá yrði ég ekki samþykkt/samþykktur?
Skömm er tilfinningin að skammast sín fyrir að vera maður sjálfur og hún á aldrei rétt á sér.
Auðvitað búum við í samfélagi og það gilda ákveðnar skráðar og óskráðar reglur um viðeigandi hegðun hverju sinni. Það er samt ekki heilbrigt né fallegt að búa í samfélagi þar sem einstaklingar þora ekki að vera þeir sjálfir vegna þess að þeir skammast sín fyrir hverjir þeir virkilega eru inn við beinið. Við erum félagsverur og okkur er ekki sama hvernig aðrir hugsa um okkur.
Til að tengjast fólki þá þarf maður að berskjalda sig, maður þarf að sýna öðrum hver maður virkilega er, maður þarf að taka þá áhættu að einhverjum kunni ef til vill ekki koma til með að líka vel við mann. Maður þarf að finna hugrekkið og styrkinn innra með sér til þess að vera ófullkomin/n og vera viljug/viljugur til að sýna hver þú virkilega ert.
Það finna ekki allir þetta hugrekki og styrkinn sem krefst þess að standa virkilega berskjaldaður frammi fyrir öðrum, margir deyfa þennan ótta, deyfa skömmina. Vandamálið er að það er ekki hægt að deyfa slæmu tilfinningarnar sem gera okkur mannleg.
Þegar við deyfum óþægilegu og slæmu tilfinningarnar þá deyfum við líka hamingjuna og gleðina sem býr með okkur. Við deyfum þessar óþægilegu tilfinningar því þær gera þá kröfu til okkar að við komum fram á einlægan hátt og berskjöldum okkur. Það er þægilegra að láta sem ekkert sé.
Mín persónulega reynsla er sú að taka lítil skref í átt að lífi án skammar. Að byggja upp heilbrigða og sterka sjálfsmynd, þar sem þú finnur styrkleika þína og takmarkanir, að þú finnir hver þú virkilega ert.
Þegar þú hefur tekið þér góðan tíma í að sættast við sjálfan þig og ert farin/nn að elska þig eins og þú ert, þá minnkar skömmin og óttinn við að sýna öðru fólki þinn innri mann, óttinn við álit annarra dvínar þar sem þú sjálf/ur veist hver þín gildi eru og fyrir hvað þú vilt standa. Allt þetta minnkar þörfina fyrir samþykki og viðurkenningu annarra.
Gefðu þér bestu gjöf lífs þíns, að lifa lífinu þínu með sterka sjálfsmynd og það sem mikilvægast er – Lifðu án þess að skammast þín fyrir hver þú virkilega ert. Þú ert alveg fín/fínn eins og þú ert.
Ljósmynd af Flickr.