Tónlistarhátíðin Aldrei fór ég suður var haldin í tólfta sinn helgina sem leið. Samkvæmt Snarrótinni var lögregla mjög sýnileg á hátíðarsvæðinu og gengu um í 6 – 7 manna hópum með fíkniefnaleitarhund meðferðis.
Í samtali við lögregluna á Vestfjörðum kom í ljós að „lögreglan hefur almennt fíkniefnahund meðferðis á böll og aðra viðburði þar sem fólk safnast saman“ eins og Hlynur Snorrason, yfirlögregluþjónn orðaði það.
Hlynur Snorrason sagðist ekki hafa tölu á því hversu margir þurftu að þola leit lögreglu yfir hátíðina og vildi ekki taka þær tölur saman fyrir Kvennablaðið. Hann sagði að það væri auðvitað alvarlegur hlutur að leita á fólki, að það væri ekki eins og að drekka vatn. Þá sagði hann ákveðnar reglur gilda um líkamsleit og hversu langt lögreglan mætti ganga hvað þær varði en fékkst ekki til þess að lýsa þeim nákvæmlega.
Afrakstur löggæslunnar í þetta sinn var að lítilræði af kannabis fannst á einum manni á Ísafirði, eins og fram kemur á vef lögreglu.
Kristján Freyr, talsmaður Aldrei fór ég suður, hafði ekkert að athuga við vinnubrögð lögreglu og lýsti almennri ánægju með samstarf hátíðarhaldara og lögreglu allt frá því að hún var haldin í fyrsta sinn.
Að mati hátíðarhaldara hafi engum orðið meint af heimsókn lögreglunnar né hundsins og að þó þeir hafi ekki boðið lögreglunni að vera með eftirlit á hátíðinni þætti þeim það eðliegt vegna þess mannfjölda sem þar safnast saman.
Án þess að vita hversu margir voru teknir í líkamsleit er erfitt að segja til um hvort og þá hversu mörgum varð meint af heimsókn lögreglunnar. Ljóst er að það er óþægileg innrás á friðhelgi einkalífsins að láta ókunnuga manneskju leita í fórum sínum og vösum, jafnvel inn á fötin. Það er einmitt ekki eins og að drekka vatn eins og Hlynur Snorrason komst svo vel að orði.
Það er sjálfsagt að lögreglan hafi ákveðið eftirlit með hátíðum af þessarri stærðargráðu. Hins vegar ber að hafa í huga að lögreglan hefur takmarkað fjármagn og mannafla og því ber að íhuga vel í hvað tíma hennar er varið. Að eyða miklum tíma og mannafla í eftirlit með hátíðum sem almennt fara vel fram og nýta síðan það eftirlit til íþyngjandi aðgerða eins og líkamsleita ætti ekki að vera sjálfsagt mál. Aðgerðir sem þessar eru heldur ekki líklegar til þess að minnka neyslu heldur breyta þær neyslumynstri þeirra sem ætla sér að neyta vímuefna. Í stað þess til dæmis að taka smáræði af efnum með sér fær fólk sér frekar meira heima fyrir til þess að hafa ekkert á sér fyrir lögregluna að finna. Þá er mikilvægt að lögreglan kynni fólki betur réttindi sín þegar hún biður fólk um að fá að leita á því og að þær reglur sem um það gilda séu skýrar og aðgengilegar almenningi á vef lögreglu sem og í lögum og reglugerðum.